fimmtudagur, 17. mars 2011

Hvert eigum við að stefna?

Dr. Michael Porter hefur komið hingað til lands nokkrum sinnum og flutt áhugaverða fyrirlestra. Hann var m.a. hér haustið 2006 og spáði fyrir um að hér væru vaxandi efnahagsvandamál sem menn yrðu að taka strax á. Of mikil þensla og vöxtur bankakerfisins væri áhyggjuefni.

Porter var einnig hér í nóvember síðastliðnum og lagði áherslu á að Íslendingar yrðu sjálfir að hafa frumkvæði að því að vinna sig upp úr vandanum, en við værum einfaldlega ekki að því, heldur eyddum við öllum tíma okkar í að slá pólitískar keilur og koma höggi hver á annan. Pólitíkin væri alls ráðandi. Íslendingar hefðu mikla möguleika til þess að geta unnið sig úr vandanum, ættu mikla orku og í nóvember sagði hann að við ættum að vera komnir lengra af stað í uppbyggingunni. En til þess þyrfti að taka ákvarðanir - og standa við þær.

Íslendingar eru sjálfumglaðir og oft ekki hægt að skilja þá öðruvísi en svo að við teldum okkur vera nánast ein með þekkingu á vinnslu jarðvarma, segir Porter, en svo væri ekki, til væru stór samfélög þar sem væri margfalt meiri jarðvarmanýting en hér.

Þetta kemur upp í hugann bæði vegna yfirstandandi vinnu við gerð kjarasamninga þar sem möguleikar um að koma hagkerfinu í gang eru grandskoðaðir og staldra menn við aukna orkunýtingu. Í erindum sínum hefur Porter velt fyrir sér hvernig íslensk stjórnvöld tækju ákvarðanir. Hann hefur ásamt aðstoðarmönnum sínum leitað mikið eftir gögnum sem sýndu fram á hvaða forsendum íslenskir stjórnmálamenn hefðu tekið ákvarðanir um uppbyggingu orkuvera og stóriðju. Við fundum engar kannanir, engar skýrslur, sagði Porter. Hér virtust ráða för ákvarðanir sem eru að taka mið af einhverju öðru en rannsóknum og staðföstum rökum.

Það liggur fyrir að það er hægt að tvöfalda orkuvinnslu hér á landi á næstu 10 – 15 árum. Verð orku mun hækka og íslenskt samfélag getur líklega tífaldað tekjur sínar af orkusölu, fengið skatttekjur af orkusölu sem duga til þess að reka heilbrigðiskerfið. Hér er ég að vitna tilendurtekinna ummæla Harðar Arnarssonar forstjóra Landsvirkjunar og ummæla Porter.

Þeim sem vinna við gerð kjarasamninga þessa dagana er vel ljóst eigi þau markmið að nást sem aðilar vinnumarkaðs hafa sett sér um kaupmáttaraukningu á samningstímanum, verði fjárfestingar hér að vera yfir 300 MIA ári meiri en þær hafa verið frá Hruni, ætlum við að ná 3% hagvexti sem er lágmark þess að það takist að laga stöðuna í ríkisbúskap og minnka atvinnuleysi. Fjárfestingar hafa verið undir þeim mörkum og hagkerfið er að dragast saman og hér ríkir vaxandi doði.

Eins og staðan er núna stefnir í 2% hagvöxt á þessu ári, sem er svipað eða minni á næsta ári. Nú er hafinn vinna við undirbúning fjárlaga næsta árs, fyrir liggur núverandi staða leiðir okkur í enn meiri minnkun hagkerfisins og fjárlagagatið stækkar um 30MIA, sem mun kalla á enn meiri niðurskurð og hækkun skatta.

Eina leiðin til komast út er þessu ástandi er að auka hagvöxt, eða með öðrum orðum atvinnu og útflutning. Það þarf að skapa um 30 þús. störf á næstu árum. Ef það á að vera hægt þarf atvinnulífinu að standa til boða nægt lánsfé á ásættanlegum kjörum.

Ef það tækist að ná 2% árlegum hagvexti til ársins 2020, verða lífskjör þá orðin svipuð og þau voru við Hrun 2008. En atvinnuleysi verður enn svipað og það er nú og velferðarkerfið verður umtalsvert laskað.

Ef hagvöxtur verður 3,5% fram til 2020 verða lífskjör svipuð og 2008, en atvinnuleysi verður um það bil helmingi minna en það er í dag, eða um 5%, sem er samt töluvert lakara en það var 2008 og verðferðarkerfið verður í sömu stöðu og það er í dag.

Það þarf 5% hagvöxt til ársins 2020 til þess að losna við atvinnuleysið bæta lífskjör og ná velferðakerfinu í svipaða stöðu að það var fyrir Hrun. Við náum ekki 5% hagvöxt nema þá með því að auka orkuframleiðslu og nýta orkuna vel. Þar ættum við að huga vel að fjölnýtingu jarðvarmans, lífefnaiðnað og framleiðslu matvæla.

Það verður skortur á orku og matvælum í framtíðinni. Flutningskostnaður mun hafa mikil áhrif. Ræktun fisks í landkerum við 27° hita sem gefur kost á hraðvexti er virkilega áhugaverður kostur við fjölnýtingu jarðvarmans. Í samtenginu við það á að reisa gríðarlega stór gróðurhús fyrir matvælaframleiðslu og repjurækt.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Semsé þvert á það sem sagt var stefnir hér í enn frekari niðurskurð og enn brjálæðislegri skattahækkanir.

Nú hefst landflóttinn fyrir alvöru.

Svandísi Svavarsdóttur verður að ósk sinni.

Henni finnst svo frábært hversu fáir búa á Íslandi.

Nafnlaus sagði...

Virkilega gaman að lesa bjartsýnina og framtakssemina í pistlunum þínum.

Gæti ekki verið meira sammála!

Kveðja, Guðbjörn

Nafnlaus sagði...

Afar fróðlegt,

Ísland stendur á tímamótum.

Það er ekki hægt að endurtaka í sífellu mistök fortíðar eins og gert hefur verið m.a. í gjaldmiðlamálum, vegna þess að það er ekkert pláss fyrir mistök og óþarfa kostnað, eins og af krónunni, sem tvöfaldar húsnæðisverð og fjármagnskostnað fyrirtækja.

Ef fyrri mistök á því svið verða endurtekin sekkur skútan,,

Þess vegna eru þín komment svo mikilvæg - þar sem þau eru málefnaleg, víðsýn og framsýn.

Við verðum að nota visku fortðiðar til að eiga eihverja möguleika til framtíðar.

eða eins og Mahatma Gandhi sagði,

"You must be the change you want to see in the world."

halldor sagði...

Nýting jarðhitans er eitthvað sem þarf að huga vel að. Húshitun er frumþörf á köldu landi, og mikilvægt að hagsmunir komandi kynslóða verði ekki fyrir borð bornir þegar hugað er að virkjunum á nýjum svæðum. Þannig má ekki að ganga á öll háhitasvæði á suðvestur hluta landsins. Borgarbörn framtíðarinnar munu þurfa sitt.

Ekki svo að skilja að ekkert megi gera. Líklega eru samt fjölnot heppilegust, þar sem saman fari eitt eða fleiri af hitaveitu, raforkuframleiðslu, ylrækt í gróðurhúsum, þörungaeldi, efnaiðnaði osfrv.

Nafnlaus sagði...

Góð grein hjá þér. En er það ekki vandamál að ekki er enn búið að klára orkunýtingarskýrslu. Það hlýtur að setja strik í reikningin að stjórnvöld er að hringla endalaust með þessi mál.

Sigurður Sigurðsson ( þessi sem Þráinn B er svo prirraður út í)

Nafnlaus sagði...

Fin grein haltu áfram þú eykur mér bjartsýni