sunnudagur, 26. apríl 2009

Sigur atvinnulífsins

Niðurstaða kosninganna er í samræmi við þær spár sem hafa verið gerðar, reyndar var kjörsókn mun meiri en ég átti von á. Reyndar finnst mér það vera sigur fyrir Sjálfstæðismenn að tapið skuli ekki vera meira, sé litið til þess að flokkurinn hefur stjórnað og mótað þá efnahags- og gjaldmiðilsstefnu sem fylgt hefur verið og við stöndum yfir sviðinni jörð þessarar stefnu. Niðurstaðan er sigur Evrópusinna og forsvarsmanna atvinnulífsins.

Styrkjamálið hlaut að komu upp á yfirborðið, það er búið að grassera í umræðunni allt þetta ár og hlaut að vera starfsmönnum og þingmönnum flokksins ljóst. Það er að segja ef þeir eru í sambandi við umheiminn. Flokkurinn þáði tugi milljóna í styrki á sama tíma og hann vann með öðrum flokkum við að setja leikreglur sem byggðust á því um að það væri hættulegt lýðræðinu að stjórnmálamenn og flokkar væru að þiggja stóra styrki frá fjármálamönnum og taka frekar aukna fjármuni úr ríkissjóð til stjórnmálaflokkanna.

Það blasir við hvaðan þessi peningar koma í raun og veru, ekki komu þeir af himnum ofan. Ekki er til ókeypis málsverður eins og hugmyndasmiður flokksins hefur réttilega svo oft sagt. Þetta er augljóslega hluti af því góssi sem fjármálamennirnir mokuðu út úr hagkerfinu og nýttu til þess að tryggja áframhald þá verandi gjaldeyris- og efnahagsstefnu. Þetta er hluti af þeim skuldum sem eru að lenda á heimilum landsmanna.

Sjálfstæðisflokkurinn tryggði sér styrkina ásamt fjárframlögunum úr ríkissjóð. Það liggur í loftinu að ekki séu öll kurl kominn til grafar hvað varðar þessi fjárframlög. Það eru líkur á því að einhverjir verði að taka pokann sinn.

Innihaldslaust málþóf þingmanna flokksins í stjórnarskrármálinu og umræðum um stjórnlagaþing og reyndar framkoma þeirra í þinginu í vetur eins og Spaugstofan hefur lýst svo vel og var margspilað í nótt, hefur verið þingmönnum flokksins til mikillar minnkunar.

Hún var einkennileg kosningabaráttan sem flokkurinn setti upp. Einkenndist helst af spuna um hvað aðrir flokkar ætluðu að gera og hvernig Flokkurinn ætlaði sér að koma veg fyrir þessi ímynduðu spellvirki og verja landsmenn. Ekki var nokkur fótur fyrir þessu og ódrengilegt svo ekki sé nú meira sagt. Lítið annað kom fram í kosningabaráttu flokksins.

Niðurstaða landsfundar Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum var ótrúverðug. Þar gekk flokkurinn þvert á vilja atvinnulífsins og gegn nauðsynlegum grunni fyrir uppbyggingu þjóðlífsins. Það hefði nú þótt saga til næsta bæjar fyrir nokkru að Samfylkingin væri orðin málsvari fyrirtækjanna, en Sjálfstæðismenn helsti andstæðingar atvinnulífsins.

Útspil um einhliða upptöku Evru í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var barnalegt svo ekki sé nú meira sagt. Ekki bættu viðbrögðin þingmanna flokksins þegar svörin bárust. Það væri óþolandi afskipti embættismanna af stefnu Sjálfstæðisflokksins að benda honum á að það væri ekki Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn sem hefði með Evruna að gera.

Líklega spilaði Illugi sig þarna endanlega út úr þessum málaflokki, þetta var svo svakalegur fingurbrjótur. Flokksforystan hlýtur að setjast niður og endurskoða öll atriði. Ekki myndi nú saka ef starfsmenn og þingmenn flokksins myndu byrja á því að taka tilbaka þá fullyrðingu að flokkurinn komi fyrst og fólkið skipti litlu máli. Hætta tilskipunum og hrokanum gagnvart öðrum. Hlusta frekar á fólk af auðmýkt og taka þátt í lífinu í landinu.

T.d. liggur það augljóslega fyrir að Flokkurinn væri í allt annarri stöðu nú að morgni kosningarnætur ef hann hefði t.d. hlustað á það sem við úr atvinnulífinu höfum reynt að koma á framfæri við flokkinn undanfarin ár.

Engin ummæli: