fimmtudagur, 2. apríl 2009

Fullveldi

Það virðist vera svo að stjórnmálamenn okkar muni ekki komast upp úr því fari að eyða allri sinni orku í að leysa vanda gærdagsins. Velja á milli tveggja lakra kosta, sé litið til fyrri haftatíma þá var ferlið nákvæmlega þannig og þjóðin sökk sífellt dýpra.

Það liggur fyrir að þjóðin vill að tekið verði á stjórnskránni, hún sé úrelt og taka verði á því ráðherraræði sem hún hefur skapað. Þingmenn sem hafa verið í ráðandi stjórnmálaflokkum undanfarin áratugi eru búnir að velta öllum tillögum um endurnýjun og breytingar á undan sér.

Framsýn og stefnumörkun vantar í alla umræðustjórnmálamanna, þrátt fyrir að öll rök bendi á að ákvarðanataka á næstu mánuðum verði ákaflega afdrifarík hvar varðar þróun efnahagslífsins.

Það þarf að skapa um 20.000 þúsund störf hér á landi á næstu 4 árum ef það á að takast að koma atvinnuleysi niður fyrir 5%. Það kalla á 4 – 5% hagvöxt. Svipaðan hagvöxt og var hér á nýliðnu háspennuhagvaxtar skeiði, sem reyndar hafði ekki alltof þægilegar afleiðingar.

Í fréttum í gær kom fram hjá dönskum bankamanna að lokað íslenskt hagkerfi útilokaði að erlendir fjárfestar myndi vilja flytja hingað fjármagn. Þetta er staðfesting á því sem aðilar vinnumarkaðs hafa verið að benda á undanfarið.

Ef við ætlum ekki að lenda í 10 – 15 ára ládeyðutímabili markað af höftum og háum vöxtum, þá komast stjórnvöld ekki hjá því að taka á gjaldmiðilsmálum. Það er gjaldmiðilskreppan sem skapar hin séríslenska vanda. Það hefur í vetur nokkrum sinnum komið fram að það sé vilji innan ESB að taka á þessum vanda með okkur, en það virðist vera svo að þetta verði ekki til alvarlegrar umfjöllunar meðal stjórnmálamanna.

Við höfum glatað fullveldi okkar í hendur eigenda erlendra skulda og jöklabréfa. Ef við ætlum að ná sama fullveldi og Finnar og Svíar náðu með inngöngu í ESB þá er ekki eftir neinu að bíða.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Neyðumst við ekki til að nota Dollar tímabundið?

Héðinn Björnsson sagði...

Hvernig náum við fullveldi úr klóm auðvaldsins við það að ganga í ESB? Ég sé ekki betur en að ESB væri í besta falli hlutlaust og í versta falli mótfallið öllum atlögum að því að ná aftur stjórn á atvinnuvegunum. Þarf ekki að byrja á því að endurskipuleggja alla atvinnuvegina frá grunni með tilheyrandi eigna- og skuldaafskriftum? Að ganga inn í ESB með núverandi skuldahala er í mínum augum ekkert nema áskrift að áframhaldandi hröktandi hagkerfi. Ef skuldirnar og slæm stjórnun er vandinn verður að taka á honum með því að taka völdin af þeim sem stjórna fyrirtækjunum og afskrifa skuldirnar. Samhliða þessum aðgerðum má vel vera að við eigum að ákveða hvort við viljum fara í ESB en ég sé ekki hvernig það á að geta náð fullveldi frá auðvaldinu í sjálfu sér.

P.S. Þú talar um haftatíman sem slæmt skeið í hagsögu þjóðarinnar. Þú ert þá væntanlega ekki að tala um tíman upp úr stríði og fram til 1980. Það tímaskeið er í mínum sögubókum það sem hefur skilið eftir sig mestar efnahagslegar framfarir í lýðveldissögunni en einkenndist líka af talsverðum höftum á gjaldeyri og viðskiftum við útlönd. Það skal svo sem tekið fram að ég lifði ekki þessa tíma og get ekki svarið fyrir að sögukunnáttu minni sé ábótavant :)

Nafnlaus sagði...

Ef þjóð glatar fullveldi sínu í hendur lánadrottna, getur hún endurheimt það með því að gera upp skuldir sínar. Ef hún framselur það í hendur ESB endurheimtir hún það ekki.

Vilji ESB til að "taka á þessum vanda með okkur" er háður því að við kokgleypum IceSave pakkann, ef marka má fréttir. Þar með er fullveldinu glatað, bæði til lánadrottna og ESB. Verra getur það ekki orðið.

Nafnlaus sagði...

Við eigum engan kost annan en að greiða sjálfsábyrgðina á IceSave þannig að það er tilgangslaust að ræða það meira.

Það er eins og við séum á bensínlausum bíl. Annað hvort fær maður einhvern til að hjálpa sér að koma bílnum að næstu bensínstöð (þeas ESB og evra) eða maður situr einn í bílnum á miðjum Mýrdalssandi og vonar að það vaxi bensín í tankinum (höft og króna).