þriðjudagur, 28. apríl 2009

Landflótti tæknifólks

Verð að viðurkenna að ég átta mig ekki á því hvert eigi að stefna með atvinnulífið ef ekki verður sótt um inngöngu í ESB og því jafnframt lýst yfir að það eigi að skipta út krónunni yfir í traustari gjaldmiðil. Þessa skoðun byggi ég m.a. á því sem forsvarsmenn tæknifyrirtækja hafa sagt; þeir sjái ekki vöxt þeirra hér og þau muni halda áfram að flytja starfsemi sína til ESB landa.

Nú þegar eru allmörg fyrirtæki flutt frá Íslandi vegna krónunnar, annað hvort alfarið eða með meirihluta starfsemi sinnar. Má þar nefna Hamiðjuna, 66° norður, CCP, Marel, Össur og Actavis. Allnokkur fyrirtæki þar á meðal nokkur lítil til viðbótar við hin áðurnefndu stóru, eru búin að skipta yfir í Evru þó svo þau séu með starfsemi hér, en þau hafa öll lýst því yfir að þau sjái enga framtíð eða vaxtamöguleika hér.

Það þýðir í raun að ef ekki verður af því að Ísland hverfi frá sinni ofurdýru krónu með þeim okurvöxtum sem henni fylgja, þá verða hér einungis í boði störf í svokölluðum grunnstoðum. Það er fiskvinnslu og útgerð. Landbúnaði og álverum, ásamt opinberum starfsmönnum. Í þessum greinum er atvinnuleysi lítið sem ekkert, á meðan það er allt í þjónustu- og tæknigreinum.

Þetta skýrir líklega hvers vegna formaður opinberra starfsmanna sér ekki ástæðu til þess að grípa til þeirra aðgerða sem forsvarsmenn tæknifyrirtækja telja nauðsynleg og leyfir sér að kalla tillögur þeirra „arfavitlausar“. Ég veit ekki hvort menn sjái fyrir sér fjölgun ríkisstarfsmanna um 20 þús. en það er sá fjöldi nýrra starfa sem þarf að verða hér á Íslandi á næstu 4 árum eigi að koma atvinnuleysi niður fyrir 4%. En það er víst að þá er ekki verið að tala um spennandi tæknistörf fyrir velmenntað ungt fólk.

Eins og ég hef áður komið að sé litið til félagsmanna Rafiðnaðarsambandsins, þá hefur ekki verið nein fjölgun í þessum grunnstoðum á undanförnum árum, einungis í tæknigreinum. Öll fjölgun á vinnumarkaði hefur verið í tækni- og þjónustufyrirtækjum. Auk fjármálageirans sem er hruninn og ekki miklar líkur á að hann bæti við aftur þeim mikla mannfjölda sem hefur orðið að hverfa úr þeim geira í vetur.

Það hefur ætíð verið lítið atvinnuleysi utan höfuðborgarsvæðisins vegna þess að fólk sem ekki hefur haft atvinnu hefur flutt frá landsbyggðinni og unga fólkið hefur ekki flutt til heimaslóða eftir að hafa lokið námi. Nú stefnir í að þetta muni breytast á þann veg að nú muni fólkið á höfuðborgarsvæðinu leita til ESB-landa eftir atvinnu og unga fólkið ekki koma heim eftir að hafa lokið framhaldsnámi í ESB-löndum, eins og t.d. Svíþjóð og Danmörku þar sem stærstu námsmannahóparnir hafa verið.

Af gefnu tilefni langar mig svo að taka það fram að það er einhver alnafni minn sem skrifar reglulega í athugasemdadálkana.

Engin ummæli: