föstudagur, 4. nóvember 2011

Hraðlest til lægstu kjara

Alveg voru þau fyrirséð viðbrögð þingmanna framsóknarmanna við upplýstum skattsvikum og félagslegum niðurboðum fyrirtækja. Svokölluðu neðanjarðarhagkerfi, svartri vinnu. Það var ríkisstjórninni að kenna og að sjálfsögðu birtu forsvarsmenn systurflokksins þetta á forsíðu með stríðsletri.

Er nema von að stjórnarandstaðan njóti 7% fylgis?

Ríkisstjórnir framsóknar og sjálfstæðis hækkuðu skatta langt umfram aðra, og það sem var reyndar sóðalegast við þær hækkanir að þeim var eingöngu beint gegn láglauna- og millitekjufólki. Stórhluti þeirra skattabreytingar voru framkvæmdar í gegnum skerðingar í barna- og vaxtabótakerfinu.

En það er ekki málið. Málið er að það liggur fyrir að neðanjarðarhagkerfið er til staðar, sem er svo sem ekkert nýtt, en í dag er talið að verið sé að svíkjast um að skila til samfélagsins um 13 milljörðum króna, á sama tíma og samfélagið stendur frammi fyrir ógnvænlegum niðurskurði í velferðasamfélaginu, og þá standa upp þingmenn og réttlæta skattsvik!!?? Þessir þingmenn voru rétt áður í pontu og krefjast þess að umsvif velferðarkerfisins væru aukinn.

Málið snýst um þá skelfilegu staðreynd að þingmenn, já allir þingmenn geti nú ekki tekið höndum saman við ríkisskattstjóra í baráttu gegn þessu.

Það er ekki bara verið að svíkja undan skatti til samfélagsins, það er verið að taka margskonar umsaminn lágmarksréttindi frá launamönnum, eins og orlof, frí á lögbundnum helgidögum, veikindadaga, réttindum til bóta, uppsagnarfrest og þannig mætti lengi telja.

Þetta virkar ekki bara gegn launamönnum og velferðarkerfinu, með þessu er verið að skapa óeðlilega samkeppnisstöðu gagnvart þeim fyrirtækjum sem reyna að fara að öllum settum leikreglum. Það er verið að stuðla að enn fleiri gjaldþrotum fyrirtækja, með þessu háttalagi er verið að taka hraðlest til lægstu kjara. Fyrir þessu virðast þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar berjast.

Þessir sömu flokkar börðust fyrir því á fundum innan ESB að sett væru lög í Evrópu um að lágmarkskjör kjarasamninga í heimalandi giltu, voru reyndar gagnrýndir harkalega þar á meðal þáverandi forset Frakklands sem sagði að þetta jafngilti því að stefnan væri tekin á kjör í austur Evrópu í stað þess að reyna að draga kjör upp í það meðaltal sem þau eru í norður Evrópu.

Þessi sjónarmið eru heldur betur að koma í bakið á okkur, þar á meðal íslenska launamenn sem starfa hjá íslenskum fyrirtækjum í Noregi þessa dagana.

Á stofnfundi félags rafvirkja árið 1927 var flutt eftirminnileg ræða af ömmubróður mínum Einari Bachmann, bróður Hallgríms Bachmann síðar ljósameistara Þjóðleikhússins, þar viðhafði Einar í barátturæðu sinni fyrir stofnun fyrsta stéttarfélags rafiðnaðarmanna á Íslandi, orð sem oft er vitnað til á fundum rafiðnaðarmanna enn þann dag í dag, „Nú er kominn tími til að við snúum bökum saman og vinnum okkur upp úr skítnum“.

Er algjörlega vonlaust að allir þar á meðal allir þing þingmenn taki nú höndum saman og standi með þeim sem greiða sína skatta í að rífa íslenskan vinnumarkað upp úr skítnum?

10 ummæli:

Trausti Þórðarson sagði...

Afar gagnlegt væri ef þú upplýstir hverjir eru þessir ,,við hinir"því heldur hljótt hefur verið um þessa starfsemi.
Stór fyrirtæki sem hafa öðlast framhaldslíf eftir afskriftir fá ekki iðnaðarmenn til starfa því þeir eru úti í bílskúr og hafa nóg að gera.
Annars held ég að menn væru viljugri til að borga lífeyrisiðgjöld ef þeir gætu reiknað með að fá þau til baka eftir starfslok.
kv. Trausti Þórðarson.

Guðmundur sagði...

Það er tiltölulega einfaldur útreikningur og er kveðið reyndar um það í lögum umlágmarkið. Þetta er á reiknivélum lífeyriss´joða og kemur einngi fram á heimasíðum þeirra.

Lágmarkið er 56% af þeim meðallaunum sem koma fram í iðgjaldi viðkomandi, hjá sumum sjóðum er þetta vel yfir 60%.

Hér þarf vitanlega að taka með í dæmið að ætíð verður að miða fullan starfsaldur

Trausti Þórðarson sagði...

Kæri Guðmundur.
Ég óttast að þú hafir tekið stefnuna á Alþingi því þú svaraðir ekki spurningunni.

Nafnlaus sagði...

Hvernig er hægt að reikna út þessa 13 milljarða á leynilegu svörtu hagkerfi? Hefur það eitthvað með peningamagn sem er í umferð að gera?

Guðmundur sagði...

Svara ég ekki spurningunni??!! Þú segir að það viljir fá að vita hvað þú fáir út úr því að greiða til lífeyrissjóðs og því er svarað og kemur svo með einhverjar persónulegar dylgjur, sem er reyndar svo sorglega algengt, því umræðulist á Íslandi er á ótrúlega lágu plani eins og svo margir hafa bent á. Ég get reynt að svara ítarlegar, þetta er reyndar hlutur sem flestir vita ef þeir kynna sér á annað borð lífeyrismál og hefur komið fram í mörgum pistlum á þessari síðu.

Lífeyriskerfið er stillt af þannig að þú átt að fá a.m.k. 56% af meðallaunum á starfsævinni, og byggist vitanlega á því sem greitt hefur verið til sjóðsins, ef ekki er greitt af öllum launum þá skapast vitanlega ekki réttur af því sem ekki er greitt er af. Ávinnslustuðlar eru misjafnir milli sjóða, það fer eftir því hvaða hópar greiða til viðkomandi sjóðs, t.d. hver er örorkubyrði sjóðsins og aldursdreifing, en miðum við að þú fáir 60% af meðallaunum til þess að hafa hlutina sem einfaldasta.

Búum til mjög einfalt dæmi og segjum að þú hafir haft 1 milljón á ári í laun alla þína starfsævi og miðum við að verðabólga hafi allan tímann verið undir 3%, þannig að ávöxtun hafi verið eðlileg og verðtrygging þar af leiðandi óvirk.

Iðgjöld hafa verið lengst af um 10%, voru í byrjun lægri en hafa upp á síðkastið verið hærri, þannig að við miðum við 10%. Þú hefur þá borgað í lífeyrissjóð þinn 100 þús. kr. á ári. Starfsævi er 40 ár sem þýðir að þú hefur borgað 4 millj. kr. í sjóðinn. Lögin um lífeyrisjóði segja að til þess að koma í veg fyrir að ein kynslóð fái meira út úr kerfinu en önnur verði að reikna út árlega hver ávöxtun sé og tryggja að hún skili sér til allra sem eru að greiða til sjóðsins, bæði ungra og gamalla, þar ræður viðmiðunartalan 3,5%, ef það er minna þá þýðir það að ein kynslóð er að fá meira en önnur.

Þú hefur borgað af einni milljón á ári allan tímann fram til 67 ára aldurs þá eru meðallaunin vitanlega 1 millj. og þú færð þá 60%, eða 600 þús. kr. á ári út úr sjóðnum, og það er verðtryggt, þannig að þú getur keypt jafnmikið af venjulegir neysluvöru allan tímann og það er tryggt að þú færð eins lengi og þú lifir. Meðalævin er tæplega 80 ár þannig að þú færið 600 þús. sinnum 13 ár sem gerir 7,8 millj. kr. eða um helmingi meira en þú greiddir til sjóðsins, það er vegna eðlilegrar ávöxtunar á sparifé þínu.

Nú er það svo að kerfið er svo ungt (stofnað 1970), að engin hefur enn greitt fulla starfsævi fullt iðgjald. T.d. var iðgjald lægra fyrstu árin og einungis af daglaunum. Einnig var kerfið þannig að öll ávöxtun í landinu var neikvæð fram að árinu 1984. En segjum að þú hafi greitt til kerfisins í 20 ár þá færð þú einfaldlega helmingi minna en um er getið hér að ofan.

framhald hér neðar

Guðmundur sagði...

En þetta er ekki öll sagan, því innborgun í kerfið að einnig greiðsla til örorkutryggingar þinnar. Það þýðir að ef þú verður fyrir því óláni að verða öryrki 40 ára þá tryggir kerfið að þú fáir frá þeim degi 600 þús. kr. til æviloka, eða margfalt það sem þú hefur greitt til kerfisins. Það er reiknað með að þú hefðir greitt af sömu meðallaun út þín starfsævi og myndir öðlast þennan rétt, þetta er hin svokallaða samtrygging kerfisins, auk þess að tryggja þér fullan lífeyri alveg sama hversu lengi þú lifir.

Örorkubyrði lífeyrissjóðanna er ákaflega misjöfn, en það er nærri lagi að um 10% af iðgjaldinu þínu fari í þessa tryggingu þannig að þú greiddir í raun um 3,6 millj. kr. í lífeyristrygginguna.

Allt hér að ofan er mikil einföldun, því hér spilar ávöxtun gríðarlega stórt hlutverk eins og þú sérð. Ef verðtrygging væri afnumin má áætla að ávöxtun verði mun lakari og jafnvel neikvæð eins og hún var fram til 1984. Sem dæmi get ég nefnt að ég kom út á vinnumarkað um 1970 og var með vel ríflega meðallaun iðnaðarmanna og borgaði af þeim í lífeyrissjóð, ég átti eftir fyrstu 10 árin í mínum lífeyrissjóð inneign sem samsvaraði verðgildi hálfs lambaskrokks, hitt hafði brunnið upp í neikvæðri ávöxtun verðbólgubálsins.

Önnur aukaverkun afnáms verðtryggingar og slakrar ávöxtunar væri að lífeyrir þinn myndi þá vitanlega ekki fylgja verðlagi. Eða með öðrum orðun ein kynslóð myndi taka út inneign næstu kynslóðar og eyða henni, eins og gerðist fyrir 1984. Það er nákvæmlega það sem málið snýst um þessa dagana, sé t.d. litið til ummæla þingmanna og ráðherra þegar þeir tala um að lífeyrissjóðirnir vilji ekki taka þátt í að greiða niður skuldir allra ekki bara þeirra sem eiga allt sitt sparifé í sjóðunum. Í lífeyrissjóðunum er sparifé fólks og það er varið eignarétt í lögum og stjórnarskrá. Þess vegna er hreint út sagt ótrúlegt að hlusta á þingmenn og ráðherra tala um lögbrot eins og það sé sjálfsagður hlutur.

Þú getur reiknað út hversu mikið þú átt í sjóðnum ef þú lítur á seðilinn þinn frá lífeyrissjóðnum. Þar stendur hvaða lífeyri þú munir fá greiði þú til sjóðsins áfram til 67 ára aldurs það sem þú hefur greitt hingað til. Meðalinneign fjölskyldu í dag er um 17 millj. kr. Útborgun lífeyriskerfisins hækkar á hverju ári, sífellt fleiri eru að komast á lífeyrisaldur. Um síðust aldamót voru útborgarnir lífeyriskerfisins jafnmiklar og Tryggingarstofnunar, í dag greiða lífeyrissjóðirnir út 70 milljarða á móti 50 milljörðum sem Tryggingarstofnun greiðir út. Eftir um það við 15 ár verður lífeyriskerfið komið í jafnvægi og útgreiðslur verða álíka miklar og koma inn í kerfið

Margar þjóðir hafa verið að taka upp samskonar lífeyriskerfi og hið íslenska, t.d. hafa hin norðurlöndin veri-ð að er það undanfarin ár. Þjóðir sem eru með gegnumstreymiskerfi í gegnum skattakerfið eru að átta sig á því að það gengur ekki upp því á næstu árum mun skattgreiðendur fækka umtalsvert í hlutfalli við þá sem þiggja ellilífeyri. Þar má t.d. benda á erfiðleika suður Evrópuríkjanna sem eru í fréttum á hverjum degi.

M. bestu kveðjum úr Grafarvoginum, ef svo færi að ég færi í framboð, eins og þú ert að leggja til, þá treysti ég vitanlega á þitt atkvæði. En þó þér komi það svo sem ekki mikið við þá hef ég ekki lagt upp nein sérstök plön um að skipta um starf á næstunni.

Trausti Þórðarson sagði...

Ég held að þú ættir fullt erindi á Alþingi þótt ég geti ekki lofað þér mínum stuðningi vegna þess hvað við höfum ólíkar skoðanir á skylduaðild að lífeyrissjóðum.
Klókir stjórnmálamenn eiga til að svara einhverju öðru en þeir eru spurðir um.
Ég spurði um hverjir væru að draga okkur upp úr skítnum.
Einyrkjum í atvinnurekstri er vorkunn að koma sér undan að greiða skatta sem eru notaðir til að greiða niður skuldir samkeppnisaðila og hvort sem þú setur upp einfalt eða flókið reikningsdæmi er niðurstaðan sú að við borgum meira í lífeyrissjóðinn en við fáum til baka.
kv. Trausti Þórðarson.

Guðmundur sagði...

Dæmið sýnir hið gagnstæða, svo það er nú harla mótsagnarkennd niðurstaða.

Ef lífeyriskerfið verður lagt niður þarf að hækka tekjuskatt um 12%.

Lífeyriskerfið var það eina sem kom standandi út úr kreppunni á meðan allar aðrar fjármálastofnanir fóru lóðbeint á hausinn.

Lífeyriskerfið er bjarghringur hagkerfisins, því Ísland fær ekki erlenda lán og þarf reyndar vegna þess sparnaðar sem fer fram í gegnum kerfið ekki á eins miklu erlendu lánsfjármagni að halda.

Þeir sem standa með eðlilegri uppbyggingu og gegn neðanjarðarhagkerfi eru að draga okkur upp úr skítnum, það kemur glögglega fram í texta pistilsins

Takk annars fyrir innlitið á síðuna

GG

Trausti Þórðarson sagði...

Lífeyriskerfið á ekki að vera bjarghringur hagkerfisins.
Hagkerfinu er hundsama um afkomu lífeyrisþega.
Lífeyriskerfið í sinni núverandi mynd er eins og önnur fjármálafyrirtæki og hefur of mikil völd í þjóðfélaginu.
Launamenn eru og munu alltaf vera í minnihluta í stjórn lífeyrissjóða.

Guðmundur sagði...

Öll hagkerfi þurfa taustan grunn. Uppsöfnunarkerfi getur ekki orðið er risvaxin grunnur undir hagkerfinu, stærð þess verður alltaf um ein og hálf landsframleiðsla. Það verður alltaf mikilvæg stoð í fjármögnun atvinnulífsins. Þannig er það hér og þannig er það t.d. í kringum uppsöfnunarlífeyrissjóð Norðmanna, olíusjóðinn.

Í stjórnum sjóðanna þurfa ætíð að vera einstaklingar sem eru sjálfir sjóðsfélagar, með staðgóða þekkingu á hvernig kerfið virkar þannig að þeir geti haft virkt eftirlit með því starfi sem fer fram í sjóðnum.

Það er og verður alltaf erfitt að halda tækifærissinnuðum stjórnmálamönnum frá sjóðunum.

Í þeim sjóð sem ég er í er gerð krafa um að allir stjórnamrenn séu sjóðsfélagar, vitanlega eru sumir atvinnurekendur sjóðsfélagar.

Og eru alltaf einhverjir sem víkja sér undan því að vera þátttakendur, en það eru aftur á móti undantekningalaust þeir sem eru sífellt með allskonar fullyrðingar um kerfið og kröfur til samfélagsins, sem þeir vilja svo að aðrir standi undir.

Alltaf eru þessar fullyrðingar reistar af miklu þekkingarleysi, og ekki síður eru þessir einstaklingar að leita sér afsökunar að vera Free riders á kostnað annarra.