sunnudagur, 23. október 2011

Auðmenn í Silfrinu

Settist við Silfrið til þess að hlusta á viðtal Egils við Richard Wilkinson. Hann er ásamt Kate Pickett höfundur bókarinnar The Spirit Level: Why More Equal Societies Almost Always Do Better. Bókin vakti feikilega athygli þegar hún kom út. Kenning bókarinnar er sú að samfélögum þar sem jöfnuður ríkir vegni betur en þar sem ójöfnuður er mikill – þetta er stutt ýmsum gögnum og samanburðarrannsóknum. Wilkinson kemur að efninu úr nokkuð óvenjulegri átt – hann hefur eytt ævinni í rannsóknir á heilsufari og á sviði faraldursfræði.

Viðtalið við hann og þær niðurstöður sem hann kynnti var ákaflega áhugavert. Og svo skemmtilega vildi til að það var í fullkominni andsögn við það sem hafði komið fram í umræðum fyrr í Silfrinu þar sem voru þrír auðmenn sem eru talsmenn íslenskra fjármála- og auðmanna. Þeir fóru mikinn í því að mæra krónuna og vildu leggja allt í að hún væri nýtt áfram hér á landi.

Íslensku auðmennirnir vilja beita öllum brögðum til þess að komast hjá því að ræða þær hörmungar efnahagsstjórn þeirra flokka leiddi yfir okkur, þar var krónan í aðalhlutverki. Hún hefur líka verið í aðalhlutverki þegar hluti launa og eigna hefur verið yfirfærður í gegnum gengisfellingu til þeirra hagsmuna aðila sem þeir standa vörð fyrir. Við hefðum ekki farið svona illa út úr Hruninu ef við hefðum verið með alvöru gjaldmiðil. Málið snýst um þetta en það forðast þeir að ræða.

Auðmennirnir gengisfelldu rök sín með því að nota Grikkland sem rök fyrir ómögulegri evru, allir vita (einnig þeir) að það er spilling og slök efnahagsstjórn sem hefur komið Grikklandi í þá stöðu sem landið er í. Og svo vísuðu íslensku auðmennirnir (sem eru reyndar einnig þingmenn í aukastarfi) í Krugmann máli sínu til stuðnings, enn önnur gengisfelling á málflutning þeirra.

Krugmann talar um heppni íslendingar yfir að hafa krónuna, en sleppir því hversu margir hafa flúið land, þeir eru ekki á atvinnuleysiskrá. (þar á meðal eru t.d. um 1.000 rafiðnaðarmenn, eða um 20% af starfandi rafiðnaðarmönnum hér á landi) Það hafa tapast um 15.000 störf, það verður að taka það inn í dæmið ef menn ætla að fara út í raunsæjan samanburð, einnig þann fjölda sem fór af vinnumarkaði í skóla við Hrun og svo hversu margir hafa kosið að vera áfram í skóla frekar en að koma út á vinnumarkað eða heim að loknu námu erlendis.

Í rannsóknum á íslenskum vinnumarkaði á undanförnum árum kemur víða fram að íslenskur vinnumarkaður sé í mörgu töluvert öðruvísi en aðrir, sérstaklega með tillit til þess hversu lengi íslendingar eru á vinnumarkaði og þar kemur fram að með þeim meðtöldum ásamt þeim sem fara í nám þegar að sverfir á íslenskum vinnumarkaði, samsvari allt að 10% af vinnuaflinu, þetta rugli umtalsvert allar rannsóknir og samanburð. Þess vegna er ekki stafkrók að marka það sem Krugmann og aðrir eru að rugla um að við höfum það svo svakalega gott hér á Íslandi eftir Hrun.

Þar til viðbótar verður að taka mið af því að við höfum krónuna og hún hefur verið nýtt til þess að halda atvinnustigi háu, á kostnað launamanna með því að fella laun reglulega og auka þar með hagnað fyrirtækja þá sérstaklega útflutningsfyrirtækjanna. Frá Hruni höfum við búið við takmarkalausan hagnað útflutningsfyrirtækja, en þau hækka ekki laun sinna starfsmanna, en til þess að friðþægja samviskuna er bónusum skenkt til starfsmanna. Þetta er sjónarmið sem fellur auðmönnum vel í geð.

Jón Daníelsson, hagfræðingur í London hefur fjallað um skrif Pauls Krugman um Ísland og segir að Krugmann eigi skilið að fá falleinkunn fyrir það sem hann segir. Ástæða er að minna lesendur á að íslensk heimili töpuðu flest öllum sínum eignum við hrun krónunnar og mörg sitja í algjörlega vonlausri skuldastöðu.

Í þessu sambandi ætla ég að koma aðeins inn á orð sem féllu í öðru viðtali í Silfrinu, og eru endurtekið ítrekuð í Silfrinu ef ekki af gestum þá af Agli sjálfum um að verkalýðsforystan standi gegn hagsmunum launamanna með því að samþykkja að úr lífeyrissjóðunum verði teknir 235 milljarðar til þess að greiða niður skuldir fólks, í langfæstum tilfellum sjóðsfélaga.

Því var haldið fram að þar væru einhverjir örfáir einstaklingar farnir að taka sér völd sem þeir hafi ekki. Í fyrsta lagi hafa engir heimild til þess að taka sparifé launamanna í lífeyrissjóðum til þess að nýta það í eitthvað annað en að greiða út lífeyri eða örorkubætur, jafnvel þó þeir séu breiðir verkalýðsforingjar. Það er stjórnarskrárbrot og reyndar líka lögbrot.

Einnig má minna á það var gerð könnun meðal félagsmanna í stéttarfélögum og þar kom fram að um 86% höfnuðu að fjármagn úr lífeyrissjóðunum yrði nýtt til þessara hluta, en jafnmargir vildu að framkvæmd væri skuldaleiðrétting á skuldastöðu heimilanna. Hér vísa ég m.a. til hinna 10 aðildarfélaga innan RSÍ. Þannig að þeir verkalýðsforingjar sem kynntu þessa afstöðu voru að fara eftir vilja félagsmanna, ekki ganga gegn þeim.

Mesti hluti ávöxtunar lífeyrisjóðanna hefur komið í gegnum hagnað á hlutabréfum og skuldabréfum, enda minnihluti eigna lífeyriskerfisins bundið í verðbundnum bréfum. Á móti eru allar útgreiðslur bóta eru verðtryggðar. Allur rekstrarvandi lífeyrissjóðanna myndi hverfa ef verðtrygging yrði lögð niður, en lífeyrisþegar fengju umtalsvert skertan lífeyri, verið væri að rukka núverandi lífeyrisþega fyrir eyðslu annarra.

Auk framangreinds hefur komið fram að hópur sjóðsfélaga var búinn að lýsa því yfir að þeir myndu fá sér lögmenn um leið og ein króna væri tekinn og henni úthlutað án endurgreiðslukrafna. Sjóðsfélagar ætluðu að stefna stjórnum viðkomandi sjóða ef þetta yrði gert, en þær eru ábyrgar fyrir því að fara að settum lögum. Það fyrst þá sem ríkisstjórnin áttaði sig á því að þessi leið var ófær,. En því hefur verið að venju snúið upp í einhverjar ógeðfelldar ásakanir gegn starfmönnum stéttarfélaganna. Það gengur líka í spjallþáttunum og það þjónar hagsmunum fjárglæframannanna sem gera allt til þess að beina sjónum almennings frá eigin gjörðum og beita sínu fólki í fjölmiðlunum til óspart til þess.

Afleiðingar þeirrar efnahagsstefnu sem hefur verið fylgt á Íslandi frá lýðveldisstofnun hefur valdið um 25% meðalverðbólgu á ári. Til þess að ná álíka kaupmætti höfum við orðið að skila að jafnaði um 10 klst. lengri vinnuviku en tíðkast í nágrannalöndum okkar.

25% verðbólga samsvarar færslu fjórðungs tekna frá launþegum og sparifjáreigendum til atvinnurekenda. Íslenskir launamenn hafa því eytt 3 mánuðum á ári í 60 ár í að niðurgreiða íslenskt atvinnulíf. Þriðjungi starfsævinnar eyðum við í að greiða herkostnað af efnahagsstjórn stjórnmálamanna, sem byggist á því að tryggja lágan launakostnað með verðbólgu og reglulegum gengisfellingum. Þetta er það sem auðmenn vilja halda í og talsmenn þeirra á Alþingi ganga hart fram í því að viðhalda þessum forréttindum.

Manni verður flökurt þegar maður heyrir tvískinnung þessara manna og svo maður tali nú ekki um þegar þeir fara að klæða það í búning þess að þeir séu að ganga erinda launamanna og heimilanna í landinu.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já.
Það var gaman að sjá, hvað menn vörðu krónuna.
Enda heldur hún uppi gæðum 1%.
99% fara láta heyra í sér.

Lífeyrissjóðirnir, það er handleggur sem þarf að fara vel með, en misgáfaðir einstaklingar eru þar við völd, 10 heimskir eru ekki skárri en 1 gáfaður. Þeir eru bara heimskari, þurfum að koma þessum gáfaða til valda, 1% inn 99% út þar. :)

Nafnlaus sagði...

það sem Krugman segir um Ísland verður að skoða frá bandarísku/pólitísku sjónarmiði. Hann vill augljóslega að Bandaríkin líki eftir sumu í stefnu Íslendinga og málar því upp rósrauða mynd.

Það þýðir hvorki að tillögur hans fyrir BNA séu slæmar, né að það sem hann segi um Íslandi sé allt endilega ósatt, en þetta er meira pólitíkusinn, skoðanamyndarinn, pistlahöfundurinn Krugman heldur en Nóbelshagfræðingurinn.

Nafnlaus sagði...

Takk Guðmundur.

Silfur Egils stóð þá loks undir nafni.

Þvílíkur þáttur.

Óskiljanlegt að fólk sé neytt til að borga fyrir þessi ósköp.

Nafnlaus sagði...

Góð grein.

Þegar horft er á efnahahagsmálaumræður, minnir það stundum á Heilsubælið – svo rugluð er umræðan.

Þátt eftir þátt – koma sömu aðilarnir og endurtaka sömu steypuna – og hald að þeir sé að koma með eitthvað nýtt - sem einnig er ákveðið - ónefnt sjúkdómseinkenni.

Svo er ruglið kórónað – þegar erlendir „sérfræðngar“ koma til landsins – og segja þær fréttir að hér hafi allt tekist svo vel – þrátt fyrir að 60% fyrirtækja voru gerð gjaldþrota og þúsundir heimila. Ekkert slíkt kom fyrir á Írlandi, Grikklandi, Spáni eða innan Evrulanda.

Þeir virðast ekki hafa hugmynd um að – hér hækkuðu erl. lán heimla og fyrirtækja um 100%, 60% fyrirtækja urðu tæknilega gjaldþrota – gjaldmiðilinn hrundi – og til varð gjaldmiðlakreppa – sem myndaði einhverja mestu skuldakreppu sem um getur í vestrænu þjóðfélagi – og enn er að magnanst – þar sem gjaldmiðlakreppan er óleyst – og enginn hefur áhuga á að ræða.

Fjöldi heimila og fyrirtækja – voru gerð eignalaus – margra ára uppbygging þurrkaðist út á einu bretti – sem jafngildir einhverri mestu eignaupptöku þjóðar í sögunni – sem ekki er gerð með hervaldi.

Síðan koma vitringarnir og auðmennirnir, sem eflaust eiga digra verðtryggða reikninga – og dásama krónuna – og endilega verði að halda áfra á þeirri fögru braut – sennilega er ávöxtunin svona góð.

Frahaldið á því að fara sömu leiðirnar – með sömu krónu og peningamálastefnuna - getur ekki endað nema með – nýju hruni. Spurning er einungis hvað það tekur langan tíma. Líkurnar aukast hinsvegar eftir því sem lengra líður.

Spurningin er – er einbeittur vilji aðila að svo illa fari – eða er „kommon sense“ ekki meiri.

Nafnlaus sagði...

,,Einnig má minna á það var gerð könnun meðal félagsmanna í stéttarfélögum og þar kom fram að um 85% höfnuðu alfarið að fjármagn úr lífeyrissjóðunum væri nýtt til þessara hluta, en jafnmargir vildu að framkvæmd væri skuldaleiðrétting á skuldastöðu heimilanna. Þannig að þeir verkalýðsforingjar sem kynntu þessa afstöðu voru að fara eftir vilja félagsmanna, ekki ganga gegn þeim."

Guðmundur ekki veit ég hvaða könnun það er sem þú ert að vitna til ?

Ertu að vitna til könnunar sem gerð var á meðal stjórnarmanna í verklýðsfélögum og stjórmanna launþega í lífeyrissjóðum ?

Hef ekki orðið var við neina aðra könnun um þetta málefni !

Guðmundur sagði...

Æi lestu t.d. heimasíðu RSÍ, þetta hefur einnig komiðp ítrekað fram hér á þessari síðu.

Maður fær svo mikin aulahroll þegar svona ath.s berast frá huglausum nafnleysingjum, þeim sem berjast jafnóheiðarlega og þeir sem ekki geta klárað setningu án þess að halda því fram að hjá stéttarfélögum starfi gangstera sem hafi ekkert annað fyrir stafni annað en að gambla með fjármuni lífeyrissjóðanna.

Undantekningalaust menn sem gera kröfur til verkalýðsfélaganna og lífeyrissjóðanna, eru ekki félagsmenn og greiða eins lítið til samfélagsins og þeir komast upp með.

Nafnlaus sagði...

"Maður fær svo mikin aulahroll þegar svona ath.s berast frá huglausum nafnleysingjum, þeim sem berjast jafnóheiðarlega og þeir sem ekki geta klárað setningu án þess að halda því fram að hjá stéttarfélögum starfi gangstera sem hafi ekkert annað fyrir stafni annað en að gambla með fjármuni lífeyrissjóðanna. "

Er ekki búið að lækka réttindi félagsamanna margra lífeyrissjóða um % vegna hrunsins, hvers vegna var það ?.

Lífiðn stóð sterkt 2004

http://rafis.is/index.php?option=com_content&view=article&id=783&catid=65:2004&Itemid=138

Stafir þurftu svo að skerða réttindi http://www.stafir.is/sjodurinn/frettir/nr/203

Ef einn sparisjóður á landinu er réttum megin við 0 eftir hrunið, þá segir það mér að hann gamblaði ekki. 1% gáfaðir einstaklingar þar.

Betra vera nafnlaus en rekin á hol fyrir skoðanir sínar á Íslandi.

Sá nafnlausi er líka persóna.

Guðmundur sagði...

Almennu lífeyrissjóðirnir eru einu fjármálastofnanirnar sem komu standandi út úr Hruninu, allar aðrar fjármálastofnanir fóru á hausinn, sem voru undir stjórn stjórnmálamanna, fjármálafursta og sérfræðinga fóru á hausinn.

Allir starfsmenn stéttarfélaga sem ég þekki eru vandað og gott fólk sem sinnir sínum störfum eftir góðir samvisku og í góðu samstarfi við félagsmenn.
En það er ákveðinn hópur sem hefur góðan aðgang að fjölmiðlum, á þá jafnvel sem hefur hag að því að beina sjónum fólks frá eigin gjörðum og að starfsfólki stéttarfélaga. Engin af þessum klisjum heldur vatni og á öllum félagsfundum birtist okkur starfsfólki allt önnur og jákvæð viðhorf.
En sumir þola ekki að þeim sé bent á þetta og vilja hálda sig í skjóli og skjóta úr launasátri á saklaust fólk

Nafnlaus sagði...

Og enn kennir þú vesælings krónunni um allt illt sem hefur fyrir okkur komið.

Ætla bara að minna þig að þegar og ef það verður skipt yfir úr krónu í Evru, þá verða Íslendingar láglaunafólk í Evrópu.

Þetta er einfalt reiknidæmi.

Meðallaun í t.d. Evrulandinu Þýskalandi eru um 4.000 Eur fyrir skatta.

Meðallaun á Íslandi eru um 350.000 ISK á mánuði fyrir skatta.

Við myntskipti úr krónum í Evru á genginu 160 ISK/EUR verða 350.000 kr. mánaðarlaunin að 2.188 EUR mánaðarlaunum á Íslandi

Þetta er talsvegur vegur frá 4.000 EUR meðalmánaðarlaunum í Þýskalandi.

Hvernig verður hægt að jafna kjör Íslenskt launafólks í framtíðinni til samræmis við kjör launafólks í öðrum Evruríkjum?

Nafnlaus sagði...

Já Guðmundur það er rétt hjá þér að hún er dugleg varnarsveit auðmanna í að beina umræðunni frá sjálfum sér og allt vilja gera til þess að missa ekki þann stóra spón úr sínum aski sem krónan er. Vitanlega minnast þeir aldrei á þá gríðarlegu eignaupptöku sem varð hjá almenning í hruninu og hvaða skaða krónan olli fólki

Þakka þér fyrir frábæra varnabaráttu fyrir málstað verkafólks og haltu henni áfram. Þessi pistill er frábært innlegg í umræðuna
Kristinn Þór

Nafnlaus sagði...

Þakka þér fyrir athyglisverða umfjöllun um krónuna, auðmenn og fleira í Silfri Egils . Niðurstaða Krugmans um blessun þá sem felst í að halda í krónuna er mjög svo í takt við aðra umfjöllun erlendra sérfræðinga um málefni Íslands ; Þetta fólk, sem upp til hópa er ólæst á íslenska tungu er ófært um að afla sér upplýsinga frá fyrstu hendi, fær sannleikann matreiddan og tilbúinn frá aðilum sem eiga þeirra hagsmuna að gæta að allt sé slétt & fellt á yfirborðinu. Þegar heim er komið skrifa þessir gestir vorir nákvæmlega og samviskusamlega það sem áhrifamenn íslenskir hafa gefið þeim með í veganesti. Þetta á ekki einungis við um efnahagsmál heldur svo til öll þjóðmál - þar með talin umræðan um bókmenntir og listir. Hvergi örlar á sjálfstæðri hugsun, enda allir logandi hræddir við að móðga Íslendinga. Það er vissara að endurtaka sömu tugguna og gefin var fyrir ...
Orri Ólafur Magnússon