sunnudagur, 19. apríl 2009

Að loknum kosningum 2007

Skrifaði þessa grein í Morgunblaðið 24. maí 2007. Það er hægt að birta hana núna nánast óbreytta, eða hvað finnst ykkur?:

Það var harla einkennilegt að hlusta á umræðu margra fylgismanna fráfarandi stjórnar þegar þeir höfnuðu alfarið að ræða á málefnanlegan hátt um stöðu íslensks þjóðfélags á annan hátt en að allt væri hér í besta lagi. Ísland væri hin fullkomna glansmynd og þetta fólk brást reitt við ef bent var á eitthvað sem bætur mætti fara. Þótt lagðar væru fram skýrslur frá viðurkenndum aðilum sem sýndu að við værum ekki á réttri leið eða að það mætti gera betur. Þeim var alfarið hafnað og aðrar dregnar fram, jafnvel frá árinu 2000 og jafnvel skýrslur sem sýndu allt annað en til umræðu var. Það virtist algjörlega vonlaust að koma á dagskrá umræðu um hvort ekki væri ástæða til þess t.d. að bæta aðbúnað aldraðs fólks, ná meiri stöðugleika í efnahagslífinu, bæta stöðu starfs- og símenntunar, endurskoða vaxtabætur og barnabætur og endurskoða skerðingar bótakerfisins.

Fráfarandi ríkisstjórn tókst ekki að skapa sama stöðugleika verðlags og velferðar hér á landi og er í samkeppnislöndum okkar. Eitt helsta verkefni í komandi kjarasamningum verður að stuðla að því að verðbólga festist ekki í háum tölum og mikilvægt er að koma vöxtum í svipað horf og annars staðar. Góð staða þjóðarbúsins er að stærstum hluta til reist á gífurlegri veltu sem skapaðist af miklum viðskiptahalla og olli miklum skatttekjum. Auk þess af sölu fyrirtækja í eigu ríkisins. Kvik staða efnahagslífsins getur leitt yfir okkur geysilegan vanda og erfið ár ef ekki verður við völd sterk stjórn með vilja til þess að taka á efnahagsstjórninni.

Vaxandi fjöldi fólks hefur viljað ræða kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu með dýpri, víðari og skilmerkari hætti en nú er gert. Áhrifamikill hópur innan Sjálfstæðisflokksins hefur ekki viljað hleypa umræðu um frekari aðild að ESB af stað, og ýtt öllum tilraunum til umræðu út af borðinu. Aldrei hafa komið fram skiljanleg rök fyrir þessu. Hópurinn hefur látið stjórnast af tilskipunum frá flokksskrifstofunni og innbyrt skoðanir eins og um trúarbrögð væri að ræða. Það er núna ástæða fyrir þennan hóp að óttast vegna þeirrar einföldu staðreyndar að Samfylkingin er Evrópusinnaður stjórnmálaflokkur og í Sjálfstæðisflokknum er vaxandi sá hópur sem gerir sér grein fyrir að það verður þegar til lengri tíma er litið að hætta með sjálfstæðan gjaldmiðil og taka þess í stað upp evru með inngöngu í ESB.

Sú ríkisstjórn sem nú tekur við þarf að ná tökum á efnahagsstjórninni og búa sig undir það tekjutap sem óhjákvæmilega verður þegar einkaneyslan dregst saman. Fyrstu skref sem ný ríkisstjórn verður að taka samræmast fyrstu skrefum í átt til þess að uppfylla þau skilyrði sem gera okkur tæk í myntbandalag Evrópu. Vitanlega þurfa alvörustjórnmálamenn að greina hver yrðu samningsmarkmið þjóðarinnar gagnvart Evrópusambandinu. Talið er að kostnaður við ESB-aðild Íslands sé um 5 milljarðar króna á ári. Kostnaður heimilanna við að verja krónuna er ekki hár í samanburði við þann kostnað sem er af háu vaxtastigi hérlendis og miklum vaxtamun gagnvart nágrannaþjóðunum.

Við eigum að tryggja stöðuga uppbyggingu atvinnulífsins. Auka þarf útflutningstekjur til þess að jafna viðskiptahallann. Byggja þarf á áframhaldandi virkjun fallvatna og jarðvarma, en gæta verður að því hvar borið er niður í þeim efnum. Einnig þarf að efla hvers konar atvinnustarfsemi byggða á nýrri þekkingu og tækni. Tryggja verður að hvorutveggja dafni með öðrum og eldri atvinnugreinum í landinu. Ruðningsáhrif mikilla framkvæmda og samspil við illa skipulagðar og handahófskenndar breytingar á fjármálamarkaði hafa valdið hátæknifyrirtækjum rekstrarvanda. Stjórnvöld verða að taka tillit til íslenskra hátæknifyrirtækja og útrásar íslensks tæknifólks. Möguleikar okkar til frekari uppbyggingar hátækni eru jafnir á við stóriðju. Þar má benda á alþjóðlega tölvuhýsingu og gagnavinnslu. Slík starfsemi þarf mikla orku, mikinn fjölda tæknimanna og er án mengunaráhrifa. Byggja þarf upp öflugt ljósleiðarasamband á milli landa, í eigu og rekstri ríkisins og án gjaldtöku.

Allt of stór hluti launamanna hefur ekki lokið skilgreindu námi. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðar eiga að taka höndum saman um að setja sér metnaðarfull og vel skilgreind markmið. Á næsta áratug þarf að gera stórátak í að treysta stöðu þeirra tugþúsunda fólks á vinnumarkaði sem hafa litla formlega menntun, með raunfærnimati, náms- og starfsráðgjöf og sérstöku menntunarátaki. Setja á markmiðið við að innan við 10% vinnuaflsins verði án viðurkenndrar starfs- eða framhaldsmenntunar í lok þessa tímabils. Tryggja á rétt einstaklingsins til að ljúka a.m.k. einu viðurkenndu námi á framhaldsskólastigi á kostnað ríkisins, auk rétts til raunfærnimats og möguleika á að sækja sér aukna menntun með námsorlofi.

Engin ummæli: