fimmtudagur, 23. apríl 2009

Efnahagspekingurinn Pétur Blöndal

Það er margt einkennilegt sem fram kemur í yfirlýsingum frambjóðenda á fundum. Eitt það einkennilegasta og reyndar ómerkilegasta sem ég hef heyrt eru fullyrðingar Péturs Blöndals um að hrunið hefði orðið margfalt meira ef við hefðum haft Evru þegar það skall á. Þessi klisja hefur reyndar heyrst allnokkrum sinnum og hefur jafnoft verið leiðrétt en þrátt fyrir það er þessum hræðsluáróðri haldið áfram.

Við búum ekki einungis við bankakreppu eins svo mörg önnur lönd, okkar alvarlega staða er fólgin í gjaldeyriskreppu. Hún kallar yfir okkur mjög háa vexti. Ef við hefðum verið með Evru núna hefðum við verið um 3 - 4% verðbólgu, enga verðtryggingu og vexti á húsnæðislánum um 4% og í viðskiptum um 4 -5%. Fyrirtækin hefðu getað átt eðlileg viðskipti með nothæfum gjaldmiðli og ekki væru hér gjaldeyrishöft. Kostnaður af krónunni er óheyrilegur; fyrir bankahrun áætluðu sérfæðingar að við greiddum að jafnaði 3-3,5% hærri vexti vegna þess að við byggjum við litla og óstöðuga mynt.

Einnig má benda á fall krónunnar og hækkun verðlags fyrir heimili og innflutt aðföng. Gengi krónunnar var ríflega 80% veikara í janúar á þessu ári en á sama tíma í fyrra og innkaupsverð innfluttra vara hefur hækkað í takt við það. Þá höfðu laun í janúar hækkað um 7,5% á síðustu tólf mánuðum, greidd húsaleiga skv. vísitölu neysluverðs hækkað um 27% og almennt verðlag um ríflega 18% á sama tímabili.

Í sjálfu sér er ekki hægt að draga nema eina niðurstöðu af þessu. Pétur Blöndal og hans skoðanabræður eru fullkomlega óhæfir til þeirra starfa sem þeir hafa sinnt. Þeir hafa greinilega ekki minnsta vit á efnahagsmálum, þaðan af síður efnahags- og peningastjórn og allra síst á regluverki og þeirri eftirlitsskyldu sem þeir voru kjörnir til. Það var ríkið sem brást almenning, ekki fólkið stjórnvöldum, eins og þessir þingmenn hafa haldið fram.

Það liggur fyrir að með áframhaldi krónunnar munu stór íslensk fyrirtæki verða að flytja höfuðstöðvar sínar héðan. Við erum búin að glata öllu trausti, og það mun taka okkur langan tíma að byggja það upp á ný.

Ef við náum ekki samkomulagi við þá sem við skuldum mun niðursveiflan dragast enn frekar á langinn. Helsti efnahagsspekingur fyrrverandi ríkisstjórna ætlar í stríð við Bretland, Holland og Norðurlöndin. Hann myndi verða maður af meiri ef hann viðurkenndi að allur málflutningur íslenskra stjórnvalda seinni hluta síðasta árs var rangur og bæðist afsökunar á því. Þessi málflutningur hefur skaðað okkur og valdið óþarfa óvissu hér á landi.

Engin ummæli: