miðvikudagur, 9. mars 2011

Kennitöluflakk

Ég hef fengið nokkrar spurningar um grein mína um þann þátt kjarasamninga þar sem aðilar vinnumarkaðs vilja sporna gegn kennitöluflakki. Málið snýst um að aðili útvegar sér nýja kennitölu, flytur eignir eða verðmæti eldri kennitölu yfir á glænýja og kemur sér með því undan ábyrgð á rekstri.

Séu skoðaðar skýrslur skattsvikanefndar kemur í ljós að gjaldþotaslóð einstakra athafnamanna hefur færst í aukana á undanförnum árum. Það er fyrst með skýrslu skattsvikanefndar frá árinu 2003 sem fjallað er um þetta mál og er það rakið til gífurlegrar fjölgunar einkahlutafélaga frá því að lög um einkahlutafélög tóku gildi í upphafi ársins 1995.

Tjón ríkissjóðs, birgja og launamanna af rekstri sem stofnað hefur verið til gagngert til að komast undan sköttum og skyldum í skjóli takmarkaðrar ábyrgðar er gríðarlegt. Hér er um að ræða vanskil á vörslusköttum, vangreiðslu opinberra gjalda, ábyrgð á launum vegna gjaldþrota, vanskil á launatengdum gjöldum. T.d. gjöldum vegna iðgjalda til lífeyrissjóða , áunnum réttindum launamanna eins og veikindadaga og orlofs og réttinda í sjóðum og tryggingum.

Margir hafa bent á að bankar og starfsmenn banka séu umsvifamiklir á þessu sviði. Bankarnir flytja eignir, lager og verkefni yfir á nýjar kennitölur ásamt skuldum viðkomandi fyrirtækis við viðkomandi banka og ver þannig sína stöðu, en bankarnir láta síðan eldri kennitöluna fara í gjaldþrot með öðrum skuldum, sköttum og launakostnaði.

Þrátt fyrir fjölda dóma á umliðnum áratug vegna vanskila á vörslusköttum samfara bókhaldsbrotum, hefur ekki dregið úr kennitöluflakki og þekktir eru nokkrir með slóð gjaldþrota, þar sem launamenn, hið opinbera og viðskiptavinir hafa setið uppi með mikinn skaða.

Mörg nágrannalönd hafa tekið markvisst á þessu, en einhverra hluta vegna þá sitjum við í þessari súpu og það er sameiginlegur áhugi launamanna, samtaka fyrirtækja og ríkisskattstjóra að taka á þessu vandamáli.

8 ummæli:

Hrafn Arnarson sagði...

Nú geri ég ráð fyrir að bankarnir séu ekki að brjóta lög með kennitöluflakki. Að því gefnu er löggjöfin mjög gölluð og úr því verður að bæta. Einfaldast er að líta til annarra landa þar sem hlutirnir eru í lagi. Hver er eðlileg skipan mála að þínu mati?

Nafnlaus sagði...

Virkilega kominn tími til að vekja enn og aftur athygli á þessu, hreint með ólíkindum að Þingmenn hafi ekki strax í hruninu tekið á þessum vanda, enda getað sparað ríkinu og lífeyrissjóðum stórfé þar sem bankarnir hafa óspart notað þennan leik.

Hvers vegna er enginn hvati hjá þingmönnum að stoppa þetta?

Það leita á mann spurningar

Guðmundur sagði...

Já það leita á mann spurningar og rifjast upp ýmis mál sem voru í umræðunni fyrst eftir Hrun.

Það sem setur okkur í aðra stöðu en nágrannaþjóðir er það viðhorf sem tíðkast hér umfram aðra er að ef það er ekki bannað - þá má það.

En það sem gera þarf er að fara sömu leið og farinn hefur verið t.d. í Noreegi og Þýskalandi að það þurfi að líða einhver tími t.d. 2 ár áður en hægt e rða fara af stað aftur, eins að setja mun harðari kröfur um ábyrgð

Nafnlaus sagði...

Eiginlega ættum við skattgreiðendur nú að flykkjast á Hagstofu Íslands, skipta þar um nafn og fá nýja kennitölu. Gera þetta svo aftur og aftur. Þá myndi enginn nokkurn tíma þurfa að borga neitt, hvorki skatta né annað.
Frábært, ekki satt? Þetta væri draumaþjóðfélag kennitöluflakkaranna.

Nafnlaus sagði...

Þetta er nú einhver þarfasta ábending sem þú hefur komið með, og er þó af nógu að taka.

Lesa ekki þingmenn örugglega þetta blogg?

Að taka fast á þessu verður bæði gott fyrir fjárhag og vellíðan landsmanna.

Nafnlaus sagði...

Stærstu kennitöluflakkarar á Íslandi eru bankarnir sjálfir. Broslegt að fara í banka til að leita aðstoðar við fjármál. Það er eiginlega bara kaldhæðni.

Nafnlaus sagði...

Þetta er ansi flókið að eiga við. Ég hef tapað verulegum fjármunum á svokölluðum kennitöluflökkurum en það er hjómið eitt miðað við vinnubrögð bankanna. T.d Mest þar sem íslandsbanki hirti allar eignir og skildi skuldir eftir. Við höfðum verið í viðskiptum í áraraðir við þá og skuldajafnað reikninga. Mest skuldaði okkur 800 þús og við þeim 300 þús. Við töpuðum þessum 800 og urðum að greiða þrotabúinu þessi 300.

Byr handlagði reikninga félagsins og við fengum skammtað frá þeim rekstarfé. Náði að svíða út úr þeim fyrir lífeyrissjóði og VSK að mestu þegar ég labbaði út með nafnið, birgja og starfsmenn. Sá að það stefndi í að BYR ætlaði að láta mig selja allan lager og svíkja síðan launagreiðslur og rimlagjöld og láta það falla á mig, þetta hafa bankar verið að leika og ekkert skrýtið við það að menn skipti um kennitölur til að bjarga sér. Þetta lið sem stjórnar bankakerfinu er gersamlega samviskulaust og siðspillt.

Nafnlaus sagði...

Það er til dæmis mjög undarlegt að menn skulu ekki vera beðnir um bankaábyrgð þegar þeir fá VSK númer. Það er gert í Bandaríkjunum og er að ég VSK eitthvað um 2 %. Þar verða men að skila inn rekstarar áætlun og hafa bankaábyrgð miðað við hana. Tel að það myndi breyta miklu hér hjá okkur. Enn það sem okkur skortir er siðferði. Varla eru menn kátir með byggingarvöru markaðinn og þar eigum við annað fyrirtækið.
Kv Simmi