þriðjudagur, 1. desember 2009

Efnahagslegt fullveldi

Íslendingar náðu fullveldi sínu 1. des. 1918 og hafa stoltir haldið því síðan, þar til ríkisstjórnir sjálfstæðismanna snéru sér að frjálshyggjunni og slepptu fjárglæframönnum lausum á þjóðina. Efnahags- og peningastefna undir stjórn Davíðs Oddssonar og hans fylgifiska hafa komið því þannig fyrir að íslendingar hafa nær glatað efnahagslegu fullveldi.

53% af viðskiptum okkar fara fram í Evrum, þannig að liðlega helmingur gengisáhættu íslendinga hverfur við upptöku evru. Norska krónan er með 4% af viðskiptum okkar dollarinn 11% og Kanadadollar 1%. Ég minni á þetta því þetta voru tillögur óábyrgra manna sem stungu upp á þessum myntum til þess eins að drepa vitrænni umræðu á dreif. Manna sem voru þá stjórnarþingmenn, sem með þessum tillögum upplýstu okkur um hversu óábyrgir og spilltir þeir voru.

Innganga í ESB og upptaka evru er ekki skyndilausn eins og sjálfstæðismenn hafa haldið fram, engir aðrir hafa rætt um að evran sé skyndilausn. Hún er nauðsynleg framtíðarlausn ef við ætlum að losna við óábyrga efnahagsstjórn, þar sem mistök íslenskra stjórnmálamanna hafa endurtekið verið leiðrétt með því að sveifla krónunni. Sem hefur kallað yfir 0kkur verðbólgu, hærri vexti og hærra verðlag.

Árið 1951 stofnuðu Belgía, Frakkland, Ítalía, Lúxemborg og Þýskaland til samvinnu í þungaiðnaði sem gekk mun lengra en gengur og gerist í milliríkjasamningum. Það var undanfari ESB. Þá var verið að undirbyggja framtíð og komast úr vítahring styrjalda og tryggja frið. Þetta samstarf þróast og þann 1. jan. 2002 var Evran tekin í notkun. Hvatinn henni var að tryggja efnahagslegt mótvægi við BNA og tryggja samkeppnistöðu og auka með því atvinnu.

Þetta hefur heppnast mun betur en nokkur gerði ráð fyrir og er Evran orðin ein af megingjaldmiðlum heimsins. Ítalir eru ekki í ESB til þess að fá evru, þeir gerðu það til þess að tryggja frið, bæta atvinnuástand og ekki síður til þess að losna undan fáránleika og spillingu sinna stjórnmálamanna. Hjá okkur gildir hvort tveggja ástæðan, en þó fyrst og síðast að ná efnahagslegu fullveldi.

(Endurskoðað orðalag, þar sem fyrri texti var ekki nægilega nákvæmur gg)


Ef við skiptum um mynt mun áhættuálag Íslands lækka töluvert. Það munar gríðarlega um hvert prósentustig í vöxtum eins og komið er fyrir Íslandi með hinar svimandi háu skuldir. Hvert prósentustig lækkar vaxtagreiðslur íslenska hagkerfisins um nokkra milljarða.

Íslenska krónan er við hlið evrunnar eins og korktappi við hlið skips af stærstu gerð. Eins og komið hefur fram spiluðu margir á örgjaldmiðilinn okkar og framkölluðu miklar sveiflur og högnuðust mikið á því á meðan venjulegar fjölskyldur bjuggu við hækkandi verðbólgu og vexti vegna þessa ástands.

Ástand krónunnar hefur leitt til þess að sparnaður og aðgát í fjármálum er íslendingum ekki eðlislægt eins og komið hefur fram í könnunum. Fjármálalæsi íslendinga er ákaflega lágt, borið saman við nágrannaþjóðir okkar. Það mun reynast vonlaust að laga það á meðan við búum við örgjaldmiðil.

Danmörk er að greiða 1 – 1,5% hærri vexti fyrir það að vera með danska krónu í stað evru. Það liggur fyrir að við munum greiða a.m.k. 3,5% aukalega hærri vexti á meðan við höldum krónunni en ella þyrfti. Vextir í Grikklandi féllu úr 30% í 4% á nokkrum árum eftir að þeir gengu í ESB.

4 ummæli:

Ásta Hafberg sagði...

hmmm eftir að hafa búið í ESB í 15 ár veit ég ekki betur en ítalskir stjórnmálamenn séu ennþá spilltir. Þarna ertu nú eitthvað að stökkva á staðreyndunum, það má nefna í framhjáhlaupi að spilling viðgengst alveg ágætlega innan ESB.
Ég sat flesta kosningafundi með hinum flokkunum fyrir kosningar. Fyrirgefðu að ég segi það en þeir einu sem fóru hamförum í að ESB myndi bjarga öllu á stuttum tíma var Samfylkingin.
Það versta er að Samýlkingin sem er svo mikið í mun að ganga í ESB hefur ekki boðið þjóðinni upp á neina hlutlausa og málefnalega umræðu um ESB.
Það er fátt við ESB sem kemur á óvart og ef fólk kynnti sér samninga þess við önnur aðildarlönd, regluverk og lög, þá kæmist það að því að við getum vitað svona upp að 80 % hvað býður okkar innan samabands.
Einnig má benda á það að ESB er ekki samband verkalýðsins, ESB er meira samband fjárfesta, það er í reglum ESB að einkavæða eigi fyrirtæki í ríkiseigu, prósentutöluna man ég því miður ekki. Þá er alveg sama hvort það eru orku fyrirtæki eða eitthvað annað.
Ég á erfitt með sð skilja hvað ASÍ og önnur verkalýðsfélög eru að gæla við ESB. Þetta er mál sem þarf að vega og meta mjög kalt og yfirvegað og setja upp plúsa og mínusa við inngöngu.

Guðmundur sagði...

Sæl
Ég hef alloft greint frá því hvers vegna verkalýðshreyfinginn vill skoða hvort aðild að ESB sé íslenskum launamönnum hagstæð sjá t.d. hér

http://gudmundur.eyjan.is/2008/12/hverju-breytir-esb-aild-fyrir-slenska.html

Það er ákaflega margt hvað varðar réttindi launamanna sem hefur fengist með staðfestingu á relgum frá ESB. Reglum sem íslensk stjórnvöld höfðu hunsað árum saman.

Jon Frimann sagði...

Ítalir gengu ekki í ESB, þeir stofnuðu ESB á sínum tíma í stál og kolabandalaginu, sem er forveri ESB og EEC.

Til hvers stofnuðu Ítalir stál og kolabandalagið, síðar EEC og ESB. Jú, til þess að tryggja efnahagslega stöðu sína, tryggja lýðræðið og tryggja hagsældina. Þetta dregur ennfremur úr spillingu, þar sem Framkvæmdastjórn ESB lætur ítalska stjórnmálamenn oft fá það óþvegið ef allt er farið til fjandans á Ítalíu, sem gerist talsvert oft.

Nafnlaus sagði...

Ásta.
Líklega hefur fáir meiri ávinning af inngöngu í ESB og upptöku Evru en einmitt almennir launþegar þessa lands. Ýmis félagsleg réttindi hafa þegar komið til framkvæmda (við höfum innleitt ca 70% af tilskipunum ESB) og í heildina er regluverk ESB hliðholt launþegum og almennum borgurum, þótt auðvitað orki einstaka tilskipanir tvímælis eins og önnur mannanna verk.
En mestur ávinningur launþega yrði án efa af upptöku Evrunar. Í fyrsta lagi myndaðist áður óþekktur stöðugleiki í rekstrarumhverfi heimila, t.d. með lágri verðbólgu, lágum nafn- og raunvöxtum, betra verðskyni os.frv. Hitt skiptir ekki minna máli að ekki yrði lengur hægt að leiðrétta hagstjórnarmistök, hvort sem um er að ræða innistæðulausa kaupmáttaraukningu gegnum óraunhæfa styrkingu krónunnar eða með stórkostlegum kaupmáttarskerðingum gegnum gengisfellingar eins og þjóðin hefur verið að upplifa.
Þjóðin getur og mun líklega um sinn hafna nánara samstarfi Evrópuríkja og halda áfram úti minnsta og veikasta gjaldmiðli heims. Fyrir það munu íslenskir launþegar gjalda áfram með peningum, svita og tárum.

Jóhannes