Undanfarna daga hafa birst fréttir um að opinberu lífeyrissjóðirnir eigi við vanda að etja, reyndar segja fréttamenn oft einungis lífeyrissjóðirnir. Allir sem þekkja til lífeyrissjóðanna vita að það er himinn og haf milli innbyrðisstöðu lífeyrissjóðanna á mörgum sviðum. Þetta er ekki ný frétt, var t.d. eitt af stærstu málum síðustu kjarasamninga. Þar sem bent var á að ef ekki yrði tekið á þessum vanda myndi hann á skömmum tíma verða óviðráðanlegur.
Alþingi setti á sínum tíma prýðileg lög sem um sjálfbærni lífeyrissjóða á almennum markaði, en stjórnmálamenn gættu þess að halda sínum sjóðum utan við þá kröfu og sækja það sem upp á vantar í sveitarsjóði og ríkissjóð. Ég ætla ekki að rifja upp þá sjálftöku sem sett var upp í hinum svokölluðu eftirlaunalögum og hversu mikil átök það tók til að fá stjórnmálamenn til þess að horfast í augu við hvað þeir voru að gera með setningu. Það hefur ekki verið leiðrétt nema að hluta til.
Að venju hafa komið fram einstaklingar sem lítið þekkja til lífeyriskerfisins, með allskonar skýringar og töfralausnir og fréttamenn keppast við að taka viðtöl við þá og forðast að ræða við einstaklinga frá lífeyrissjóðunum sjálfum.
Því er haldið fram að lífeyrissjóðirnir séu með 3,5% ávöxtunarkröfu og þar sé að finna bölvaldinn. Árangurslaust er búið að benda á að þetta er viðmiðunartala sem er nýtt í árlegum tryggingafræðilegum samanburð á innistæðum og eðlilegri langtímaávöxtun borið saman við skuldbindingar lífeyrisjóðanna.
Þetta viðmið var sett af Alþingi í lögum um sjálfbærni lífeyrissjóða, reiknitala til þess að koma í veg fyrir að einni kynslóð sé ekki gert að standa undir lífeyriskostnaði annarrar. Í Bandaríkjunum er þessi tala miðuð við 4,5% raunvexti og búa þeir þó allverulega stöðugri gjaldmiðil en íslensku krónuna!
Ef innistæður standa ekki undir skuldbindingum verður að samkvæmt fyrrnefndum lögum að velja milli þriggja hluta :
a) Breyta starfsreglum viðkomandi sjóðs og skerða réttindi sjóðsfélaga, eins og t.d. skerða makalífeyri eða réttindastuðul eða hækka lífeyrisaldur.
b) lækka lífeyri og örorkubætur
c) hækka iðgjöld.
Ef þetta er ekki gert þá er lífeyrissjóðurinn ekki sjálfbær. Hér eins og svo oft áður víkja íslenskir stjórnmálamenn, og þeir sem vilja tryggja forréttindi sín, sér undan því að horfast í augu við vanda sem snýr að þeim sjálfum. Koma sér hjá því að skerða réttindi í sínum sjóðum eins og þeir hinir sömu gera gagnvart almennu sjóðunum. Skrifa frekar árlega upp á skuldaviðurkenningu gagnvart sínum lífeyrissjóð.
Í dag ávinna launamenn í almennum lífeyrissjóðum sér árlega lífeyrisrétt sem nemur frá 1.2% til 1,47%. Fyrir sama iðgjald ávinna ríkisstarfsmenn sem fá að vera í opinberu sjóðunum sér lífeyrisrétt sem nemur um 1,9%, þeir eru með allt að 50% hærri réttindi en sjóðsfélagar í almennu lífeyrissjóðanna hafa, þessi hluti er ekki tekinn í gegnum iðgjald. Réttindastuðull þingmanna er í dag 2,4% af launum, já lesandi góður 100% betri.
Í sjóðum opinberra starfsmanna hefur safnast upp verulegur halli. Í nýlegu yfirliti kemur fram að skuldbindingar nokkurra af sveitarfélagalífeyrissjóðnum séu ríflega 80% umfram skuldbindingar og það vanti allt að 600 milljarða inn í opinberu sjóðina. Halli B-deildarinnar hefur vaxið hratt á liðnum árum vegna hinnar s.k. eftirmannsreglur og viðmiðunar við dagvinnulaun opinberra starfsmanna í stað vísitölu neysluverðs.
Iðgjöld launamanna og launagreiðenda til almennu lífeyrissjóða eru samtals 12% af heildarlaunum á almennum vinnumarkaði, 15,5% hjá ríkinu og 16,0% hjá sveitarfélögunum. Nú liggur fyrir að ekki verði undan því vikist að annað hvort verði að skerða réttindi í opinberu sjóðunum eða hækka iðgjaldið í 19%, það mun ekki greiða niður 600 milljarða skuldina, heldur koma í veg fyrir að hún vaxi enn meir. Allt þetta kallar á enn hærri skatta og meiri niðurskurð hjá hinu opinbera.
Verði ekkert að gert mun þessi skuldbinding vaxa með sífellt meiri hraða og lenda augljóslega á skattgreiðendum framtíðarinnar. Hér er verið hafna sjálfbærni. Okkur sjóðsfélögum í almennu sjóðunum er hins vegar gert í gildani lögum að axla ábyrg á okkar sjóðum með skerðingu lífeyrisréttinda, í þessu er fólgin gríðarleg og ósanngjörn mismunum.
Við undirritun og afgreiðslu síðustu kjarasamninga var hluti af samningum við hið opinbera að tryggja jöfnun á þessu á komandi árum, upp á við, ekki að annar hópurinn fengi sífellt betri réttindi og það ríkistryggð. Ef haldið yrði áfram á þessari braut myndi það leiða til hruns almennu lífeyrissjóðanna, á meðan valdastéttin væri með sín réttindi ríkistryggð.
Hér talar hæst fólk sem hefur sín lífeyrismál á hreinu og vísar allt að þriðjung þess kostnaðar til barna sinna, eða fólk sem hefur vikið sér undna því að greiða til lífeyriskerfisins. Til viðbótar vill þetta fólk setja á sérstakan skattstofn á almennu lífeyrissjóðina til þess að geta náð út enn meira fé til þess að standa undir eyðslu dagsins í dag. Auk þess vilja þessir aðilar fella niður viðmiðunartöluna svo það geti eytt sparifé launamanna á almennum vinnumarkaði í dag og sent reikninginn til barna sinna.
Hér er stefnt til þess tíma þegar ákveðin hluti þjóðarinnar bjó við tryggan ellilífeyri, á meðan stór hluti þjóðarinnar fékk lítinn sem engan lífeyri, en var gert að standa þar til viðbótar undir rándýru lífeyriskerfi valdastéttarinnar í gegnum skattkerfið. Stöðuna eins og hún var fyrir 1970, og einnig má gjarnan minna á umræðurnar um eftirlaunalögin.
3 ummæli:
Mjög athyglisvert.
Kærar þakkir.
Hér sannast enn og aftur að spilltir og óhæfir stjórnmálamenn eru ógæfa íslensku þjóðarinnar.
Flottur Guðmundur!
Þjóðaróvinur Íslands,
það er stjórnmálastéttin.
Ég vil þakka fyrir þitt framlag til þjóðfélagsumræðunnar.
Með kveðju:
BJ, fyrrum lagersveinn í álverinu.
Skrifa ummæli