sunnudagur, 27. nóvember 2011

Gufuskálavör


Rústir verbúðar við Gufuskálavör

Fór í gær vestur á Snæfellsnes á heimaslóðir konunnar. Á meðan hún sinnti erindum vegna inngöngu aðventunnar með systrum og frænkum, nýtti ég tímann til þess að finna mér svæði til þess að rölta um, eins og svo oft áður. Búinn að rölta 13 sinnum á jökulinn, en nú var snjómugga en veður stillt og gott, svo ég leitaði niður í fjöruna. Utanvert nesið býður upp á óendanlega margt til þess að skoða, víða er búið að gera stórátak í lagningu gönguleiða og merkingu markverðra staða.

Gufuskálar eru vestan við Hellissand. Þar reisti herinn mikil mannvirki til þess að tryggja að kommarnir vondu myndu ekki komast of nálægt "the Free World". Þar var á tímabili fjölmenn byggð, en nú rekur Landsbjörg þar umfangsmiklar þjálfunarbúðir við leit og björgun.

Á Gufuskálum var búið allt til ársins 1948. Útgerð var hér áður mikil frá Gufuskálum líkt og fleiri stöðum á utanverðu Snæfellsnesi og var þar víða fjölmenni í verunum. Víða má sjá merki fiskibyrgja þar sem sjómenn hlóðu upp byrgi úr fjörugrjóti og hrauni því byggingarefni sem er næst hendinni. Fjöldi byrgja sem fundist hafa er gríðarlegur. Það hvílir ævintýrablær yfir byrgjunum þegar rölt er um hraunkantinn við fjöruna í grend við verin blasir við hversu harðsótt hún hefur verið baráttan að draga björg í bú.


Niðurgangan í Írskrabrunn


Við Gufuskála eru minjar sem rekja má til írskrar búsetu frá því fyrir landnám, m.a. forn brunnur sem af nefndur Írskrabrunnur ásamt fiskbyrgjum í hrauninu. Írskrabrunnur var nánast týndur, því áfok og gróður höfðu í sameiningu nánast lokað brunninum. En hann hefur nú verið opnaður að nýju og sjást meðal annars hlaðin þrep, því brunnurinn er djúpur.

Gangan milli varanna og fiskibirgjanna er fín áminning í upphafi aðventu þar sem rætt um jólin gangi í garð með spjaldtölvum, flatskjáum, jólatónleikum og jólahlaðborðum.


Minnisvarði um Elínborg Þorbjarnardóttir


Síðasti ábúandi í Gufuskálum var Elínborg Þorbjarnardóttir húsfreyja á Gufuskálum 1898 – 1946
Bæn eftir þessa merku konu er á þarna á minnisvarða.

Þú hinn voldugi herra drottinn hafs. Drottin allsherjar,
blessa þú hafið og ströndina fyrir Gufuskálalandi,
svo enginn, sem héðan leitar á sjóinn verði fyrir grandi,
né neinn sá er leitar hér lands af sjónum farist.

Þín blessun hvíli yfir hverjum kima og hverjum tanga
landsins yfir hafinu og þeim, sem á jörðinni búa nú og
framvegis, meðan land er byggt.

Orð þessarar konu eiga allt eins við í dag, ef okkur tekst ekki að koma augu á lífið í kringum okkur yfir hlaðin allsnæktarborðin og áhyggjum að komast ekki yfir öll jólatilboðin í stórmörkuðunum.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

dingsalyTakk fyrir fallegan pistil á fyrsta sunnudegi aðventu.
Kveðja, frá Sviss.

Haukur Kristinsson

nemo sagði...

Skemmtilegur pistill. Sjávarbyggðirnar undir Jökli voru fjölmennar fyrr á öldum. En hvað um Vatnshelli? hefur þú skoðað hann?

Guðmundur sagði...

Nei hef nokkrum sinnum komið að Vatnshelli,en aldrei hitt á tíma þegar hann er opinn