sunnudagur, 12. apríl 2009

Krónan

Nú stendur yfir í boði stjórnvalda blóðsúthellingalaus leiðrétting á kaupmættinum, eins og stuðningsmenn krónunnar segja til varnar áframhaldandi tilvistar hennar. Krónan er okkur dýr, rándýr. Tilvist hennar kallar á miklar sveiflur og hærri vexti. Áætlanagerð er nánast vonlaus og tilvist krónunnar býr okkur umhverfi hárra vaxta og verðtryggingar.

Útflutningur er forsenda búsetu í landinu og áhrifamikill um gengi krónunnar. Náttúrulegar sveiflur í fiskveiðum ásamt sveiflum í verðlagi hafa verið leiðréttar með handafli stjórnvalda í gengi krónunnar. Aukning orkubúskapar og aukinn iðnframleiðsla hefur unnið að nokkru á þessum sveiflum hefur skapað aukna möguleika á stöðugleika, þ.e.a.s. ef efnahagsstjórnun er rétt.

Harla einkennileg umræða hefur farið fram í vetur um verðtryggingu og hafa þeir sem hæst hafa haft ekki litið til þeirra forsenda, sem urðu til þess að stjórnvöld gripu til þess ráðs að setja á lög um verðtryggingu 1983. Stórkostleg eignaupptaka átti sér stað á áttunda áratugnum. Stjórnvöld settu á neikvæða vexti þannig að allt sparifé og lífeyrissjóðir gufuðu upp. Gríðarlegt fjármagn var fært til þeirra sem nutu þeirra forréttinda að fá lán.

Til þess að vinna gegn þessu og skapa forsendur lánsfjármagns tókst loks að ná þjóðarsátt um stöðugra verðlag og jákvæða ávöxtun. Það skapaði forsendur til að fólki stóð til boða langtímalán. Verðtrygging er greiðslumiðlun á háum vöxtum og nú er Landsbankinn að bjóða upp á annað form greiðslumiðlunar á háum vöxtum, sem þó svipar til þess eldra.

En stjórnendur fjármálakerfisins þróuðu með sér nýtt form forréttinda fólgið í að útvöldum stóðu til boða gríðarleg lán án þess að þurfa að leggja fram tryggingar, sem nýtt voru til þess að gíra upp hlutabréf og ná út úr hagkerfinu milljörðum króna. Ofurlaun, bónusar, premíur, styrkir auk pólitískra hyglinga og kúlulána varð að skiptimynt innan útvalins hóps.

Fjármagn til þessa kom ekki af himnum ofan frekar en áður. En stjórnarþingmenn undanfarinna 18 ára virðast hafa staðið í þeirri trú að þeir væru ásamt fjármálamönnum og forseta Ísland búnir að finna upp kostnaðarlausa aðferð til þess að útbýta ókeypis málsverðum, glysferðum erlendis og á bökkum íslenskra laxveiðiperlna, ásamt tugmilljóna styrkjum til stjórnmálaflokka. Það var fjármagnað okurþjónustugjöldum og gríðarlegum vaxtamun, ásamt lakari ávöxtun eða verðfalli á eignastýringum sparifjáreigenda.

Greiðandinn var hinn sami og áður, almennir launamenn og skattgreiðendur. Það er einungis ein leið út úr þessum vanda, hún felst í því að koma stjórnkerfinu inn í annað umhverfi þar sem stjórnmálamenn komast ekki upp með jafnóvandaða stjórnarhætti og þeir hafa þróað í tíð ríkisstjórna síðustu 18 ára.

Ná verður stöðugleika og lágri verðbólgu. Það er forsenda lágra vaxta og endanlegu afnámi verðtryggingar, hvaða nafni sem bankamenn kjósa að kalla hana. Upptaka annars gjaldmiðils mun taka einhvern tíma. Eitt brýnasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að hefja þetta ferli strax eftir kosningar og þá með því að endurskoða vísitölugrunninn.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sammála þér um verðbólguna. Það sem verður samt að hafa í huga að í verðbólgubálinu í kringum 1980 þá voru það sannarlega þeir sem voru með lán sem græddu á kostnað þeirra sem fé áttu, en stærsti skuldarinn var auðvita ríkið sjálft. Með verðtryggingunni er fé fjármagnseigenda tryggt en þá á kostnað þeirra sem skulda. En með krónunni erum við búin að finna nýtt fórnarlamb fyrir okkur, þ.e. með veikingu krónunnar gjaldfellum við lán frá útlendingum, þ.e. þeim sem voru það vitlausir að lána okkur í krónum