þriðjudagur, 6. desember 2011

Ráðist á þá sem minnst mega sín

Hún er æði oft einkennileg umræðan um lífeyrisréttindi og lífeyrissjóðina. Það virðist vera algengt meðal margra stjórnmálamanna og álitsgjafa að tala um þetta eins og tvo aðskilda hluti. Talað er um lífeyrissjóðina eins og einhvern sjóð sem stjórnmálamenn geti ráðstafað, án þess að það hafi nein áhrif, algengt viðkvæði er að það séu svo miklir fjármunir í lífeyrissjóðunum.

Þeir séu að græða svo mikið, þar er oftast ruglað saman uppsöfnunarkerfi og gegnumstreymiskerfi. Rætt er um miklar eignir lífeyrissjóðanna, þeir eiga í raun ekkert, en þar er sparifé sjóðsfélaga viðkomandi sjóðs. Þegar rætt er um að ráðstafa fjármagni úr lífeyrissjóðum, þá er allt eins hægt að tala um að ráðstafa fjármagni af inneignarreikningum í bönkunum.

Þeir fjármunir sem eru í lífeyrissjóðum er sparifé þeirra sem hafa valið að spara og varðveita sitt fé. Nokkrir að hafa ekki gert það, og fjölmargir greiða einungis hluta af launum sínum. Tillögur stjórnmálamanna og nokkurra álitsgjafa, ganga út á þeir sleppi sem hafa ekki tekið þátt í samtryggingakerfinu, heldur safnað fé sínu á einkareikninga, undir koddann, í fasteignir og vilja fá að fljóta frítt með. Hér er lagt upp með athafnir sem brjóta jafnræði og ef af verður kallar á dómsmál.

Tillögur stjórnmálamanna um að skattleggja sparifé launamanna í lífeyrissjóðunum mun koma mjög misjafnlega niður á fólki. Þetta er skattur sem mun leggjast þyngst á láglaunafólk á almennum vinnumarkaði, núverandi örorkubótaþega og lífeyrisþegar sem koma úr þessum hópi. Á meðan margir aðrir þar á meðal hálaunahópar eins og ráðherrar og stjórnmálamenn sleppa alfarið við þennan skatt.

Lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna eru mun ríkulegri en á almenna vinnumarkaðinum og algerlega varin fyrir sveiflum á bæði fjármálamarkaði og tryggingafræðilegri samsetningu á meðan almennu lífeyrissjóðirnir verða að mæta þessum sveiflum með breytingum á réttindum eða hækkun á iðgjöldum.

Í kjarasamningunum frá því í maí var jöfnun lífeyrisréttinda eitt af meginviðfangsefnum. Í samningunum náðist samkomulag um markviss skref í því að jafna lífeyrisréttindi landsmanna.

Í fjárlagafrumvarpinu og tengdum bandormi vegna tekjuhliðar fjárlaga hefur ríkisstjórnin lagt það til að lagðar verði beinar álögur á lífeyrissjóðina. Þessar álögur munu skerða lífeyrisréttindi á almennum vinnumarkaði og auka kostnað ríkissjóðs og sveitarfélaga vegna ábyrgðar þeirra á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna sem skattgreiðendur verða síðan að standa skil á. Það er að sumir verða að búa við skert réttindi, auk þess að vera sendur hærri skattareikningur.

Ríkisstjórnin ætlar setja sérstakan 10,5% launaskatt á fjármálafyrirtæki einnig ná til lífeyrissjóðanna, auk þess að láta lífeyrissjóðina greiða skatt til umboðsmanns skuldara um 75 millj.kr. álögur á ári. Þó þetta sé nauðsynlegt er vandséð að leita á náðir þeirra sem eru með lökustu lífeyrisréttindin en veita ríkisábyrgð gagnvart þeim sem búa við ríkustu réttindin.

Auk þessa á að leggja á lífeyrissjóðina sérstakan eignarskattur upp á 2,8 miljarða króna næstu tvö árin til að fjármagna sérstakar vaxtabætur vegna fjármálahrunsins.

Allar þessar aðgerðir, þ.e. skerðing á hækkun almannatrygginga og sérstakar álögur á lífeyrissjóðanna, munu leiða til þess að lífeyrisréttindi launafólks á almennum vinnumarkaði skerðast verulega á næstu misserum. Á sama tíma munu lífeyrisréttindi þeirra opinberu starfsmanna, sem aðild eiga að LSR eða lífeyrissjóðum sveitarfélaganna, standa óbreytt og aukast í samræmi við umsamdar launahækkanir.

Hér eru stjórnmálamenn að koma í veg fyrir að eitt af höfuðmarkmiðum síðustu kjarasamninga um að jafna lífeyrisréttindi á vinnumarkaði náist ekki. Bilið milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins mun aukast verulega.

Við erum öll sammála um að taka á skuldavanda heimilanna, en að láta örorku- og lífeyrisþega á almennum vinnumarkaði vera eina um að borga þennan kostnað er óásættanlegt.

Viðbót vegna innsendra aths. og pósta :

Það tala margir um að íslensk umræða nærist einvörðungu á innistæðulausum klisjum og fullyrðingum. Það sé vísvitandi gert af þeim sem vilja viðhalda núverandi kerfi óbreyttu til að tryggja sína sérhagsmuni og óbreyttan gjaldmiðil svo hagt sé að halda í gengisfellingar, háa vexti og verðtryggingu.

Það virðist vera nákvæmlega sama hversu oft þessar klisjur eru leiðréttar, sömu menn halda áfram að tönglast á þeim og hamast við að birta þær eins víða og þeir geta. Annaðhvort eru þessir einstaklingar ákaflega illa að sér, eða þeir eru vísvitandi að ganga erinda þeirrar valdastéttar sem hér hefur verið við völd.

Í aths.kerfi þessarar síðu koma þessi sjónarmið oft glögglega fram. Ég er þeirrar skoðunar að menn séu yfirleitt ekki svona illa að sér og finnst líklegra að ástæðan sé að verið sé að ganga erinda þeirra sem hagnast á því að viðhalda þessu kerfi óbreyttu.

En svo viðhorfum og rökum sé haldið til staðar, þá bið ég menn um að renna í gegnum pistla á þessari síðu og bendi á sérstaklega þessa hér að neðan sem nýlega hafa verið birtir :

Hér um vaxtaviðmið er ekki ávöxtunarkrafa

og

Hér um uppbyggingu íslenska lífeyriskerfisins

og

Hér um verðtrygginguna

13 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"Þeir fjármunir sem eru í lífeyrissjóðum er sparifé þeirra sem hafa valið að spara og varðveita sitt fé." Valið? Hvernig færðu það út? Er stærstur hluti þeirra sem inni í lífeyrissjóðunum liggur ekki tilkominn vegna laga þar um og þess vegna óumflýjanlegur fyrir hinn venjulega launamann?

Guðmundur sagði...

Lestu alla setninguna. "Þeir fjármunir sem eru í lífeyrissjóðum er sparifé þeirra sem hafa valið að spara og varðveita sitt fé. Nokkrir að hafa ekki gert það, og fjölmargir greiða einungis hluta af launum sínum."

Það er vitað að margir þeirra sem velja að reka sjálfa sig sem ehf greiða lítið sem ekkert til lífeyriskerfisins, alla vega ekki af heildarlaunum.

Það er síðan þessir hinir sömu sem við sjáum á ræðustólum á Austurvelli, eða í spjallþáttum þar sem gerðar eru mestar kröfur til sameignarkerfisins.

Þeir hinir sömu eru "góðkunningjar starfsmanna stéttarfélaganna" hafa svikið allt sem hægt er að svíkja í launatengdum gjöldum og réttindum fólks.

Reynar eru þar í hópi margir af kunnum álitsgjöfum, sem geta vart komið frá sér orði án þess að hnýta í samtök launamanna og stofnanir tengdar þeim og velja sér viðmælendur til þess að staðfesta skoðun sína. Svona til þess að réttlæta stöðu sína.

Nafnlaus sagði...

Stjórnmálamennirnir virðast vera hættir að reyna að fela hvað þeir iða í skinninu eftir að komast með lúkurnar í sjóðina.
Þórhallur

Nafnlaus sagði...

lífeyrissjóðir eru með of háa ávöxtunarkröfu, vextina af þessum sparnað verður eitthvað að lækka og lækka lánin hjá okkur verðtryggðu þrælunum sem því nemur.

Nafnlaus sagði...

Mikið væri gott að hafa val.
Taka þátt í samfélags vitleysunni eða ekki. Það hefur allt verið étið af manni í þágu samfélags hinna ríku. Verðbólgan skal vera 2.5% eða meira svo ávöxtun innistæða þeirra rýrni ekki. Samfélags vitleysan er þvílíka á þessu skeri, af aðeins væri hægt að vernda manns sparnað svo maður þyrfti ekki kvíða ellinni þá væri maður sáttur hér, en allt skal tekið til að borga óráðssíu stjórnenda landsins.
mbk.

Guðmundur sagði...

Það tala margir um að íslensk umræða nærist einvörðungu á innistæðulausum klisjum og fullyrðingum. Það sé vísvitandi gert af þeim sem vilja viðhalæda núverandi kerfi, með óbreyttan gjaldmiðil svo hagt sé að halda í gengisfellingar, háa vexti og verðtryggingu. En svo er allt öðrum kennt um.

Það virðist vera nákvæmlega sama hversu oft þessar klisjur eru leiðréttar, sömu menn halda áfrram að tönglast á þeim og hamst við að birta þær eins víða og þeir geta.

Annað eru þessir einstaklingar svona illa að sér eða þeir eru vísvitandi að ganga erinda þeirrar valdastéttar sem hér hefur verið vilð völd.

Í aths. hér að ofan kemur þessi fáviska mjög glögglega fram, eða þá sem mér finnst líklegra að sé ástæðan hér er verið að ganga erinda þeirra sem hagnast á því að viðhalda þessu kerfi óbreyttu.

http://gudmundur.eyjan.is/2011/11/vertrygging-og-verkalysforystan.html

http://gudmundur.eyjan.is/2011/11/islenska-lifeyriskerfi.html

http://gudmundur.eyjan.is/2011/10/vaxtavimi-lifeyrissjoa.html

Nafnlaus sagði...

Já Guðmundur þetta er er hárrétt. Þessir einstaklingar eru oftast kallaðir skólpveitur landsins.

Þær eru nú á fullu að krefjast þess að eftirlitsstofnanir verði lagðar niður eða alla vega gerðar veikburða.

Það eru þessar skólpveitur sem hafa haldið því ákaft að landsmönnum að það sé við starfsfólk stéttarfélaganna að sakast um að landið hafi farið á kaf. Starfsfólk stéttarfélaganna hafi nýtt sér fjármagn lífeyrissjóðanna til þess að keyra landið fram af brúninni.

Þessu er haldið blákalt fram þó allir viti að lífeyrissjóðirnir komu standandi út úr hruninu á meðan allt sem bankasérfræðingarnir og þáverandi valdhafar fór til andskotans.
Krummi

Nafnlaus sagði...

Forsvarsmenn Glitnis voru hnepptir í gæsluvarðhald á dögunum, það snerti illilega við kvótagreifunum. Fyrrv. stjórnarformaður Samherja rauk fram sem núverandi þingmaður á hæstvirtu Alþingi og krafðist þess að þetta yrði stöðvað og tennurnar dregnar úr rannsóknarstofnum. Það eru kvótagreifarnir og valdastéttin sem berst nú af öllu afli gegn því að réttbornir sökudólgar verði dregnir fram á sjónarsviðið. Það eru þessir aðilar sem hafa stjórnað umræðunni hingað til og ætlað að gera það áfram. Það eru þeir sem stjórna skólpveitunum, með nokkra álitsgjafa og spjallþáttastjórnendur í broddi fylkingar.

Unknown sagði...

Sæll Guðmundur,

Getur þú útskýrt fyrir mér hví Ásmundur Stefánsson, sem m.a. hefur unnið skýrslur fyrir Landssamtök lífeyrissjóða, kemst svo að orði strax árið 1994 að "almennu lífeyrissjóðirnir þurfa 3,5% raunvexti" eigi þeir að geta staðið við skuldbindingar sínar?

Miðað við þessi orð get ég ekki séð með nokkru móti að umrædd prósentutala sé "vaxtaviðmið" en ekki "ávöxtunarkrafa".

Annað mál. Mér þætti afskaplega vænt um ef þú, í einhverjum pósti í framtíðinni, gætir svarað eftirfarandi spurningum. Sjá hér: http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Olaf_MArgeirsson/nokkrar-stuttar-spurningar

Umræða um grundvallarspurningar sem þessar hlýtur að vera af hinu góða svo að sem flestir skilji viðfangsefnið.

Bestu þakkir,
Ólafur Margeirsson

P.S. Skýrsla Ásmundar má finna hér:
http://www.ll.is/files/bbffibdhjj/Asmundur_Stefansson.pdf

Nafnlaus sagði...

Rekstrarkostnaður FME er ekki greiddur af almennu skattfé. Rekstrarfé kemur í gegnum sérskatta sem lagðir eru á eftirlitsskylda aðila, fjármálafyrirtækin sjálf, eins og fyrrv. stjórnarformaður Samherja hélt fram í Alþingi.

Sífellt kemur betur fram hversu illa að sér margir þingmenn eru um efnahagslífið og skattkerfið. Það rennur kaldur hrollur niður bakið á manni þegar hlustað er á málflutning helstu málsvara þeirra sem komu Íslandi í þrot. Eða með öðrum orðum færðu þúsundir milljarða frá íslenskum almenning í eigin vasa.

Það eru þessir aðilar sem pumpa áfram skólpveiturnar og þá sem eru á spenna þeirra og koma fram í spjallþáttum og skrifa í aths. dálkana.

Nafnlaus sagði...

Nú þegar fer að glitta í fyrstu kæru gagnvart þeim sem urðu þess valdandi að íslenska bankakerfið féll saman haustið 2008 fer um tiltekna aðila. Ábyrgð hrunfólksins er mikil gagnvart heimilum og fyrirtækjum í landinu og samfélaginu öllu sem mun þurfa mörg ár til þess að komast upp úr þeim dal. Eignatilfærslan mun ekki skila sér nema að litlu leiti. En moldrokinu er þyrlað upp og reyksprengjum varpað í gríð og erg til þess að villa um fyrir fólki.

Guðmundur sagði...

Svör við spurningum sem fram hafa komið eru í pistlum mínum sé ég hef vísað til og svo má vísa í fjölmargar aðrar mjög vel fram settar greinar eins og t.d. þessa grein Hrafns og ég hef nú nýlega hlustað á erindi Ásmundar Stefánss. um nákvæmlega sama efni.

Það er fullkomlega ástæðulaust að vera henda upp einhverjum reykspsrengjum og reyna að koma á einhverri útúrsnúininga keppni. Ég ætla alla vega ekki að vera þátttakandi í henni.
Kv GG

http://www.visir.is/lifeyriskerfi-a-traustum-grunni!/article/2011712029969?fb_ref=under&fb_source=profile_oneline

Nafnlaus sagði...

Ekki finnst mér það vera útúrsnúninga keppni það sem Ólafur Margeirsson er að velta upp varðandi lífeyrissjóðina. Þetta virðist vera vel menntaður maður með gagnrýnar vangaveltur um okkar lífeyriskerfi. Það hefur ekki veitt af að fleiri velti fyrir sér uppbyggingu okkar samfélags og því ætti lífeyriskerfið að vera undanskilið þeirri umræðu.
Mér hefur fundist hálf sorglegt hvað forsvarsmenn lífeyriskerfisins hafa verið illfáanlegir til að taka þá umræðu hvort betur megi fara innan kerfisins. Auðvitað vilja allir launamenn varðveita sem best það sem hefur verið byggt upp og margir vilja greinilega ásælast, því ekki að taka þá umræðu í botn hvort eitthvað megi betur fara.
Það er ekki mjög málefnalegt að tala bara um útúrsnúningakeppni.
Það hlýtur að vera kurteisileg og eðlileg krafa að lífeyrissjóðirnir svari þegar settar eru fram trúverðugar efasemdir um eitthvað sem kemur að þeirra heildar struktúr. Hvernig eigum við venjulegir launamenn að hafa forsendur til að fara að setja okkur inn í hinn ýtrustu hagfræðilegu og lagaleguefni sem kemur að þeirra starfsemi.
Okkur er bara ætlað að borga og borga inn í sjóðina sama hvaða efasemdir koma fram um þeirra starfsemi.
Þakka annars góða pistla.
Kveðja Sævar S