laugardagur, 4. apríl 2009

Þú ert hér

Þessa dagana er boðið upp á raunveruleikhús í Borgarleikhúsinu. "Þú ert hér" tekur til umfjöllunar atburði dagsins í dag. Textann þekkjum við öll hann er setningar úr ræðum og viðtölum ráðamanna íslensks samfélags. Veraldar sem er leið undir lok á einu kvöldi í haust og forsætisráðherra mætti í beina útsendingu og sagði „Guð blessi Ísland.“

Hann hefði reyndar átt að biðjast afsökunar á því hvernig hann hefði komið fram við þjóð sína. Eða eigum við kannski frekar að skammast okkar fyrir hversu trúgjörn við vorum? Áttum við kannski aldrei sjéns á að eignast Porsche? Í alvörunni!!

Áhorfendum er gert að horfast í augu við sjálfa sig í rúman klukkutíma. Þann skelfilega veruleika að það sem okkur þótti frambærilegt á hæstvirtu Alþingi og virðulegum spjallþáttum fyrir nokkrum mánuðum er texti í sprenghlægilegum farsa í dag.

Hvar erum við stödd í veruleikanum? Hvað gerðist? Hvert á að stefna? Hverjum eigum við að treysta?

Þetta er það sem við viljum, atvinnuleikhús bregðist við atburðum sem eru að gerast. Leikararnir komast vel frá hinum ýmsu hlutverkum sínum. Leikstíllinn er góður og spuninn rennur kolsvartur fram. Porsche jeppinn stendur stífbónaður með íslenska fánanum fyrir framan hálfbyggðar rústir hins íslenska efnahagsundurs. Öll vinaríki litla Íslands eru svo vond, vilja ekki lána okkur meiri aur.

Stundum vita áhorfendur ekki hvort þeir eigi að hlægja. Það er eiginlega ekki viðeigandi því það eru þeir sem eru aðalþátttakendur farsans, hirðfíflin.

Góð skemmtum samfara því að vera þörf áminning til okkar. Skemmtun sem springur í lokin í orðsins fyllstu merkingu framan í aðalleikendur, áhorfendur.

3 ummæli:

pjotr sagði...

Mæli hiklaust með þessari sýningu fyrir allt hugsandi fólk. Þrátt fyrir kolsvartan undirtón var ekki annað hægt en að veltast um af hlátri allan tíman.

Nafnlaus sagði...

Tek undir þetta. Frábær ádeila á útrásarvíkingadýrkunina og neysluæðið. Drepfyndin kaldhæðni. Mæli eindregið með þessu.

krilli sagði...

Ægilega gott.