miðvikudagur, 21. nóvember 2007
Maður líttu þér nær
Kaffiskúr á íslenskum vinnustað fyrir erlenda starfsmenn.
Mér fannst margt af því sem sagt var í síðasta Silfri harla einkennilegt, ekki síst það sem sagt var þar um erlenda launamenn. Það hefur farið fram ítarleg opinber umræða um stöðuna á vinnumarkaði meðal þeirra sem þar starfa, en einhverra hluta vegna virðist hún ekki ná til ákveðinna manna.
Eftir sameiningu vinnumarkaðar í Evrópska efnahagsbandalaginu hefur óttinn við flæði fólks frá fyrri Austur-Evrópuríkjum verið mikill hjá Vesturríkjunum. Fyrirtækjaeigendur hafa haldið því fram að þau verði að fá ódýrt vinnuafl til þess að standast samkeppnina og það hafa stjórnvöld fallist á og lítið gert lítið til þess að koma skipulagi yfir innflutning á erlendum farandverkamönnum. Þessi rök standast ekki til langframa. Samkeppnisstaða byggist á góðu framboði á velmenntuðu og hæfu starfsfólki.
Til langs tíma litið munu góð laun og vinnuaðstaða laða til sín góða starfskrafta og fyrirtæki sem búa við þá stöðu verða sterkari og geta gert langtíma áætlanir. Noregur er gott dæmi um þetta, þar hefur verið unnið ötullega í því að jafna stöðu innflutts vinnuafls, næg vinna er í landinu og laun góð. Það er áberandi hvernig norðmenn hafa tekið á móti erlendum launamönnum og fylgst vel með því að aðbúnaður standist allar kröfur og laun séu rétt. Þetta hefur leitt til þess að þangað hefur besta fólkið leitað og norsk fyrirtæki hafa getað valið úr, reyndar ekki bara austur-evrópubúum. Í Noregi eru í dag liðlega 200 þús. erlendir launamenn. Svíar eru áberandi í heilbrigðisþjónustunni þar og í Noregi eru að störfum 2.000 sænskir rafvirkjar og 600 danskir.
Ef við lítum á hvernig íslensk stjórnvöld brugðust við, þegar í ljós kom að laun og aðbúnaður verkafólks í Kárahnjúkum var langt fyrir neðan sett mörk. Vinnubúðirnar voru þær lökustu sem reistar hafa verið á Íslandi og þó víðar væri leitað, héldu hvorki vatni né vindi og verkafólkið átti þar ömurlegan fyrsta vetur. Portúgalarnir reyndu eins og ítrekað kom fram í fréttum, að lagfæra búðirnar með því að líma húsin saman með frauðplasti og skýla sér með dagblöðum. Þáverandi ráðherrar börðust opinberlega gegn öllum athugasemdum byggingareftirlits og trúnaðarmanna, sem leiddi til þess að það tók allt að einu ári að ná fram úrbótum, enda flúðu Portúgalarnir frá Kárahnjúkum.
Það er fyrst nú sem stjórnvöld eru farin að taka á þessum málum af markvissri stefnufestu. Fyrir ári voru sett hér framsækin lög um úrbætur í skráningu á erlendu launamönnum og eftirliti með fyrirtækjum og starfsmannaleigum. Verkalýðshreyfingin átti drjúgan þátt í mótum þessara laga og fagnaði staðfestingu þeirra, reyndar með örfáum undantekningum sem blönduðust í kosningabaráttu eins flokks. Íslensk fyrirtæki hafa kvartað undan því að hingað leiti ekki nægilega mikið af hæfu fólki. Ef við ætlum að byggja upp samkeppnishæft atvinnulíf verðum við að ná hingað besta fólkinu.
Það þarf ekki að skrifa langan texta til þess að upplýsa fólk um hvers vegna svona vont orð fer af íslenskum vinnumarkaði meðal launamanna í sunnanverðri og austanverðri Evrópu. Það mun taka tíma að lagfæra þann skaða sem aðgerðaleysi stjórnvalda hefur valdið. Lág laun erlendra byggingarmanna og lakur aðbúnaður hefur ekki skilað sér í lækkandi verði fasteigna, þvert á móti. Það eru einungis fjárfestar og eigendur starfsmannaleiganna sem hafa hagnast á þessu ástandi. Eftir sitja hlunfarnir erlendir launamenn og íslenskum byggingarmenn með lakari launaþróun og kaupendur íbúða, sem í vaxandi mæli virðast vera gallaðar.
Hvað er það sem veldur því að starfsmenn sína vinnuveitanda sínum tryggð og skila góðum vinnudegi? Hvað er það sem leiðir til þess að fólk sínir umhverfi sínu virðingu? Eru erlendir launamenn öðru vísi en við?
Hvernig myndir þú lesandi góður, ég reikna með að þú sért íslenskur, bregðast við ef þínir vinnuveitendur kæmu fram við þig eins og rakið er hér að ofan og margoft hefur komið fram í fjölmiðlum? Ef þú ert með góða menntun og ráðinn til starfa á því sviði, en þegar þú sérð launin þá kemur í ljós að þú ert á unglingataxta ófaglærðs verkafólks. Ef þú bæðir um launaseðil þá værir þér svarað með skæting og hótunum. Ef þú værir vegna vinnu þinnar staðsettur t.d. í Póllandi í eitt ár og umhverfi þitt væri með þeim hætti sem íslensk fyrirtæki búa gestum okkar? Ef umfjöllum um allt sem miður færi í samfélaginu væri beint að þér?
Er nú ekki kominn tími til að við skoðum þann vanda sem við kvörtum undan í eigin ranni og tökum upp betri háttsemi við það fólk, sem er komið hingað vegna þess að okkur vantar vinnuafl. Vel menntað fólk sem er tilbúið til þess að ganga í mörg störf sem við viljum ekki vinna sjálf. Fólk sem kemur frá elstu menningarþjóðum Evrópu. Fólk sem kemur frá samfélögum sem ekki eru þjökuð af fyrringu og græðgi.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Heyr, heyr!
Skrifa ummæli