þriðjudagur, 22. mars 2011

Erfiðar ákvarðanir

Umræðunni miðar oft lítið og hlutunum snúið á haus. Það eru stjórnmálamenn sem fara með ákvarðanatöku í atvinnuuppbyggingu. Það voru ekki stéttarfélög sem tóku ákvarðanir um hvort byggja ætti álver í Straumsvík og Reyðarfirði, það voru stjórnmálamenn.

Það reis upp deila í Karphúsinu við gerð Stöðugleikasáttmála þegar stjórnvöld lögðu fram lista um stækkun Ísal, Helguvík og Bakka, ásamt gagnaverum, kísilverum og fleiri orkufrekra framkvæmda og jafnvel streng yfir hafið til Skotlands. Við spurðum árangurslaust hvaðan orkan ætti að koma og hvort búið væri að samþykkja nauðsynlegar línulagnir. Fullyrt var af hálfu stjórnmálamanna og sveitarstjórnarmanna að þetta væri allt á áætlun.

Síðar kom í ljós að svo var ekki, allar aths. ASÍ voru réttar og Stöðugleikasáttmálinn fjaraði út á þeim grunni. Það er fantaskapur af stjórnvöldum að boða fjölgun starfa í svona ástandi vitandi að með því sé verið að vekja óraunsæjar væntingar hjá atvinnulausu fólki.

Á það hefur verið ítrekað bent að að þessi atvinnumálastefnu gangi ekki upp nema þá að ríkisstjórnin taki upp breytta ákvarðanatöku í orkumálum. Stéttarfélögin hafa verið að biðja um atvinnumálastefnu og ekkert sérstaklega um álver og hafa bent á marga aðra möguleika. T.d. hefur á þessari síðu margoft verið bent á hvar fjölgun ativnnutækifæra hafi verið í rafgeirnanum, það er hjá sprota- og tæknifyrirtækjum. Þar má benda á að styrkir til sprota- og tæknifyrirtækja er brot af því sem varið er til stóriðju. Eins nauðsyn þess að hér verði tekinn upp alvöru gjaldmiðill sem er forsenda þess að sprota- og tæknifyrirtæki þrífist í þessu efnahagsumhverfi.

Allir sem þekkingu hafa á þessum málum vita að ef framlögð atvinnustefna stjórnvalda á að ganga upp á næstu 3 - 4 árum, með því sem búið er að samþykkja, er það ekki framkvæmanlegt nema með því að virkja neðri hluta Þjórsár, annað er blekking.

Ríkisstjórnin verður þar af leiðandi að koma fram og segja fólkinu í landinu og ekki síst fólkinu á Suðurnesjum að annað hvort að hún sé hætt við Helguvík eða að hún ætli að virkja Þjórsá.

Nú nálgast lokaferli gerð kjarasamninga. Því hefur algjörlega verið hafnað að þessi atvinnustefnu verði aftur hluti af forsendum kjarasamninga, nema að fyrir liggi marktækar áætlanir um hvernig leysa eigi orkumálin. Það hefur kallað á mikinn vandræðagang þar sem stjórnmálamenn hafa áttað sig á að þeir haga lokað sig inni í eigin blindgötum og eru þessa dagana að undirbúa afsökunarferli með ASÍ og karllægan ásetning atvinnulífsins fremst á blaði.

Það er freistandi eftir gærdaginn að setja þetta í stærra samhengi. Það mun reynast mörgum um megn að horfast í augu við lausnir í orkuvandann, eigi atvinnustefnu þeirra að ganga upp. Hagkerfið er að verslast upp. Þar er stór þáttur óleyst Icesavemál. Margir hafa orðið til þess að slá sér á brjóst og sagt að þeir hafi haft sigur á innihaldlausum hræðsluáróðri um hér myndi allt fara fjandans til ef landsmenn höfnuðu Icesave og þeir hafi sparað íslensku samfélagi milljarðatugi.

Það þarf ekki glögga menn til þess að sjá að spádómar atvinnulífsmanna rættust um vaxandi uppdráttarsýki vegna í óleystra Icesave-samninga. Vitanlega notuðu margir of dökka liti í sínum málflutningi, en afleiðingar þess að atvinnulífið fékk ekki aðgang að eðlilegum tengslum við alþjóðlega markaði og lánalínum blasa við. Þetta hefur komið fram í ummælum margra af forsvarsmönnum stærstu fyrirtækjanna og orkufyrirtækjanna.

Hagvöxtur hefur verið að dragast saman og tekjur samfélagsins að minnka, verðmætasköpun er minni vegna þess að 15% vinnuafls er frá vinnu. Skatttekjur eru þar af leiðandi minni og velta í viðskiptalífinu minni. Þarna á óleyst Icesave stóra sök. Það stefnir í að í fjárlagagatið hafi stækkað um 30 MIA og mun gera fjárlagagerð fyrir næsta haust nánast óbærilega. Það verður ekki hjá því komist að hækka skatta enn frekar og skera enn meira niður við gerð næstu fjárlaga.

Eða svo maður segi það bara beint út; stjórnmálamenn komast ekki hjá því að taka mjög óvinsælar ákvarðanir á næstu vikum eigi að leysa þá hnúta sem fyrir okkur liggja. Þar dugar ekki að reka AGS á dyr og verja öllum gjaldeyrisforaðnum í að losa um jöklabréfin og taka við óviðráðanlegum vaxtakjörum. Ekki heldur að skipta um nafn á gjaldmiðli landsins og það verður að klára Icesave. Ákvarðanir sem eru sumum stjórnmálamönnum er um megn að taka.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þakka fyrir pistla þína. Sjálfstæðisflokkurinn hefur löngum barist fyrir því að minnka báknið. Nú eru þeir organdi og gorgandi í að ríkið eigi að gera allt. Hvar er frumkvöðlaandinn? Þeir eiga milljarða í bönkunum. Afhverju fara þeir ekki í að byggja upp fyrir eigið fé? Þeir gætu byggt verksmiðjur til að fullvinna fisk í neytendapakkningar nú eða styrkt einhverjar góðar hugmyndir í hugbúnaðargeiranum.
Nei þeir væla allir í ríkinu. Ríkið á að skuldsetja sig til þess væntanlega að "einkavinavæða" svo í framtíðinni. Ég segi við þá :Put your money where your mouth is.
Það eru dýrustu störf sem við búum til þegar við förum út í stóriðju.

Dofri Hermannsson sagði...

Sæll Guðmundur.

Það er fátt nauðsynlegra en að koma Helguvíkurálverinu út úr þessari umræðu. Eins og ég benti á í október, sjá http://www.visir.is/article/20101106/FRETTIR01/797067000 standa álversáform í Helguvík í vegi fyrir miklu stærri og verðmætari tækifærum.

Tækifærum til að byggja upp fjölbreyttan iðnað með margfalt fleiri varanlegum störfum en álverið en þó þannig að hóflega sé gengið fram í virkjun jarðhitans.

Við vitum báðir - eins og allir sem vita vilja - að nályktina af Helguvíkurálversáformunum leggur um allar gáttir. Stjórnvöld, SA og ASÍ, ásamt sveitarfélögum á Suðurnesjum og orkufyrirtækjunum sitja hins vegar öll við spilaborðið og reyna hvert um sig að forðast að enda með Svarta Pétur.

Nú þurfa menn að hætta þessum leik, viðurkenna að þetta er búið og vinda sér í að gera mat - eða öllu heldur störf - úr þeim tækifærum sem löngutímabært fráfall Helguvíkurálversins er.

Hugsið ykkur hvað þessi fáránlegi sýndarleikur er búið að kosta atvinnulíf á Suðurnesjum mörg störf?

Nafnlaus sagði...

Afar góð grein,

Það er afar erfitt að rökræða um stefnu - ef viðkomandi aðilar eru fastir í einka-draumalausnum - fjarri veruleikanum - í ætt við Kastró á Kúbu.

Ekki er fjallað málefnalega um efnið heldur - hamrað á svart hvítum draumum og frösum - sem eiga meira skylt við trúarbrögð.

Þannig er komið fyrir Íslandi á ótal sviðum s.s.

Umfjöllun um Evrópusambandið, Icesave og stóriðju.

Sumir fá flogakast ef þessi hugtök eru nefnd.

Í raun þarf að leysa öll þessi atriði - en það er ekki hægt - og á meðan stefnir þjóðarskútan - enn stórlöskuð eftir seinasta strand - hratt í nýtta strand (bankahrun)- verði þessi mál ekki leyst afar hratt.

Uppbygging á atvinnnutækifærum grænnar orku er einnig í stóriðju -þar sem hún mengar lang minnst á Íslandi - og því er slík framleiðala á Íslandi - græn atvinnustarfsemi fyrir heiminn.

Í stóriðju verða einnig til ótal hátæknistörf og nóg orka er til að fyrir aðra starfsemi.

Á sama tíma eru þúsundir manna atvinnulausir á Reykjanesi. Það er greinilegt að lítið eða ekkert á gera fyrir þetta fólk.

Í núverandi stöðu er sennilega best fyrir fólk að fara að undirbúa far úr landi - þar sem aðilar á Íslandi - eru fastir í "einka prinsippum og draumum" - á meðan samfélagsleg ábyrgð - og almannahagsmunir eru látnir lönd og leið.

Staðan á Íslandi er því einskonar -"Sturlungaöld stjórnmálanna og þröngra hagsmuna og draumahópa" - í endalausu stríði - þar sem enginn gefur eftir - og almenningur liggur valnum.

Eitthvað sem heitir samfélagsleg ábyrgð, heildarhagsmunir, almannahagsmunir og málefnaleg framtíðarstefna - er ekki á dagskrá á slíkri sturlungaöld - heldur einungis afar stórt EGÓ viðkomandi hópa - sem auka sitt stíð af miklum móð,,,,,

Hvar er framtíðn, hvar eru leiðtogar?