þriðjudagur, 4. janúar 2011

Saga húsbyggjanda II

Það er mikið rætt um það þessa dagana í pistlum og greinum að nú sé kominn tími til að íslendingar horfist í augu við sjálfa sig og stöðuna og hætti því að sakast í sífellu á við aðra. Það var ástæða pistilsins í gær, benda á göt í þeim forsendum sem sumir hafa gefið sér í umræðunni, sama á við um pistlana um krónuna. Í framhaldi af aths. og bréfum sem ég hef fengið vegna pistils gærdagsins langar mig til þess að rifja upp næsta kafla húsbyggingasögu okkar hjóna.

Nokkru eftir að ég hóf störf innan verkalýðshreyfingarinnar upp úr árinu 1985 hitti ég forsvarsmenn annarra norrænna rafiðnaðarsambanda. Þar var m.a. rætt um kjarasamninga og fram kom að þeir hefðu samið um 2 – 4% launahækkanir. Við höfðum þá nýlega lokið samningum sem innifólu tæplega 40% launahækkanir og ég greindi þeim frá þessu með miklu stolti. Viðbrögð þeirra komu mér í opna skjöldu, í stað viðurkenningar horfðu þeir sogmæddir á mig og spurðu „Hvað segirðu Guðmundur, voruð þið að semja um 40% launahækkun? Ef svo er þá hljótið þið að glíma við mjög alvarleg efnahags vandamál.“

Við íslendingar glímdum þá við nokkurra tuga prósenta verðbólgu og ég var að glíma við að koma mér upp litlu timburhúsi upp í Grafarvogi með aðstoð vina og vinnufélaga, mest í eigin vinnu eða skiptivinnu. Við hjónin höfðum þá klárað það að mestu að utan en allt ófrágengið að innan, búið að setja upp hluta af eldhúsinnréttingu og skrúfa niður klósettið. Þannig fluttum við inn, borðuðum Ora fiskibollur í öll mál, tókum engin frí, áttum tvo 10 ára bíla, sem ég hélt gangandi með viðgerðum fyrir utan húsið á kvöldin eftir langa vinnudaga. Manni tókst einhvernvegin að skrapa saman fyrir afborgunum af síhækkandi lánum og draga fram lífið með margskonar skuldbreytingum. Þar var fyrst árið 2005 að við kláruðum baðherbergið og þvottahúsið.

Frá stofnun Rafiðnaðarsambandsins höfum við samið um 3.600% launahækkanir, á sama tíma hefur danska sambandið samið um 330% launahækkanir, en þeir standa samt betur en við í kaupmætti. Í sjálfu sér segir þessi setning allt sem segja þarf um efnahagstjórnina hér á landi, en svo furðulegt sem það nú er þá voru sömu stjórnmálamenn endurkosnir til valda, og fréttamenn virðast alls ekki skilja svona augljósar og einfaldar staðreyndir.

Mér er oft hugsað til þess tíma sem ég var að koma út á vinnumarkaðinn um 1970 eftir 6 ára nám, fékk vellaunaða vinnu og var þar að auki í 2 öðrum störfum, hafði mikil laun og vann alla daga vikunnar langt fram á kvöld. Á þessum tíma voru almennu lífeyrissjóðirnir stofnaðir. Eftir að hafa greitt 10% af háum launum mínum í rúm 10 ár nam innistæða mín árið 1982 um það bil verði eins lambalæris.

Þá sögðu launamenn hingað og ekki lengra, þessa eignaupptöku valdhafanna á sparifé okkar verður að stöðva og það tókst. En núna er í raun sama staða uppi, þessi gerð stjórnmálamanna flutti margskonar tillögur um að ráðstafa þessu sparifé launamanna til þess m.a. að greiða upp skuldir annarra og ýmissa framkvæmda.

Í Birting Voltaires er kenning Altúngu um að allt sé í allrabesta lagi, vegna þess að það geti bara ekki verið öðruvísi. Þess vegna er vitanlega bjánalegt að vera að barma sér.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góð grein.

Hagsaga Íslands er saga - endalauss og vaxandi óstöðugleika - sem birtist í hruni og stórfelldum eignatilfærslum - frá sparifjáreigendum - eða skuldurum - eftri því hvaða áratug aldanna er verið að fjalla um.

Örsökin má - á endanum rekja til - smæðsta og hættulegasta gjaldmiðli vereldar sem - skoppar eins og korktappi - eftir mistökum í efnahagsstjórn eða öðrum áhrifum - innlendum sem erlendum - og skilur eftir sig gengiskollsteypur og verðbólgu - sviðna jörð - hjá almenningi og fyrirtækjum.

Fáráleikinn er fólginn í því að - þjóðin endurtekur alltaf sömu krónutilraunina - með vonlausan gjaldmiðil - eftir hvert áfllið - eins og versti alkóhólisti - eins og ekkert hafi skeð – og er fyrirmunað að læra af mistökunum.

Ef einhverjir hefðu sagt "hingað og ekki lengra í þessum fáránleika - krónutilrauna miklu fyrr" - t.d. 1994 þegar við gegnum i EES - og landið þá farið í ESB, væri staðan öðruvísi í dag, - hugsanlega eins og í Finnlandi. Þar var ekkert hrun á kostnað almennings í formi stökkbreyttra lána.

Á sama hátt - er framtíðin komin undir þeim sem segja "hingað og ekki lengra í krónutilraunum" nútíðar.

Munurinn á framhaldi á krónutilraunum nú og áður - er hinsvegar sá - að áður hafði landið efni á mistökum. Nú er það ekki svo – þjóðin mun ekki geta staðið undir skaða hruns af enn einni krónutilrauninni.

Framhald á krónutilraunum nú - mun því líklega kosta landið gjaldþrot innan fárra ára.

En þetta má víst ekki segja - þar sem allir eiga að vara svo jákvæðir.

Niðurstaða - þjóðin lærir ekkert - krónutilraunum verðu haldið áfram - og gjaldþrot þjóðar - er líkleg niðurstaða innan fárra ára - vegna þess að það vantar fleiri - til að segja hingað og ekki lengra.

Umræðan en ekki á dagskrá, nema á einstaka bloggsíðum eins og hjá Guðmundi. Það er hinsvegar ekki nóg.

Nafnlaus sagði...

Skil vel Guðmundur hvers vegna sum kommentin með fyrri pistlinum hafa verið svona ámátleg og mikið væl.

Þessir pistlar þínir eru svo beittir gagnvart þessum fáu og háværu sem hafa verið með heimtufrekjuna. Þeir ráða ekki við svona málefnalega gagnrýni.

Takk fyrir góða pistla. Eydís

Nafnlaus sagði...

Fínir pistlar og góð lýsing á þeim ömurlegu kjörum sem fólk bjó hér við.
Það breytir því hins vegar ekki að vísitalan var fölsuð þannig að gjaldið sem tekið var fyrir lánin varð allt og hátt. Þetta rán ber að leiðrétta. Við vitum það öll að þar til það hefur verið gert og það verður gert.Þá verður ekki friður til uppbyggingar í þessu landi.

Nafnlaus sagði...

Góð grein, gagnorð og þörf.

Nafnlaus sagði...

Fín yfirferð greinargóð og vel uppsett. Eins og þú bendir á í fyrri pistlinum komið þið út öfug úr því dæmi og hér er saga ykkar svipuð og fólk er að upplifa núna.

Þannig að það liggur augljóslega fyrir að þetta kjaftæði um að fólk hafi fengið gefins íbúðir og fleira í þeim dúr er rakalaus endaleysa eins og svo margt hefur verið í umræðunni.

Takk fyrir góða pistla og gleðilegt ár. Svenni