miðvikudagur, 15. apríl 2009

Froða skattahækkunarflokksins

Afstaða Sjálfstæðismanna gagnvart breytingum á stjórnarskrá og andstaða þeirra gagnvart stjórnlagaþingi hafa ekki komið á óvart. Flokkurinn hefur aldrei þorað að leita til fólksins í landinu og verið andstæður þjóðaratkvæðagreiðslum.

Allt er nú á bólakafi í óútskýrðum ofurstyrkjum á sama tíma og forsvarsmenn Flokksins reyndu að telja fólkinu í landinu í trú um hreinleika sinn með setningu laga sem takmarka áttu styrki til stjórnmálamanna og flokka þeirra. Einungis hafa verið gefnir upp styrkir til móður Flokksins, en ekki hafa verið gefnir upp styrkir til hverfafélaga og annarra stofnana flokksins. Þekkt er að prófkjör innan Flokksins hafa sum hver kostað óhemju fjárhæðir.

Sé litið til viðbragða formanns Flokksins og starfsmanna hans gagnvart beiðnum um að upplýst verði um þessa styrki, má telja öruggt að þar sé eitthvað sem ekki þoli dagsins ljós.

Það sem gerir þetta allt svo ógeðfellt er að fjármálastefna og ofsafengna Frjálshyggja í stjórnartíð Flokksins undanfarin 18 ár er tengd stefnu flokksins. Það er reyndar með ólíkindum að heyra ummæli þingmanna í fjölmiðlum og á Alþingi þessa dagana. Fyrir liggur mikill fjárlagahalli, tekjufall ríkissjóðs, en á sama tíma er talað eins og hægt sé að gefa í og sniðganga skattahækkanir. Það blasir við að skapa verður stöðu til þess að greiða niður þær skuldir sem stefna Flokksins hefur steypt þjóðinni í.

Á sama tíma stóð Flokkurinn fyrir mikilli hækkun á sköttum þeirra lægst launuðu með því að láta persónuafslátt og skerðingarmörk bótakerfisins standa kyrr þrátt fyrir verðbólgu. Með því voru t.d. barnabætur og vaxtabætur lækkaðar um nokkra milljarða.

Launamenn á almennum markaði búa nú við miklar launalækkanir, ekki bara missi á yfirvinnu á afkastatengdum tekjum. Auk þess er mestur hluti atvinnuleysis á þeim hluta vinnumarkaðs.

Eftirtektarverð hreinskilni kom fram í framsetningu Katrínar menntamálaráðherra í gær um stöðu opinberra starfsmanna og stóðu orð hennar langt fyrir ofan alla þá ómerkilegu froðu sem flýtur um sali stjórnmálamanna þessa dagana, þá sérstaklega frá þingmönnum Flokksins. Katrín er líklega eftirtektarverðasti stjórnmálamaður dagsins í dag.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú veist það vel, eins og allir sem vilja vita, Guðmundur, að þessar
fullyrðingar um að Flokkurinn hafi
hækkað skatta, hafa verið "hraktar"
ítrekað. Og það þrátt fyrir niðurstöður fræðimanna eins og Stefáns Ólafssonar og fleiri, og niðurstöður þeirra staðfestar af OECD!
Stundum ótrúlegt hve margir trúa,
þó þeir finni sannleikann á eigin skinni.

Nafnlaus sagði...

Góð grein hjá þér, það er tímabært að svara þessu skattahækkunarbulli hjá Íhaldinu.

sævarm sagði...

Aristóteles taldi, um 2400 fkr. lýðræðisskipulagið göfugasta stjórnarformið en þjóðirnar yrðu seint nógu þroskaðar til að geta notið þess og varaði sérstaklega við "ef siðferðið væri vanrækt".
Sjálfstæðisflokkurinn hefur því miður sannað þessa skoðun meistarans - fólki blæður.
Góð grein Guðmundur, takk fyrir.

Nafnlaus sagði...

Ég tek undir með þér, Katrín Jakobsdóttir er einkar geðþekk stjórnmálakona það hreinlega lýsir af henni.
Ekki góð staða fyrir hana né aðra að þurfa að taka til eftir þetta hrikalega svall. Það væri kannski best að láta Flokkinn og Framsókn um það, þá kæmi annað hljóð í strokinn.
Þóra Guðmundsdóttir