fimmtudagur, 6. janúar 2011
Jónsmessuorlof
Í framhaldi af pistli mínum um staka frídaga fyrr í vikunni hefur risið upp umræða um þetta mál og þegar rauðir dagar á svörtum lenda inn á öðrum rauðum dögum. Ég hef nokkrum sinnum áður fjallað í pistlum mínum um sambærilegar tillögur eins og hér og t.d. hér
Um þetta hefur verið fjallað í kröfugerðum rafiðnaðarmanna undanfarin tvo áratugi og er þar enn. Þar er lagt til að fimmtudagsfrídagarnir á sumardaginn fyrsta og uppstigningardag verið færðir að helgi í júní sem er næst 17. júní, jafnframt að tekið verði upp frí á aðfangadagsmorgun.
Í allmörgum löndum er fyrir margt löngu búið að flytja alla staka frídaga að helgum. T.d. er fyrsti vinnudagur á nýju ári oft frídagur, vegna þess að hátíðardagar hafa lent á laugardegi eða sunnudegi. Sumir halda því fram að hér séu mun fleiri frídagar en í öðrum löndum, það er alrangt, þeir eru í mörgum tilfellum færri hér á landi.
Það er ekki síður áhugamál fyrirtækja að taka upp þetta fyrirkomulag. Í mörgum iðnfyrirtækjum þarf að taka saman að lokinni vinnuviku, þrífa vélar og keyra þær niður. Stakur vinnudagur á föstudegi er þessum fyrirtækjum ákaflega óhagstæður. Keyra vélar upp til þess að vinna stuttan tíma og byrja svo að keyra þær niður aftur um hádegi. Sama á við um fyrirtæki sem þurfa að senda starfsmenn langt út á örkina til verkefna. Stakir frídagar eru þeim ákaflega óheppilegir og dýrir.
• 1. 17. lendir á fimmtudag.
• 2. 17. lendir á föstudag, tekur bara uppstigningardag út. Starfsmaður á inni
einn dag
• 3. 17. lendir á laugardag
• 4. 17. lendir á sunnudag
• 5. 17. lendir á mánudag og tekur bara uppstigningardag út. Við inneign starfsmanna bætist annar dagur. Hann á inni 2 daga.
• 6. 17. lendir á þriðjudag.
• 7. 17. lendir á miðvikudag. Hér fer annar inneignardagur starfsmanns þar sem hann fær 3 frídaga plús 17. Hringnum er lokað og starfsmaður á inni 1 dag.
Ef tekið væri inn í dæmið frí á aðfangadögum þá dugar inneign starfsmanns upp í tvo aðfangadaga, en fyrirtækin kæmu út með 2 og hálfan dag í mínus. En á móti má benda á hagræðið, auk þess að 17. júní er 2 daga inn á helgardögum, þannig að það jafnast út. SA hefur bent á nýgerða danska kjarasamninga sem fyrirmynd, þar var samið um frí á aðfangadagsmorgun.
Ef uppstigningardagur og sumardagurinn fyrsti væru fluttir að 17. júní, væri hægt mynda góða helgi fyrir fjölskyldur í lok skólaárs. Það fyrirkomuleg gefur umtalsverðar fjárhæðir inn í hagkerfið með aukinni ferðamennsku.
Sama á við um aðfangadag og staka frídaga mörg fyrirtæki gefa frí eða starfsmenn tilkynna einhverskonar fjarveru. Þar sem þetta er ekki síður hagstætt fyrirkomulag fyrir fyrirtækin er ekki óeðlilegt að leggja til að til þess að jafna upp stöðuna að setja inn í þetta dæmi frí á aðfangadögum.
Þetta kerfi gengur upp á 7 árum og er fyrirtækjum og launamönnum til hagsbóta og samfélaginu öllu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
9 ummæli:
Lýst mjög vel á þessar tillögur varðandi frídaga.
Held að almennt sé verði fólki minna úr verki og "veikindi" eru algengari á klemmudögum (vinnudagar sem falla á milli tveggja frídaga).
Þræll #83
Þetta myndi líka hjálpa fyrirtækjunum fimmtudagsfrí eyðileggja föstudaginn líka í framleiðslu Það er hægt að meta hagræðingu atvinnurekenda til fjár.
Guðmundur Rúnar
Sæll Guðmundur
Þetta er áhugaverð tillaga og líst mér vel á hana, en ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg töfluna og skýringarnar með henni. Þú ert að tala um að taka 2 frídaga og setja með 17 júní, og þegar ég skoða töfluna með það í huga finnst mér eins og ég skilji þetta, en textinn er eitthvað á skjön við skilning minn.
Ég hefði haldið að lína 1 og 6 væru eins, báðir frídagar notaðir, passar við útskýringartextann. Það sama gildir um línu 3 og 4, þar eru báðir frídagar nýttir. En ég hefði haldið að lína 2 og 5 væru eins, annar frídagur nýttur, en í skýringartexta er eins og bara annar dagurinn sé nýttur í línu 2 en hvorugur í línu 5, Starfsmaður á inni 2 daga? Á þetta ekki að vera 1 dagur?
Og síðan skil ég ekki útskýringuna með línu 7, að starfsmaður eigi inni 1 dag, skuldar hann ekki 1 dag í því dæmi?
Þú mættir útskýra aðeins betur hvað þú átt við í línu 7 (þar sem ég er nokkuð viss um að þetta sé villa í línu 5 um að starfsmaður eigi inni tvo daga)
Kveðja,
Guðjón
Samþykkt!
Verkalýðsbarátta hér í Kanada er dálítið ólík því sem gerist á Íslandi, því það er ekki skylda að vera í félagi.
Frídagalögin gilda fyrir alla, og ef að þjóðhátíðardagur, jól, eða aðrir hefðbundnir frídagar lenda á laugardegi eða sunnudegi, er bætt við auka frídegi á mánudegi. Flestir frídagar (fylkjadagar, Victoriudagur o.sv.fr) ber alltaf upp á mánudögum, svo allir geti notið langrar helgi. Eitthvað sem vert væri að stefna að, á ári þegar launafólki er svipt fjölda hefðbundinna frídaga.
Sum verkalýðsfélög hafa þegar samið um frí á aðfangadag. Mér líst ágætlega á þessa hugmynd. Gott væri líka að flytja frídaga sem falla á helgi og aðra frídaga yfir á næsta vinnudag.
Sæll Guðjón
Ég er búinn að laga aðeins skýringartextann, vona að hann sé skýrari núna.
Það sem ég átti við í línu 2. að starfsmaður eignast inneign upp á einn frídag þegar hann fær bara einn frídag plús 17.
Sama á við í línu 6. þannig að þá á hann inni 2 frídaga.
Þegar við komum í línu 7 fær starfsmaður einn aukafrídag, það er 3 daga umfram þann 17. Við það breytist inneign hans í 1 frídag. Sem ég sting upp á nýta til þess að gefa frí á aðfangadagsmorgun.
Jú það er rétt að sumir hafa samið um þann rétt, en það verður örugglega átakalaust að taka út meiri launahækkun, eða færa þann frídag annað.
Sæll Guðmundur.
Ef engin verður þjóðkirkjan hvað þá með Uppstigningardag og aðra frídaga trúarinnar, detta þeir ekki út?
Jón
Það er nú langt sótt að tengja helgidaga íslensks samfélags við "hina evangelisku kirkju sem skal vera þjóðkirkja á Íslandi" svo vitnað sé til 62. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.
Kirkjan og kristnir söfnuðir munu starfa hér áfram þó þessari málsgrein stjórnarskrárinar verði breytt.
Það liggur fyrir að 64. grein myndi standa þó svo orðalagi 62. gr. yrði breytt. En þar stendur m.a. "Engin má neins missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna"
Skrifa ummæli