laugardagur, 25. apríl 2009

Stétt með stétt

Einu sinni var helsta boðorð Sjálfstæðisflokksins "stétt með stétt". Flokkurinn var þá hægri sinnaður krataflokkur, sem rúmaði jafnt fyrirtækjaeigendur og launamenn. Menn vildu losna undan höftum og fá frelsi til athafna. Öll mín stórfjölskylda fylgdi flokknum. Ég kaus flokkinn og var í borgarstjórn fyrir hans hönd.

Á undanförnum áratugum hefur Sjálfstæðisflokkurinn leiðst sífellt lengra í átt til sérhagsmunagæslu og frjálshyggju. Undir hans stjórn hefur misrétti aukist jafnt og þétt. Skattar aukist á þeim efnaminni á meðan sköpuð hafa verið undanfæri fyrir þá efnameiri.

Flokkurinn hefur hlaðið undir stóreignastéttina gegnum einkavæðingu og kvóta. Svo langt eru forsvarsmenn flokksins leiddir að þeim finnst ekkert athugavert við að taka við tugmilljóna styrkjum frá fyrirtækjablokkum.

Flokknum finnst ekkert athugarvert við að hafna breytingum á stjórnarskrá og koma á stjórnlagaþingi þó svo mikill meirihluti þjóðarinnar vilji það. Honum finnst ekkert athugavert þó hann beiti lýðræði á Alþingi ofbeldi með innihaldslausu málþófi til þess og tefja með því nauðsynlegar endurbætur fyrir heimilin í landinu.

Flokknum finnst ekkert athugavert að ganga þvert á vilja mikils meirihluta fyrirtækja í landinu og samtaka launamanna og stendur gegn þeim grundvallarbreytingum verður að gera á efnahagskerfinu eigi að reisa atvinnulífið við. Forvarsmenn flokksins leggja meira upp úr að viðhalda völdunum og því stjórnkerfi sem hann kom á.

Ég hef að undanförnu setið fundi þar sem nokkrir forsvarmenn úr atvinnulífinu hafa hitt forsvarsmenn stjórnmálaflokkanna. Allir hlustuðu á það sem við höfðum fram að færa og ræddu vanda atvinnulífisins við okkur og úrbætur. Einn flokkur gerði það ekki, í stað þess að ræða málin þá snéru forsvarsmenn flokksins sér að því að segja okkur fyrir verkum. Við værum á rangri braut. Ekki Sjálfstæðisflokkurinn. Svo einkennilegt sem það nú er þá finnst mér blasa við að meirihluti flokksmanna Flokksins vilji ganga í ESB, en það er flokksforystan sem vill það ekki umkring útgerðarmönnum.

Eftir það sem gerst hefur undir efnahags- og peningastjórn Sjálfstæðisflokksins myndi maður ætla að hann nálgaðist kjósendur af auðmýkt. Svo er ekki. Frambjóðendur flokksins nálgast kjósendur með hroka og þótta. Auglýsingar flokksins hafa einkennst af útúrsnúningum á tillögum annarra. Jafnvel hefur verið gengið svo langt að gera öðrum flokkum upp stefnur og þær síðan auglýstar í heilsíðu auglýsingum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur mislesið tíðarandann fullkomlega og er á harðahlaupum við að tryggja eigin tilvist. Frammámenn Sjálfstæðisflokksins virðast ekki einu sinni leiða hugann að því að þeir eigi sök á gjaldmiðils- og bankahruninu og keyrðu hagkerfið í kaf, þar ríkir fullkomin afneitun.

Í kosningabaráttunni hika frambjóðendur Flokksins ekki við að halda því fram að þeim einum sé treysta fyrir efnahagsstjórninni!! Flokkurinn er orðinn að afturhalds- og hræðslubandalagi sem sér óvini allsstaðar. Meir að segja í flokksmeðlimum.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

heyr heyr

Enda þarf fólk að skjósa alvöru jafnaðarmenn eins og jóhönnu.

Nafnlaus sagði...

Það var nú ekki bara SjálfstæðisFLokkurinn sem lak til hægri.
Ég studdi Samfylkinguna af afli en þar gleymdi forystan einnig uppruna sínum og lak hratt til hægri. Reyndar var það annað sem varð til þess að ég hætti að styðja Samspillinguna. Það var ekkert verið að sinna fólkinu landinu og misskipting auðs og allt það sem óð uppi allstaðar sem nú hefur komið fram.

Teitur Atlason sagði...

Stétt með stétt er orðatiltæki sem rekja má beint og án milliliða til inn í orðræðu fasismans http://www.dv.is/blogg/eimreidin/2012/9/26/frumstefnasjalfstaedisflokksins/