sunnudagur, 25. október 2009

Spjallþáttastjórnendur

Hitti einn af spjallþáttastjórnendum RÚV um helgina. Hann spurði mig hvað ég ætti við þegar ég væri að gagnrýna vinnubrögð spjallþáttastjórnenda eins og kæmi fyrir í pistlum mínum. Ég svaraði með því að vísa til orða Páls Skúlasonar heimspekings, að umfjöllun fjölmiðla einkenndist um of af neikvæðni og niðurrifi.

Endurtekið er leitað til sömu einstaklinga sem eru með töfralausnir sem standast ekki skoðun. Menn sem beita fyrir sig útúrsnúningum og tala niður til þeirra sem ekki væru þeim sammála. Þessir einstaklingar styðja oft málflutning sinn með því að gera öðrum upp skoðanir og veitast svo að fólki á grundvelli spunans. Oft gera þessir einstaklingar út á að komast í spjallþætti með því að láta uppi skoðanir sem þeir vita að ná athygli viðkomandi spjallþáttstjórnenda. Þannig hefur myndast hringrás, neikvæður spírall.

Það er áberandi hjá sumum spjallþáttastjórnendum, að þeir leita ekki til þeirra sem verið er að gagnrýna. Ef þeim er bent á þetta þá er staðlað svar, að viðkomandi mætti hafa skoðun og spjallþáttastjórnandi ætlaði ekki að láta segja fyrir um við hverja hann ræddi. Þetta er útúrsnúningur, það er enginn að banna mönnum að hafa skoðanir og koma þeim á framfæri. Ábyrgð spjallþáttastjórnenda er mikil, ekki síst að tímum eins og nú eru uppi, ítrekað er leitað til sömu manna, þeir eru að vekja væntingar hjá fólki með tillögum sem ekki standast. Það er fantaskapur gagnvart almenningi.

Það er einkennilegt hvernig fjallað er um starfsemi ASÍ og aðildarfélaga og eins lífeyrissjóðina. Þar má t.d. benda á umfjöllun um endurskoðun kjarasamninga í vor. Sífellt hefði var leitað til fulltrúa aðildarfélaga sem eru með um 10% félagsmanna ASÍ og því haldið fram að verið sé að beita þann hóp ofbeldi. Þessir einstaklingar halda því gjarnan fram að þeir séu fulltrúar hins almenna félagsmanns, og þeir sem ekki veru þeim sammála eru valdaklíka einangruð frá félagsmönnum, stundum talað um fasista.

Með þessu er verið að gera lítið úr stjórnum og félagslegri starfsemi hjá aðildarfélögum sem eru með 90% félagsmanna ASÍ. Því haldið fram að í þeim félögum sé skoðanalaust fólk sem láti fámenna valdaklíku segja sér fyrir verkum. Það er harla einkennilegt að eftir fundi eins t.d. ársfund ASÍ, er ætíð leitað til fulltrúa þeirra sem hafa orðið undir í kosningum, en ekki þeirra sem eru fulltrúar þeirra skoðana sem meirihlutinn fylgdi.

Í því stéttarsambandi sem ég er í forsvari fyrir er öflug 18 manna miðstjórn sem hittist reglulega. Miðstjórnarmenn eru fulltrúar 10 aðildarfélaga sem eru með hvert sína stjórn og trúnaðarráð. Samtals er þetta um 100 manna hópur sem stjórnar sambandinu. Þessi hópur er dreifður um alla vinnustaði rafiðnaðarmanna. Undir þennan hóp er borinn stefnumörkun og hvaða ákvarðanir eru teknar, ekki bara um kjarasamninga, heldur rekstur sambandsins, starfsreglur og stjórnun sjóða rafiðnaðarmanna.

Oft má skilja á spjallþáttastjórnendum og sérstökum gestum þeirra að ætlast sé til þess að forsvarsmenn stéttarfélags virði samþykktir félagsmanna að vettugi og fari frekar að óskalistum sem samdir eru að fólki sem stofnar einhver baráttusamtök.

Það voru rúmlega 500 manns sem sóttu fundi í aðildarfélögum Rafiðnaðarsambandsins um endurskoðun kjarasamninga í vor. Sá hópur valdi úr nokkrum vondum kostum og kaus þann sem þeim þótti „best-verstur“ eins og það var nefnt. Þessum hóp er svo gert að sitja undir endurtekna skæðadrífu af fullyrðingum í spjallþáttum um að skoðanir þeirra séu rangar. Þeir séu að svíkja málstaðinn og láti fámenna valdaklíku segja sér fyrir verkum.

Fulltrúum rafiðnaðarmana og reyndar 75% 250 manna ársfundar ASÍ er svo gert að sitja undir hótunum einu af uppáhöldum spjallþáttastjórnenda, um að ef þeir fylgdu honum ekki, muni hann taka þá í gegn í fréttum og morgunþætti Bylgjunnar!! Þverbraut ítrekað og vísvitandi öll fundarsköp og þegar gerðar voru athugasemdir af hálfu fundarsjóra, stillti hann sér ætíð upp sem einhverju fórnarlambi valdaklíkunnar.

Viti mál hann var sá eini sem rætt var við í fréttum og það sem hann sagði var fjarri öllum veruleika. Hann er þekktur fyrir að gera mönnum upp skoðanir og lesa það út úr ályktunum annarra stéttarfélaga það sem hann vill sjá og yfirbjóða. Það er auðvelt að gefa út yfirlýsingar um að hækka eigi laun umtalsvert, en afsaka sig á því að það sé aðrir sem standi vegi þess að það takist. Þar er talað eins og verkalýðsfélög semji við sjálf sig og hvert við annað um kaup og kjör.

Spjallþáttastjórnendur virða sumir hverjir lýðræðislega starfsemi og ákvarðanatöku að vettugi og grafa markvisst undan félagslegri starfsemi. Áberandi er að þessir hinir sömu þekkja lítið til starfsemi verkalýðsfélaga og eru ítrekað með fullyrðingar sem einkennast af kostulegum og innistæðulausum dylgjum. Endurtekið er svo leitað til einstaklinga til þess að fá skoðun viðkomandi spjallþáttaskoðanda staðfesta, ekki til þess að upplýsa fólk. Tilgangurinn hefur snúist upp í andhverfu sína

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vel orðað, Guðmundur og orð í tíma töluð. Algjörlega sammála og orðlengi það ekki meir.

Nafnlaus sagði...

Frábær og hárrétt lýsing á hátterni þessara manna
Úlfur

Nafnlaus sagði...

Þarna er þeim réttilega lýst þessum undirmálsmönnum sem fréttamenn halda svo upp á
KÞG

Unknown sagði...

Menn sem skrifa svona: “Þessir einstaklingar styðja oft málflutning sinn með því að gera öðrum upp skoðanir og veitast svo að fólki á grundvelli spunans” Þurfa að passa sig á að falla ekki í sömu gryfju í sama pistli.

Guðmundur sagði...

Ég geri það Hörður, það getur verið fullviss um.

En við þessir kjörnu fulltrúar RSÍ finnst nóg komið þegar okkur er ítrekað gerðar upp skoðanir um að við séum að svíkja einhverja, sakir þess að við höfum ekki náð fram óskalista sem aldrei hefur verið borin undir okkur og við séum viljalaus verkfæri fámennrar valdaklíku

Við erum að vinna að þeim samþykktum sem gerðar eru á félagsfundum rafiðnaðarmanna og stöndum svo vitanlega frammi fyrir uppgjöri gagnvart okkar félagsmönnum - ekki annarra.

halldor sagði...

Sæll Guðmundur,

Er þetta ekki víðtækara vandamál en bara nái til spjallþáttastjórnanda. Mér finnst fréttamennska t.d. RÚV ganga allt of mikið út á: Einn segir - annar segir.

Nýlegt dæmi eru stóryrði Þórs Saari um nýsamþykkt lög um aðgerðir til hjálpar einstaklingum, heimilum og fyrirtækjum. Þór ber ríkisstjórnina þeim sökum að hafa varpað sprengju inn í íslenskt samfélag. Frumvarpið eins og það var lagt fram má finna á vef Alþingis
(http://www.althingi.is/altext/138/s/0069.html).

Ég er ekki löglærður en get amk. ekki séð að þau þær tilvitnanir sem Þór hefur orðrétt upp úr frumvarpinu séu í upprunalegri útgáfu.

Það er tvímælalaust stórfrétt ef ásakanir Þórs eru réttar. RÚV talar við ráðherra sem segir það af og frá, en reyndar með slíkum málalengingum að helst virðist sem hann sé að tala um annað mál. RÚV hefur því andstæðar yfirlýsingar og lætur við það sitja.

Nú hafa fréttamenn RÚV aðgang að internetinu, og geta örugglega fundið lögmenn til að lesa frumvarpið yfir. Þeir hafa hugsanlega einhver sambönd sem duga þeim til að fá endanlega útgáfu laganna, og látið lögmanninn skoða þau. Með staðreyndir (eða amk. vel rökstutt álit) að vopni gætu þeir svo rekið vitleysuna ofan í ráðherra og/eða Þór.

En í staðinn fara þeir bara í "einn segir - annar segir".

Það er óþarfi að minna á álíka lapsus í fréttamennsku þegar tvíeykið úr Framsókn fór til Noregs um daginn. Var hringt í formenn þingflokka/flokksformenn/ráðherra í Noregi og fullyrðingar Sigmundar bornar undir þá?
Nei, Jóhönnu var látið eftir að sjá um það starf sem fréttamenn eiga að sinna. En trúverðugleiki svarsins var náttúrulega minni því hún er ekki óháður aðili.

Maður verður ekki var við að fréttamenn hafi einhverja sjálfsgagnrýni eða finnist þetta metnaðarleysi í fréttaflutningi.

Versta dæmið um það sem mér finnst metnaðarleysi kemur þó úr frægu kastljós viðtali við Davið Oddson í byrjun október í fyrra. Ég sat við imbann og beið eftir að Sigmar spyrði um Icesave. Hann gerði það ekki. Í nýlegum þætti ("Hrunið") bendir Þóra Arnórsdóttir kollegi hans á að Davíð hafi ekki minnst einu orði á Icesave í viðtalinu. Það virðist ekki hvarfla að henni að það sé hlutverk þess sem viðtalið tekur að spurja erfiðra spurninga.

Það er einsýnt að við búum því miður við ákveðið metnaðarleysi bæði hjá þáttastjórnendum og fréttamönnum. Ég veit ekki af hverju það stafar, því flest er þetta fólk vel þjálfað og ætti að hafa til brunns að bera allt sem þarf. En ástandið lagast ekki nema við förum að gera kröfur til þeirra.