mánudagur, 26. nóvember 2007

Komum skúrkunum til fógeta


Það er æði oft sem okkur hættir til að bera sakir á ranga aðila, gera þeim upp skoðanir og dæma þá eftir hinum uppgerðu skoðunum. Steininn tekur þó úr þegar þeir sem valda misréttinu fara að bera sakir á saklaust starfsfólk sitt.

Reglulega sjáum við harkaleg ummæli um starfsfólk Tryggingarstofnuna og þar ekki síst forstjórann, þar sem bornar er fram sakir, ja ef maður tekur til orða eins og skammirnar eru, að starfsfólkið með forstjórann í broddi fylkingar ráðist viljandi og með ásetning að öldruðum og öryrkjum og hafa af þessu fátæka fólki peninga. Svo einkennilegt sem það nú er það heyrir maður suma alþingismenn taka þátt í þessu.

Ég er búinn að vera í þessum bransa í 17 ár, eins og segir ágætu kvæði alþýðuskáldsins Ladda, og veit að það eru alþingismenn með ráðherra í broddi fylkingar sem setja lög og starfsreglur Tryggingarstofnunar, ekki forstjórinn og þaðan af síður starfsfólkið. Einhverra hluta vegna finnst mér að fréttamenn ættu að vita þetta líka.

Það er skiljanlegt að bótaþegum sé misboðið þegar þeim er árlega gert að endurgreiða hluta þeirra bóta sem þeir fengu sendar næstliðið ár. Ekki síður vegna þess að ég veit að þessar bætur eru ekki miklar, oftast eitthvað liðlega 100 þús. kr. á mán. En svona eru reglurnar og það er Alþingi sem settur þær. Eins og glögglega hefur komið fram í ummælum umboðsmanns Alþingis, og í dómum Hæstaréttar og Evrópudómstólsins um kerfið, þá skortir Alþingismönnum greinilega yfirsýn yfir hvað þeir eru að gera. Þar hefur komið fram að um þriðjungur laga sem Alþingi setur stangast á við önnur lög.

Lög og reglugerðir alþingismanna um almenna tryggingarkerfið eru margendurbætt með árlegum inngripum þar sem alþingismenn hafa í hvert skipti tekist á eitthvert einstakt atriði án yfirsýnar eða tillits hvaða áhrif það hefði á aðrar reglur.

Almenna tryggingarkerfið er í dag algjörlega ónýtt, það orðið eins og bíl sem búið er að setja í tvo auka gírkassa, þrjú bremsusett, 4 stefnuljósa rofa. Alþingismenn eru svo undrandi að starfsfólk tryggingarkerfisins takist ekki að aka bílnum fyrirhafnarlaust þangað sem honum er ætlað að fara.

Þingmönnum hefur hingað til ekki tekist að lagfæra kerfið, en eins og svo oft áður þá voru það aðilar vinnumarkaðsins sem sögðu að þetta gangi ekki lengur og settust að því verkefni að draga upp mynd nýs Áfallatryggingarsjóðs með stórbættu bótakerfi, sem því miður virðist ekki ætla að takast vegna andstöðu alþingismanna.

Á síðustu öld reyndi verkalýðshreyfingin ítrekað en árangurslaust, að fá Alþingi til þess að laga íslenska bótakerfið og koma því í nálægð við það norræna. Þegar það gekk ekki, þá var í gegnum kjarasamninga með miklum verkföllum tekið til við að byggja upp kjarasamningsbundinn veikindarétt, sem er hér á landi mun lengri en er í öðrum löndum, sjúkrasjóðskerfi sem er hér mun öflugra en þekkist í öðrum löndum, og svo lífeyriskerfi sem önnur lönd eru hvert á fætur öðru að taka upp.

Þarna er að finna þann mismum á sköttum á Íslandi og öðrum norðurlöndum. Það er atvinnulífið sem greiðir þessa skatta og launamenn í gegnum lægri laun. Veikinda- og sjúkrasjóðsrétturinn kostar um 8% og lífeyris- og örorkubótarétturinn 12%. Ef þetta kerfi yrði lagt niður og við tækjum upp sama kerfi og tíðakast á hinum norðurlöndunum myndu tekjuskattar hækka um vel á anna tug prósenta og dagvinnulaun líka, en við sætum í raun í sömu stöðunni réttindalega séð.

Allan þennan tíma sátu aðilar vinnumarkaðsins undir allskonar ávirðingum frá einstaklings-hyggjumönnum, sem núna hafa orðið að viðkenna að þessi kerfi eru feikilega góð og þeir eru að endurskrifa söguna með þeim hætti að það hafi verið þeir sem bjuggu til þessi kerfi.

En það þarf að stilla þau saman. Alþingismenn hafa unnið mikil skemmdarverk á tryggingar-kerfinu sérstaklega lífeyriskerfinu á undaförnum árum, eins og við öll vitum. Með því að stilla saman veikindarétt í kjarasamningum, bótakerfi sjúkra- og lífeyrissjóða og svo almenna tryggingarkerfinu, er hægt að búa til farartæki sem fer í þá átt sem við viljum, án þess að annað kerfi í sama bílnum vinni gegn þeirri stefnu sem við viljum ná. Þetta skilar bótaþegum mun hærri réttindum. Alþingismenn hafa aftur á móti komið því þannig fyrir að 40% bótanna renna niður um einn vasa bótaþega og upp þeim næsta þráðbeint í ríkissjóð.

Við sem í störfum í nálægð við þetta kerfi vitum hvernig það virkar. Það er ekki við starfsmenn kerfisins að sakast, svo ég vitni aftur í alþýðuskáldið Ladda, við ættum að takast á við skúrkanna og koma þeim til fógeta.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þessum orðum þínum gef ég 7 Stjörnur!
Gangi þér vel!!!

Nafnlaus sagði...

Þessum orðum þínum gef ég 7 Stjörnur!
Gangi þér vel!!!