miðvikudagur, 1. apríl 2009

Alhæfingar og siðblinda

Hlustaði í morgun á Rás 2 þar sem var m.a. rætt við Sölvi Tryggvason sem nú er á Skjá einum. Sölvi er sannarlega einn af betri fréttamönnum okkar. Mjög góður spyrjandi, einkennilegt að hann skyldi hafa verið látinn fara af Stöð 2, hann hefur borið af í spjallþáttum fréttastofanna.

Sölvi fjallaði í morgunútvarpinu um samskipti sín við einhverja lífeyrissjóðamenn og sagði farir sínar ekki sléttar, hann hefði m.a. setið undir hótunum ef hann hætti ekki að spyrjast fyrir um spillingarmál, sem tengdur sjóðunum.

Það er nauðsynlegt að fletta ofan af þessari spillingu, hverjir það hafi verið og hvernig hún er tilkomin. Laxveiðar, golfferðir, skíðaferðir, ferðir á erlenda fótboltaleiki, úrslitaleik í meistarakeppninni eða á formúluna, tengjast klárlega ekki fjárfestingastefnu lífeyris- eða fjárfestingasjóða og sjóðsfélögum er réttilega misboðið.

Þátttakendur í glysferðum bankanna eiga refjalaust að gera sjóðsfélögum viðkomandi lífeyrissjóðs grein fyrir þátttöku sinni. Sundurgreina verður hvers konar ferðir var um að ræða og hverjir fóru. Var það með vitund stjórna sjóðanna og fóru stjórnir sjóðanna einnig. Ekki er nægjanlegt að gefa upp einhverja meðalheildartölu undanfarinna ára og um hafi verið að ræða ferðir sem tengdust fjárfestingum.

Sölvi sagði í viðtalinu í morgun að hann hefði einungis sagt að einhver frá lífeyrissjóðum hefði farið og ekki skilgreint neinn og skildi ekki hvers vegna verið væri að hóta honum. Hvers vegna sumir hefði verið að senda honum póst með kröfum um skýringar. Nú má spyrja Sölva voru það þeir sem hann hafði undir grun sem höfðu samband, eða var það saklaust fólk sem baðst undan svona ásökunum?

Það er nákvæmlega þarna sem ég er ekki sammála Sölva, líklega í eina skiptið. Það eru allnokkrir lífeyrissjóðir að störfum hér á landi. Hluti þeirra er rekinn af bönkunum, hluti er erlendur, hluti opinberir sjóðir og svo almennu sjóðirnir. Hjá þessum sjóðum starfa allmargt fólk. Fréttamönnum hættir of oft til þess að stilla upp málum með sama hætti og Sölva talaði um. Það er að alhæfa um alla, þá liggja allir starfsmenn undir grun, og snýst yfir í það að allir verða að sanna að þeir séu ekki skúrkar.

Ef fréttamaður af þeirri gráðu sem Sölvi er, varpar fram svona ásökun verður hann að huga vel að þessu. Það eru til fréttamenn sem fáir taka mark á og skiptir kannski minna hvað þeir gera. Það gerðist nákvæmlega það sama þegar fréttamenn stilltu upp málefnum bankanna með þessum hætti fyrr í vetur. Allir bankastarfsmenn voru meðhöndlaðir sem glæpamenn og urðu fyrir aðkasti.

Það hefur komið fram nú á seinni stigum að í sumar þessara ferða fóru fáir, kannski ekki nema einn. Það hefur ítrekað komið fram á undanförnum misserum að skipuleggjendur glysferða bankanna og fyrirtækja útrásavíkinganna hafi sett upp í sameiningu plön og þar sem þeir hafi boðið hvor öðrum á víxl.

Það verður að birta hvaða menn og frá hvaða fjárfestinga- og lífeyrissjóðum þáðu þessar ferðir. Eins og ég skrifaði um fyrir nokkrum dögum, það verður að fara fram siðbót innan lífeyris- og fjárfestingasjóða kerfisins og henni verður að vera lokið fyrir ársfundi sjóðanna í vor, og þá hugsanlega með einhverjum uppsögnum.

Framferði eins starfsmanns lífeyrissjóðs er um leið yfirfært á alla sjóðina. Það eru ekki allir starfsmenn lífeyrisjóða með 30 millj. kr. á ári og á Lincoln jeppa með fríu benzíni, það er bara einn. Það eru heldur ekki allir sem fara í bara 2 -3 laxveiðiferðir á ári eins og einn svaraði. Maður sem hefur þetta gildismat á að fá uppsagnarbréf daginn eftir.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er komið að þeirri stund að Sölvi verður að birta meintan lista.
Geta bráðsaklausir stjórnarmenn setið undir slíkum ásökunum?