laugardagur, 10. október 2009

Bjarni og Sigmundur óvinir launamanna #1

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formenn stjórnarandstöðunnar fara mikinn og eru búnir að koma sér í þá stöðu að hafa lýðskrumast svo hátt upp í trén, að þeir vilja fá hjálp og einhver skeri þá niður úr trjánum.

Það hefur legið fyrir frá því fyrir réttu ári síðan þegar Árni Matthiesen þáverandi fjármálaráðherra skrifaði undir yfirlýsingu að Ísland myndi aldrei komast hjá því að þurfa að greiða það sem upp á tryggingarsjóðina vantaði. Spuringin var bara hvernig við vildum borga og voru menn tilbúnir til samninga um það og hafa endurtekið það nokkrum sinnum, síðast í ferð fjármálaráðherra nýverið. Þetta fengu svo Geir og aðstoðamaður hans Baldur Guðlaugs. staðfest eins og kom fram í fréttum þá. Það birtist reyndar einnig í því að Ísland sætti sig við að tekið sé úr bæði sjóðum Kaupþings og Landsbankans upp í topp ef eignir í tryggingarsjóðum væru fyrir því.

Öll íslensk þjóð, ekki bara forsvarsmenn Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna, er sammála um að Icesave málið er mesti sóðaskapur sem okkur hefur verið birtur. Ekki bara sóðaskapur þeirra bankamanna sem framkvæmdu þennan gjörning heldur einnig þeirra sem voru við stjórnvölinn þegar hann var framkvæmdur. Manna sem ekkert gerðu í málinu þó svo þeir væru ítrekað aðvaraðir. Það eru ekki bara viðkomandi bankamenn sem eru í dag öfugum megin við rimlana heldur einnig viðkomandi stjórnmálamenn.

Það er íslenskum stjórnmálamönnum til ævarandi háðungar hvernig þeir hafa tekið á þessu máli. Velt því á undan sér og vikið sér undan því að horfast í augu við það. Dettur einhverjum heilbrigt hugsandi manni í hug að samskipti þjóða gangi þannig að Alþingi Íslendinga geti samþykkt einhliða einhver lög sem skella skuldinni á Breta og Hollendinga og hvítþvegið þar með sjálfa sig? Þar er ég að tala um óskalistann sem Alþingi notaði allt sumarið við að semja á meðan flæddi undan atvinnulífinu og heimilunum. Gleymdu sér fullkomlega í lýðskruminu með háværu undirspili fréttamanna og spjallþáttastjórnenda.

Framsóknar- og Sjálfstæðismenn með aðstoð innan úr VG eru búnir í heilt ár að draga þetta mál á langinn. Óskalistinn er líklega orðin að banabita Ögmundar. Ef Hollenskir stjórnmálamenn væru á sama lága plni og íslenskir kollegar þeirra myndu þeir vitanlega samþykkja einhliða lög um að þetta væri Bretum og Íslendingum að kenna. Og svo myndu Bretar samþykkja eins lög og svo aftur Íslendingar og svo koll af kolli, engum nema íslenskum stjórnmálamönnum dettur svoleiðis endaleysa í hug. Eins og ég hef ítrekað komið að hér, þá er þetta mál orðið íslendingum til mikillar háðungar og dregið álit þeirra mikið niður, mjög mikið.

Í þessum óþverrapitt liggja líka spjallþáttastjórnendur og fréttamenn. Eins og t.d. fréttamenn RÚV í gærkvöldi, þar sem þeir voru að fjalla um yfirlýsingu Seðlabanka. Þessi sannleikur er loks að renna upp fyrir þeim. Þeir eru með allt niðrum sig í þessu máli og þeir eru ekki meiri menn en svo að rembast aðeins lengur við sinn hvítþvott. Ábyrgðin felst ekki síst í því að hafa talið mörgum íslendingum í trú um að það væri valkostur um að losa sig undan Icesave, þurrka þær skuldir út. Það er klár fantaskapur gagnvart almenning að hafa vakið upp rakalausar væntingar.

Það er ótrúlegt dugleysi í stjórnarmeirihlutanum að hafa ekki strax í vor klárað þetta mál. Nei þeir fóru í íslenskan stjórnmálaleik til þess eins að draga það fram hversu miklir bjánar Bjarni og Sigmundur eru, svona til þess að hefna sín á þeim.

Þessum hinum sömu er svo að detta í hug að leysa þann vanda sem þeir sköpuðu með því að skattleggja almenna launamenn í gegnum sparifé þeirra í lífeyrissjóðum svo losa megi fyrirtækin undan skattlagningu. Og reyndar einn verkalýðsforingi hérna hinum meginn við Flóann er búinn að leggja fram tillögu sama efnis!! Þetta er reyndar sú leið sem þessir valdaklíkuflokkar hafa alltaf farið. Mikið ofboðslega er maður orðin eitthvað gasalega þreyttur á þessu liði. Og svo halda menn að það sé til þess að bæta stöðuna með því að fara til Noregs og tala við einhvern Kverólant sem lét hafa það eftir sér að honum fyndist Icesave ósanngjarnt og honum fyndist að Noregur gæti bara lánað íslendingum 2000 milljarða??!!

Takk fyrir mig og fjölskyldu mína, er alveg vonlaust um að við getum fengið alvörufólk í þinghúsið? Vaxandi fjöldi félagsmanna minna vill að við förum niður á Austurvöll í mótmælastöðu við þessi vinnubrögð. Það verður þó að að segjast eins og það er Jóhanna og Steingrímur standa í fæturna. Bjarni og Sigmundur ættu að snúa sér að einhverju öðru, t.d. að selja Moggann.

Og svo er fólk að reyna að smeigja sér undan þessari umræðu með því að segja að þeir sem bendi á þetta séu viljalausir ESB stuðningsmenn, hvar í veröldinni er umræðan á svona plani, nema þá á Íslandi?

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

HEYR

kveðja að austan

Unknown sagði...

Ég heyri Guðmundur að það er að sjóða uppúr hjá þér. Svo er hjá fleirum.Ég tel að Jóhanna eigi að fara aftur með málið inní þingið með þá yfirlýsingu að hún segi af sér ef málið verði ekki samþykkt punktur.

Nafnlaus sagði...

Gjörsamlega sammála. Mr. N1 ætti að snúa sér að sínu fyrirtæki og Sigmundur ætti ekki að koma heim aftur. Þessir menn gera allt til að komast að völdum, skítt með þjóðina.
Björn Ólafs

Nafnlaus sagði...

Þetta er sannleikurinn nakinn settur fram með skýrum þætti.

Athuga ber að auðmennirnir Sigmundur Davíð og Bjarni munu ekki þurfa að svelta þó kreppan dýpki vegna ábyrgðarleysis þeirra og tilburða til að villa þjóðinni sýn.

Unknown sagði...

Sæll Guðmundur

góður pistill en hvað varðar Icesave og aðkomu þing- og fréttamanna því miður bara hárrétt hja þér.
Hins vegar myndi það gleðja mig ef þú hættir andstöðu við skattlagningu inngreiðslna í lífeyrissjóðina, sú andstaða er því miður byggð á misskilning. Þetta er einfaldlega spurning um hvort lífeyrissjóðir eigi að ávaxta skattgreiðslur ríkissjóðs eða ekki. Nú þegar lánshæfismat ríkissjóðs hangir á bláþræði og hann er að sligast undir vaxtagreiðslum held ég að við ættum að taka ómakið af lífeyrissjóðum. Þeir eiga nú 160 ma í innistæðum, fá nettó 60 ma á ári í inngreiðslur og um 75 ma í afborganir af innlendum skuldabréfum. Þ.a. ættu að eiga nóg fé í endurreisnina þótt þeir þurfi ekki að ávaxta skattfé almennings líka.
kær kveðja,
Margrét Þ.

Nafnlaus sagði...

Þetta er því miður svo satt svo satt.Skil ekki hvað fréttamönnum gengur til,þeir minna á litla illa innrætta púka sem halda við eldinum,þannig að eiðileggingin verði sem mest.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur.

Þessi pistill þinn gengur ágætlega upp.... ef allir væru sammála um að okkur bæri að greiða þessar skuldir.
Þú bæði góðfúslega gleymir því að regluverk ESB gerir ekki ráð fyrir því kerfishruni sem varð. Og svo væri ekki verra að taka fram að sá samningur (sem var ekki meira en óformlegar þreyfingar á miðvikudegi en undirritaður á föstudegi í júní síðastliðinn) er vondur. En hann átti að þvinga óséðan í gegnum Alþingi í sumar. Það að fyrirvararnir hafi verið samþykktir er ekkert annað en vantraust á samninganefnd Jóhönnu og Steingríms sem vann í skjóli nætur að þessum gjörningi.
Auðvitað þarf að leysa þetta og líklega endum við á að þurfa að borga þetta (við höfum sjálf málað okkur út í það horn með þremur ríkisstjórnum). En sú lausn sem sett er fyrir framan okkur sem afarkostir er slæm niðurstaða algjörlega í boði Jóhönnu og Steingríms. Ekki Bjarna og Sigmundar.

kveðja
Guðfinnur

Nafnlaus sagði...

Vel sagt, takk!

Nafnlaus sagði...

Hugsið ykkur lýðskrumið, hreinlega veðja þeir bara á að Jón og Gunna fylgist ekkert með umræðunni í þjóðfélaginu.

Héldu þeir að þeir kæmust upp með þetta?

Nei nú skal bara gera hvað sem er
fyrir völdin sama hvað það kostar.

Mennirnir eru orðnir alveg desperat.

Nafnlaus sagði...

Hlustið á skýringar Framsóknar í fréttum. Ja hérna. Þeir halda greinilega að fólk sé fífl. Telur einhver (fyrir utan leiðtarahöfund Mogga og formann Framsóknar) að forsætisráðherra Noregs sendi bréf eftir pöntun? Eru þessir menn ekki að lýsa sjálfum sér?