mánudagur, 20. apríl 2009

Takmark tilverunnar peníngar og óraunverulegt glíngur

Á undanförnum áratug hefur markaðs- og auðhyggjan verið við völd hér á landi . Arður, gengi hlutabréfa og viðskipti blindaði. Gagnrýnislaust fjölluðu fjölmiðlar í löngum dálkum og þáttum í sjónvarpi um hagnað á verðbréfaviðskiptum. Allt sem gat skilað auknum arði var talið réttlætanlegt.

Sjónarmiðum launþega var vikið til hliðar, gróðafíknin réð. Mannleg reisn og samskipti gleymdist. Ef minnst var á að verja hluta arðs til þess að hækka laun fólksins á gólfinu var rætt um að mætti raska stöðugleika sem kallaði yfir landsmenn óðaverðbólgu. Ef rætt var um ofurlaun og bónusa var það öfundsýki á velgegni.

Þessu er ágætlega lýst með orðum nóbelsskáldsins; “Verslunarskipulagið dregur manninn niður í gróðafíkn seljanda, sem hefur ekki framar neitt takmark tilveru sinnar annað en það að eignast penínga og óverulegt glíngur. Öll fyrirbrigði mannlegrar tilveru eru gerð að spurníngu um kaupgetu og gjaldþol. Gleypugángurinn er í senn gerður að boðorði, fyrirheiti og takmarki” (Dagleið á fjöllum).

Það gleymdist að fjármagnið væri einskis virði, ef ekki kæmi til hin vinnandi hönd og skapaði verðmætaaukningu í framleiðslu fyrirtækjanna. Hlutskipti gróðafíkla er í dag aumkvunarvert.

Maður áttar sig ekki á boðskap þessa flokks sem hvað harðast gekk fram í markaðs- og auðhyggju að ekki megi lækka laun. Um hverja er verið að tala? Telja launamenn á almennum markaði ekki lengur með í hugum fulltrúa þessa flokks? Það er búið að lækka laun á umtalsverðum fjölda fólks á almennum vinnumarkaði til þess að verja atvinnustigið. Það þarf að skera niður opinber útgjöld um 50 milljarða. Það verður ekki gert með því að segja upp 9 óþörfum sendiherrum sem Flokkurinn réð til starfa og selja sendiráðið í Stokkhólmi.

Sami flokkur gengur gegn því sem forsvarsmenn stærstu sprotafyrirtækjanna telja vera eina leiðin til þess að hefja endurreisn fyrirtækja á almennum vinnumarkaði, það eru samningar við ESB og upptöku Evru.

Það er búið að hafna alfarið einhliða upptöku norrænnar krónu og sama gildir um einhliða upptöku Evru. IMF hefur ekkert með Seðlabanka ESB að gera. Það vita allir, líka Illugi og Bjarni formaður flokksins. Þess vegna er enn eitt af því sem maður skilur ekki nýr boðskapur þessa flokks í gjaldeyrismálum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Komandi kosningar snúist aðeins um eitt: ESB-umsókn eða ekki

Ég er verulega hræddur um að fáir átti sig á því !

Öddi

Nafnlaus sagði...

Þeir haga sér eins og Larry Summers hópurinn í kring um Obama,svokallaðir Behavioural Economists öðru nafni (fasistar) Sjá http://www.laroucheopac.com