mánudagur, 12. desember 2011

Skattlagning án fordæmis

Ég tók eftir því í umræðunni um helgina að þess var gætt vendilega að minnast ekki á þá staðreynd að eignaskatturinn sem lífeyrissjóðirnir eiga að greiða er á brúttóeign en ekki nettóeign eins og aðrir eignaskattar. Skattlagningin er án fordæmis hvað þetta varðar, auk eignaréttar, jafnræðisreglu og þeirra atriða ég hef bent á í fyrri pistlum um þetta mál.

Það er villandi og afvegaleiðandi orðalag í frumvarpinu þegar vísað er í „hreina eign“ lífeyrissjóða. Hrein eign lífeyrissjóða er orð sem má finna í ársreikningum lífeyrissjóða sem samdir eru skv. sérstökum reglum þar um. Þar er ekki tekið tillit til þess að þessi „hreina eign“ stendur á móti skuldbindingum.

Sem dæmi þá er auðlegðarskattur lagður á nettóeign framteljanda, þ.e. allar eignir að frádregnum öllum skuldum. Af fyrstu 75.000.000 kr. eign einhleypings og fyrstu 100.000.000 kr. eign hjóna og samskattaðra er enginn skattur, en 1,5% af stofni umfram það.

Hvað lífeyrissjóðina varðar þá er ekki tekið tillit til skuldbindinga lífeyrissjóða sem í flest öllum tilfellum eru hærri en eignir. Í þeim skilningi er þetta því ekki „hrein eign“ sem myndar skattstofninn. Með þessu er verið að ganga á sérgreinda varasjóðir sjóðfélaga sem duga ekki fyrir skuldbindingum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvernig væri að stjórnmálamenn segi einfaldlega og lýsi þessum skatti með réttum hætti:

Það er verið að þjóðnýta almennu lífeyrissjóðina.

Ef menn vilja fara þessa leið þá á hið sama að gilda fyrir alla sjóði. Það er ekki unnt að skattleggja sérstaklega almennu sjóðina þar sem þeir eigi brúttó eign en keyra síðan opinbera kerfi sem einskonar gegnumstreymiskerfi. Með því að gera slíkt er alltaf tryggt að hið opinbera þurfi ekki að leggja sitt af mörkum en enn og aftur sótt að launafólki á almennum markaði.

Kveðja,
Björn Kristinsson