laugardagur, 17. október 2009

Tillögur Sjálfstæðismanna

Lýðskrumið heldur áfram án þess að gengið sé til verka og tekist á við vandann. Tillögur sjálfstæðismanna eru í raun ekkert annað en lántaka hjá lífeyrisþegum sem mun lenda á börnum okkar og að hluta hrein upptaka á uppsöfnuðu sparifé þeirra sem eru í almennu lífeyrissjóðunum.

Takið vel eftir Almennu lífeyrissjóðunum, ekki lífeyrissjóðum tiltekinna opinberra starfsmanna og þá um leið alþingismanna. Þeirra lífeyrir er bundin við laun og ríkissjóður greiðir það sem upp á vantar, á meðan almennu lífeyrissjóðirnir verða að skerða ef ekki eru til innistæður fyrir skuldbindingum.

Tillögurnar valda gríðarlegri mismunun. Á þetta spila lýðskrumararnir og eru að kynda undir eldum ójöfnunar á vinnumarkaði. Og erlendu lífeyrissjóðirnir auglýsa sem aldrei fyrr í íslenskum fjölmiðlum; „Komdu lífeyri þínum í skjól“ - fyrir misvitrum íslensku stjórnmálamönnum.

Það er niðurlægjandi að vera gert að horfa upp á sjá stærðfræðinga og tryggingarfræðinga sem vilja láta taka sig alvarlega, leggja til hliðar þekkingu sína og setja upp pólitísk sólgleraugu og nota einfalda þríliðu við útreikninga á þessum tillögum. Stærðfræðikennari minn í Tæknifræðiskólanum hér fyrir nokkrum árum sagði að þríliða væri alvarleg aðför að heilbrigðri hugsun og sýndi okkur nokkur haldgóð dæmi þar um.

Þessir „stærðfræðingar!?“ eru með aðför sinni að almennu lífeyrisjóðunum að vekja upp innistæðulausar væntingar hjá almenning, sem vill vitanlega losna við hækkun skatta. Þetta er þráðbeint framhald þess lýðskrums sem hefur verið viðhaft um að hægt sé strika út þær skuldbindingar sem fyrrverandi forsætis- og fjármálaráðherrar undirrituðu; Íslendingar myndu standa við skuldbindingar sínar hvað varðar tryggingarsjóði bankanna og fara að alþjóðlegu regluverki hvað það varðar.

55% af greiðslum út úr almennu lífeyrissjóðunum eru vaxtatekjur. Þetta er sá hluti sem launamenn hafa árangurlaust reynt að fá Alþingi til þess að samþykkja að verði meðhöndlaður eins og annað sparifé með 10% fjármagnskatti í stað tekjuskatts. En nú á í stað þess að gera þessa eign lífeyrisþega upptæka með margfaldri skattlagningu. Þessi tillaga þýðir að þessi stofn minnkar um tæp 40% og lækkar það sem verður til greiðslu lífeyris þegar þar að kemur, þetta samsvarar líklega um 15% lækkun lífeyris þegar að því kemur.

Þessi tillaga tillaga leiðir einnig til þeirrar mismununar að nú á að taka fullan skatt af allri innkomu, en ef kerfið væri óbreytt myndi sá hluti sem lífeyrisþegi fengi útborgað úr sínum sjóð lenda undir skattleysismörkun og sá hlut slyppi óskattaður. Þetta þýðir í raun að lífeyrisþegar glata að auki öðrum 15% væntanlegum lífeyrisgreiðslum sínum.

Þessi mikli réttindamissir þýðir vitnalega að kröfur um hækkun opinbers lífeyris þegar að því kemur.

Allir vita sem einhverja þekkingu hafa tryggingarstærðfræði og eru ekki með pólitísk sólgleraugu, að hlutfall lífeyrisþega samanborið við þá sem verða skattgreiðendur framtíðar á eftir að breytast umtalsvert, lífeyrisþegar tvölfaldast í hlutfalli við skattgreiðendur. Það er af þessum sökum að það eru uppsöfnunarlífeyrissjóðir sem hver þjóðin á fætur annarri stefnir á í stað gegnumstreymissjóða og hefur hingað til verið talinn mesti styrkur íslensks samfélags.

Þetta ætla Sjálfstæðismenn að leggja í rúst með skyndilausnum. Ef við förum þessa leið þá fer í framtíðinni svo stórt hlutfall til lífeyrisgreiðslna að ríkissjóður framtíðar verður að verja sífellt stærra hlutfalli til lífeyrisgreiðslna. Viðbrögð stjórna lífeyrissjóða eru túlkuð af hálfu Sjálfstæðismanna sem vörn gegn valdamissi??!!

Þarna eru stjórnmálamenn blindaðir af eigin gjörðum að yfirfæra viðbrögð annarra. Samkvæmt lögum hafa stjórnendur lífeyrissjóða eitt hlutverk. Ávaxta fjármuni lífeyrissjóðanna sem best og greiða út þann lífeyrir til réttbærra eigenda lífeyrissjóðanna. Af framansögðu ætti það að vera ljóst að það nákvæmlega það sem einkennir viðbrögð stjórna lífeyrissjóðanna.

Forsvarsmenn launamanna hafa algerlega hafnað tillögum Sjálfstæðismanna og atlaga að séreignasparnaði (sem er að öðru leiti bundin í fjárfestingum!) myndi einfaldlega eyðileggja þetta sparnaðarform en atlagan væri bara eingreiðsla (í rauninni ekkert annað en lántaka!) sem leysir ekkert úr vanda ríkisstjórnar með halla á frumjöfnuði eða hvaða jöfnuði sem er inn í framtíðina!

Já frjálshyggjan er alltaf söm við sig, koma sér ætíð í þá stöðu að geta verið fyrst til og hrifsað til sín bestu bitana og koma sér vel fyrir. Hvar eru helstu forsvarsmenn þeirra. Prófessor í háskólanum og í seðlabankastjórn ásamt þess að ríkisfjölmiðlar keyptu af honum allt sem frá honum kom, Seðlabankastjóri, Hæstaréttardómari, 9 sendiherrar sem skipaðir voru korteri áður en þáverandi utanríkisráðherra hætti - eigum við að halda áfram? Allir í tryggu skjóli hjá skattgreiðendum og nú á að leggja aukaskatt á almenna launamenn á meðan þeir halda sínum lífeyri tryggum.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er orðinn eins og Kató gamli.
Ekki hreyfa við lífeyrissjóðunum okkar! Við verðum öll að standa vörð um þá.
Ólafur S.

Blár sagði...

Er ekki verið að koma lífeyrinum í skjól fyrir misvitrum stjórnendum (verkalýðsrekendum og atvinnurekendum) sem hafa ekki farið svo vel með fé sjóðanna undanfarið??

Guðmundur sagði...

Ég veit ekki í hvaða lífeyrissjóð Blár er.
Í mínum lífeyrissjóð er búið að auka réttindi um 46% á síðustu árum og sá lífeyrissjóður tapaði sáralitlu svo maður tali nú ekki um sé litið til erlendu sjóðanna.

Og svo maður spyrji Bláan hvaðan koma þeir peningar sem nú að nota til þess að komast hjá skattahækkunum?

Eða fjármagna helstu framkvændir á landinu?

Ertu ekki í óendanlegri mótsögn við sjálfan þig. Byggjandi á einhverju röklausum klisjum?

Nafnlaus sagði...

Ekki gleyma því að lífeyrisjóðir með opnbera ábyrgð mega tapa miklu.
Tap þeirra skiptir ekki sjóðþega máli , því skattgreiðendur verða hvort eða er að standa undir skuldbindingum hvort sem þeim líkar betur eða verr.
Það verður freistandi fyrst að borga skuldir opinberra starfsmanna og fá svo skatthækkun til að borga lífeyri þeirra. Tími dráttardýranna er ekki liðinn.

Arnþór sagði...

Vextir sem leggjast á innistæður lífeyrissjóða koma beint úr vasa vinnandi fólks. Því meiri vextir, því minna í vasa hins vinnandi manns. Verkalýðsforingi sem dásamar vexti fjármagnseigenda hefur villst af leið.

TómasHa sagði...

Ég segi nú ekki annað en frekar vil ég að skattar séu teknir núna og ekki síðar þegar lífeyrir verður greiddur út. Það er undarlegt að heyra verkalýðsforingja sem vill láta taka sig alvarlega bregðaðst svona við hugmyndum sem myndu beint koma til gagns fyrir félagsmenn viðkomandi.

Þarna er verið að stinga í gat, sem ekki verður gert á annan hátt en að skattleggja einstaklinga og fyrirtæki.

Þetta er með bestu hugmyndum sem hafa komið fram til þess að afla ríkissjóði tekna án þess að ráðast skerða hag heimila og fyrirtækja í dag.

Það væri annars áhugavert að heyra þínar hugmyndir. Á þessum tímum heyrist lítið frá verkalýðshreifingunni um lausnir fyrir félagsmenn sína.

Hvaða lausnir bíður verkalýðshreyfingin upp á?

Nafnlaus sagði...

Einkennilegt að lesa aths. sem í eru í fullkominni andstöðu við það sem stendur í texta pistilsins.
Úlfur

Guðmundur sagði...

Þú fylgsit ekki með Tómas. Það hefur ekki liðið sá dagur að einhverjir úr verkalýðshreyfingunni hafi ekki komið saman og lagt fram lausnir.

T.d. var unnin gríðarlega mikil vinna við gerð Stöðuleikasáttmála og þar er mjög vel unnið plan um hvað sé hægt að gera. Mikið hefur verið fjallað um stöðuleika sáttmála

En það eru svo margir sem vilja viðhalda einhverjum klisjum og rakalausum upphrópunum og byggja svo sinn málflutning á þeim

Er ekki komið nóg af slíku?

Á hverjum degi koma á skrifstofur stéttarfélafa félagsmenn og unnið er að úrlausn þeirra mála. Svo standa einhverjir upphóparar út á götuhorni og gjamma og gjamma eitthvert geip út í loftið. Eitthvað sem þeir hafa ekki hugmynd um

Nafnlaus sagði...

Það er ekki hægt skilja ummæli hjá Bláum og Tómasi Ha öðruvísi en svo að þeim finnist bara í fínu lagi að rústa lífeyrisjóðunum og hirða það sparifé sem maður er búinn að koma sér upp.

Það eru svona menn sem eru svarnir andstæðingar okkar launamanna, Svei þeim. Þeir eru búnir að vera alveg nógu lengi við völd
KÞG

balinn sagði...

ég held að það gæti einhvers misskilnings hjá þér, en burtséð frá því: hvað fyndist þér um að nota þessa "skyndilausn" næstu 4-5 árin. Væri það ekki réttlætanlegur fórnarkostnaður til að gera lífskjör lífeyrisþega betri?