föstudagur, 4. mars 2011

4% hækkun tekjuskatts vegna sjálftöku úr ríkissjóð

Launamönnum á almennum vinnumarkaði ofbýður það gríðarlega ójafnræði sem stjórnmálamenn og embættismenn hafa búið launamönnum á almennum markaði í lífeyrismálum. Þessir menn hafa sett þær reglur að lífeyrissjóðum á almennum vinnumarkaði er gert að standa undir skuldbindingum sínum og skerða réttindi þegar illa árar, en þeir hinir sömu hafa sett þær reglur að innistæða skipti engu í opinberu sjóðirnir.

Það sem upp á vantar er sótt í vasa skattgreiðenda og lífeyrir algjörlega ótengdur greiðslugetu viðkomandi lífeyrissjóðs, með þessu er þessi hópur verið að færa lífeyriskostnað sinn yfir á börn okkar. Þessu til viðbótar vilja þessir menn skattleggja almennu lífeyrissjóðina fyrirfram og senda með því enn stærri reikning til barna okkar.

Launamönnum á almenna vinnumarkaðinum er gert taka á sig tvöfalt högg vegna fjármálakreppunnar. Annars vegar skerðingar réttinda í almennu sjóðunum og hins vegar stórauknar skattaálögur til að standa undir ósjálfbæru lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Að óbreyttu verður reikningurinn fyrir þessu verður sendur til skattgreiðenda. Halli b- deildar og a-deildar er á fimmta hundrað milljarða.

Þennan reikning þarf að greiða auk þess að það verður að koma í veg fyrir að þessar skuldir vaxi. Ef ríkissjóður tæki í dag lán til þess að greiða þessa skuld og tæki lán með 3,5% vöxtum til 30 ára væri árleg afborgun um 17 milljarðar króna, sem þýðir að það þurfi að hækka tekjuskatta um 4 prósent í þann tíma eða loka nokkrum leikskólum eða grunnskólum.

Verði hin barnalega tillaga sumra þingmanna um að leggja sjóðinn niður og fjármagna hann sem gegnumstreymissjóð, mun vandinn verða einfaldlega ennþá stærri og kalla á enn meiri skattahækkanir.

Fyrir nokkrum árum átti að jafna þennan mun og aðildarsamtök ASÍ sömdu við SA árið 2000 um aukin framlög til lífeyrisréttinda með það að markmiði að jafna réttindi á við opinbera starfsmenn. Deila um óréttláta misskiptingu landamanna hvað lífeyrisréttindi varðar hafði þá staðið yfir um árabil og viðhorf samtaka opinberra starfsmanna hafði jafnan verið ,,að jafna ætti kjörin upp á við‘‘.

Með samkomulaginu við SA árið 2000 vildu félagsmenn ASÍ jafnframt koma á ákveðnum sveigjanleika í sínum réttindum þannig að þeir gætu flýtt starfslokum sínum án skerðinga á grunnréttindum, líkt að sjóðfélagar í opinberu sjóðunum hafa – en ríkið hafði áður samið um lægri lífeyrisaldur fyrir þá ríkisstarfsmenn sem aðild áttu að tilteknum samtökum opinberra starfsmanna.

Þessi tilraun til jöfnunar réttinda tókst ekki, því strax í kjölfarið samdi ríkið við samtök opinberra starfsmanna um að bæta þessum réttindum ofan á þau réttindi sem fyrir voru, í stað þess að gefa færi á auknum sveigjanleika innan kerfisins. Því má segja að aðferðafræðin um ,,að jafna ætti kjörin upp á við‘‘ hafi fallið um sjálft sig og eftir stendur það veigamikla verkefni að jafna lífeyrisrétt landsmanna.

Nú hefur komið fram að á hinum miklu þenslutímum greiddu þáverandi ríkisstjórnir ekki iðgjöld til lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna, en samt stóðu þeir hinir sömu gleiðfættir í fjölmiðlum og sögðust vera með nánast skuldfrían ríkissjóð. Hann virðist vera óendanlegur sá blekkingarleikur sem hinir vanhæfu þingmenn hafa búið almenningi þessa lands.

Þetta ástand er algjörlega óásættanlegt og þessi sýndarveruleika og sjálftöku úr ríkissjóð verður að linna. Sá mikli munur sem er á lífeyrisréttindum á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera fær ekki staðist. Víki þingmenn sér enn einu sinni undan því að taka á þessum vanda nú, mun það einvörðungu leiða til þess að vandinn verður enn stærri. Í samþykktum innan verkalýðshreyfingarinnar eru áberandi kröfur um að tekið verði á þessu vandamáli núna og launamenn beiti öllu sínu afli til þess að þrýsta á stjórnvöld um viðunandi lausn.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sem sagt það var enn meiri halla á fyrri árum en tölur gáfu til kynna.

Í öðru lagi Guðmundur þá er ríkið enn að heykjast við að leggja til hliðar fjármuni í framtíðar skuldbingingar í lífeyrismálum ríkisstarfsmanna. Það er það er í reynd enn meiri halli á hinu opinbera í dag en tölur gefa til kynna.

Að lokum. Höfum í huga að lang stærsti innlendi lánveitandi ríkisins eru lífeyrissjóðirnir ! Þetta er mjög alvarleg staða Guðmundur. Ég sé varla nema eina lausn á henni.

Kveðja,
Björn Kristinsson

Unknown sagði...

Sæll Guðmundur
Ég hef mikið verið að hugsa þessi mál þó ég eigi um 35 ár eftir á vinnumarkaði. Ég vil koma með nokkra punkta inn í þessa kjaraumræðu. Nú er svo komið að 2 af hverjum 3 þremur ríkisstarfsmönnum eru konur. Auk þess eru 2 af hverjum 3 ríkisstarfsmönnum með háskólamenntun á ýmsum sviðum, lögfræði, kennaramenntun, hjúkrun, hagfræði, stjórsýslufræði, læknisfræði, lífræði o.s.frv. Þá kemur að aðalpunktinum 2 af hverjum 3 starfsmönnum ríkisins er með minna en 400 þúsund krónur í heildarlaun á mánuði. Í starfsumhverfiskönnun fjármálaráðuneytisins árið 2006 voru 20% ríkisstarfsmanna ánægðir með launakjör sín – flestir þeirra voru stjórnendur, karlmenn með háskólamenntun. Í skýrslu forsætisráðuneytis um Samheldna stjórnsýslu (2010) var starfsmannavelta ráðuneytanna 55% á árunum 2007-2010. Fjölmargar stofnanir sem veita mikilvæga þjónustu í samfélaginu fóru einnig í gegnum mikla starfsmannaveltu þá sérstaklega þær sem voru í beinni samkeppni við almenna vinnumarkaðinn.
Nokkrir punktar til viðbótar inn í þessa umræðu. Láglaunastefna ríkisins hefur verið rökstudd með meiri réttindum ríkisstarfsmanna á við starfsmenn á almennum vinnumarkaði, t.d. fæðingarorlof kvenna á sínum tíma, veikindaréttur, starfsöryggi og lífeyrisréttindi. Nú er svo komið að fæðingarorlofið hefur verið straumlínulagað, þ.e. að réttindi starfsmanna á almennum vinnumarkaði hafa verið aukin og þau samræmd og sama má segja um veikindarétturinn, starfsöryggi var minnkað til muna með starfsmannalögunum árið 1996 og nú eru það lífeyrisréttindin.
Ég er sammála ASÍ að líklegast eru réttindi á almennum vinnumarkaði ekki nógu góð og þau þurfi að jafna þau upp á við líkt og með fæðingarorlofið og veikindaréttinn. Ef það verður gert þá verður einnig að jafna launakjör ríkisstarfsmanna á við það sem gerist á almennum vinnumarkaði. Ef við viljum einn vinnumarkað þá verður ríkið að borga samkeppnishæf laun. Oft munar tugum prósenta á milli sambærilegra starfa á almennum vinnumarkaði. Þetta mál má aldrei ræða! Kannski væri best að taka þessa 17 ma.kr. og auka launagjöld ríkisins, efla opinbera þjónustu og borga laun í samræmi við hæfni, afköst og menntun.

Nafnlaus sagði...

Get ekki setið á mér og vil endilega koma fram með nokkrar viðbóta upplysingar um lífeyrismálin Guðmundur.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er skipt upp eftir A-hluta og B-hluta. B-hlutinn er gamla kerfið og því var lokað árið 1997 með stofnun A-hlutans. Eingöngu þeir sem voru ríkisstarfsmenn á þeim tíma gátu valið að greiða í B eða A. B-hlutinn er ekki sjálfbær og var það ein helsta ástæðan fyrir endurskoðn á lífeyriskerfi ríkisins. Lífeyrissgreiðslur úr honum eru ríkistryggðar. Ef þú skoðar lífeyrisgreiðslur úr B-hlutanum þá hafa þær ekki haldið verðlagsbreytingum líkt og aðrir sjóðir á almenna vinnumarkaðnum hafa gert. Þeir hafa bæði hækkað greiðslur til sinna sjóðsfélaga nokkrum sinnum á sl. árum og síðan skert þau. Þá væri fróðlegt að sjá samanburð á ævitekjur og lífeyrisgreiðslur á milli sambærilegra starfsmanna á opinberum markaði og almennum. Í þessu sambandi vísa ég í athugasemd mína hér að ofan um láglaunastefnu ríkisins. Eins og í öllum lífeyrissjóðum eru réttindin, þ.e. lífeyrisgreiðslurnar tengdar launatekjum. Þá er það A-hlutinn en hann er fyrir alla þá sem hófu störf hjá ríkinu eftir 1997. Hann á er sjálfbær, þ.e að framlög launþega og launagreiðanda á aðstanda undir lífeyrisgreiðslunum. Iðgjöld launagreiðanda (ríkisins) er 11,5% en er um 12% í almennu sjóðunum. Hann stendur nokkuð vel.

Þetta er hins vegar nauðsynlegt að umræða um stöðu B-hlutans enda stendur hann mjög illa. Önnur umræða er hvernig við ætlum að endurskoða lífeyrissjóðs kerfið okkar með hliðsjón af inngöngu landsins í Evrópusambandið og upptöku evruna. Það er því svo að það er unga og skulduga fólkið sem heldur upp lífeyrissjóðs kerfinu. Háir vextir og verðbætur munu hverfa og svokallaða ,,góða" staða íslensku lífeyrissjóðanna má að mestu leyti rekja til þessara atriða. Nema að við séum sátt við að greiða í lífeyrissjóðinn okkar í formi annars vegar iðgjalda og hins vegar vaxta og verðbóta.

Mkv, Ingunn Ólafsdóttir Drápuhlíð 9