miðvikudagur, 28. desember 2011

Fé án hirðis - með viðbót

Það er forvitnilegt að hlusta á þingmenn tala þessa dagana um að þeir ætli sér að færa lífeyrissjóðina til sjóðsfélaga. Fagur jólaboðskapur. Fé án hirðis og stjórnmálamenn telja sig vera bjargvættina. Eftir Hrun stendur ekki einn einasti sjóður og fjármálastofnum sem stjórnmálamenn hafa komið nálægt, allt í rúst. Sviðin jörð.

Einu fjármálastofnanirnar sem komu standandi út úr Hruninu voru almennu lífeyrissjóðirnir og þar vilja stjórnmálamenn gera breytingar.

Ég er ekki segja að ekki þurfi að gera breytingar, það er þörf á breytingum og við höfum barist fyrir þeim.

Velti fyrir mér hvort tillögur þeirra hafi verið bornar undir sjóðsfélaga. Hafa stjórnmálamenn undir höndum samþykktir frá sjóðsfélagafundum? Eru þeir að vinna úr könnunum á því hvaða breytingar sjóðsfélagar vilja?

Á fjölmörgum fundum sem ég hef sótt undanfarin ár, þar sem mætt hafa um 500 sjóðsfélagar árlega, hef ég aldrei orðið var við neitt í þá veru að stjórnmálamenn hafi verið að forvitnast um hvað sjóðsfélagar vilji.

Ég hef starfað á skrifstofu undanfarna tvo áratugi þar sem um 100 – 150 sjóðsfélagar hafa samband daglega, ég hef ekki orðið var neitt í þessa veru þar heldur.

Hef starfað fyrir og með sjóðsfélögum í þeim sjóð sem ég er í og þekki prýðilega hvaða breytingar sjóðsfélagar í þeim lífeyrissjóð sem ég er í vilja sjá, og það hefur verið barist fyrir þeim breytingum á undanförnum árum. Sumt hefur náðst fram, annað ekki, þeirri baráttu er ekki lokið.

Ég hef t.d. ekki orðið var við að stjórnmálamenn hafi kynnt sér þær tillögur. Allavega bera tillögur þeirra ekki þess merki.

Það er eftirtektarvert og umhugsunarefni hvers vegna lífeyrissjóðir þingmanna og opinberra starfsmanna eru sérstaklega undanskildir í tillögum stjórnmálamanna. Af hverju? Hafa sjóðsfélagar í þeim lífeyrissjóðum sem þingmenn eru í beðið sérstaklega um að ekki verið framkvæmdar neinar breytingar þar?

Allir vita að það eru verst reknu lífeyrissjóðir landsins. Allir vita hvaða risavandamál vofa yfir þeim sjóðum, vandamál sem munu lenda á börnum þessa lands í dag þegar þau verða skattgreiðendur. Vandamál sem kallar á um 4 - 6% tekjuskattshækkun bara til þess eins að standa undir sértækum réttindum sem eru í lífeyrissjóð þingmanna og vina þeirra umfram aðra lífeyrissjóði í landinu.

Er tilgangur þessa boðskapar til þess að beina sjónum almennings frá þeim risavanda sem þingmenn hafa búið til í eigin lífeyriskerfi og hvernig þeir keyrðu hér allt í kaf?

Tek það fram aftur, að það eru ýmiskonar tillögur um breytingar sem ég hef séð á fjölmennum fundum sjóðsfélaga sem þarf að ná fram. Þær eru ekki í tillögum þingmanna.

Tillögur þeirra eru hroðvirknislega unnar og upplýsa okkur vel um skilningsleysi höfunda á því verkefni sem þeir telja sig vera að takast á við.

Enda segir staða þeirra eigin lífeyrissjóða allt sem segja þarf í þessu efni.

Vegna fyrirspurna ætla ég að bæta við pistilinn :
Það hefur komið mjög víða fram þar á meðal í allmörgum pistlum hér á þessari síðu, að það töpuðust um 12 þús. milljarðar hér á landi við Hrun. Langstærsti hluti þeirra peninga kom frá erlendum bönkum og svo erlendum og innlendum sparifjáreigendum. T.d. hefur komið fram að þýskir bankar hafi tapað um 8 þús. milljörðum við Hrunið á Íslandi. Heildareignir lífeyrissjóðanna við Hrun voru um vel yfir 1 þús. milljarðar.

Lækkun á eignum lífeyrissjóða vegna bankahrunsins kom fyrst og fremst fram í því að hlutabréf og skuldabréf bankanna misstu nær allt verðgildi sitt. Eignir lífeyrissjóðanna lækkuðu um tæpa 250 milljarða við Hrun, sem skiptist um það bil þannig : Eign lífeyrissjóða á skuldabréfum innlánsstofnana lækkaði um 80 milljarða. Skuldabréf fyrirtækja lækkuðu um 30 milljarða. Falli bankanna hafði gríðarleg áhrif á innlendan hlutabréfamarkað, hlutabréf lífeyrissjóðanna lækkuðu um 90 milljarða og eignir í innlendum verðbréfasjóðum um 50 milljarða.

Sumir halda því fram að efnhagsbólan hafi verið fjármögnuð af lífeyrissjóðunum og bera sakir á starfsmenn stéttarfélaganna. Það er svo augljóst hversu fjarri öllu sanni slíkur máflutningur er. Enda er hann örugglega ættaður frá aðilum sem vilja beina sjónum fólks frá því sem raunverulega gerðist.

Þrátt fyrir þau áföll sem á hafa dunið undanfarin misseri er ljóst að íslenska lífeyrissjóðakerfið er ennþá stórt í alþjóðlegum samanburði. Hrein eign lífeyrissjóða sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF), var árið 1981 11,6 %. Hæst náði hlutfallið árið 2007 og var þá 122% af VLF. Í lok árs 2009 stóð hlutfallið í 112,4% sem þykir hátt í alþjóðlegum samanburði. Samkvæmt úttekt OECD á eignum lífeyrissjóða í hlutfalli við verga landsframleiðslu var Ísland í öðru sæti af OECD ríkjum hvað varðar stærð lífeyrissjóðakerfi.

Inn í skerðingar lífeyrissjóða hefur einnig haft mikil áhrif mikil aukning á örorkubótum. T.d. má benda á að um síðustu aldamót var það sem greitt var úr lífeyrissjóðum jafnhátt því sem greitt var úr Tryggingarstofnun. Í dag er þetta þannig að útgjöld lífeyrissjóða eru um 80 milljarðar á meðan útgjöld Tryggingarstofnunar eru 50 milljarðar.

Allir sem fylgjast með lífeyrismálum vita að mikil fjölgun öryrkja hefur aukið útgreiðslur úr sumum lífeyrisjóðunum. Lífaldur hefur lengst, þá sérstaklega karla. Mismunandi mikið tap og mismikill kostnaðarauki vegna fjölgunar bótaþega,auk þess að lenging lífaldurs hefur leitt til þess að sumir sjóðir hafa þurft að skerða meir en aðrir.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvað er brýnast að gera að þínu mati? Hvað þjónar best hagsmunum lífeyrisþega. Ég sá í grein um daginn að í Englandi höfðu menn áhyggjur vegna þess að umsýslugjald á peningum lífeyrissjóða væri að taka of stóran toll af sjóðunum.

Nafnlaus sagði...

Ég tel einsýnt, að sjóðsfélagar eigi að ráða í beinni kosningu, hverjir fari með stjórn þeirra lífeyrissjóða. Ég tel einnig einboðið, að sama gildi um lífeyrissjóðisjóði BSRB og annarra opinberra líferyrissjóða.

Ég hygg, að betur væri á komið að flestu leyti, hefi meira verið hlustað á hinn almenna kosningabæra mann. Svissarar þora, því ættum við ekki að þora líka. Svissarar búa við stöðugt og varkárt kerfi sem við ættum að flykkjast til að taka upp en afleggja það sem komið hefur inn með óværunni af EES ,,Fjórfrelsinu" það er þjóðarböl.

Miðbæjaríhaldið
treystir vitsmunum hins almenna borgar í kosningum.

Leifur A. Benediktsson sagði...

Fé án hirðis,

Þessi skírskotun meistari Guðmundur segir allt sem segja þarf.

Frummælandinn Pétur Hirðir Blöndal er hér á glærum ís,með þessu frumvarpi sínu á Alþingi.

Forarvilpurnar eru víti til varnaðar.

Gleðilega jólahátíð og farsælt komandi pistlaár.Og þakkir fyrir flotta pistla þetta árið.

Kveðja úr Grafarvoginum.

Nafnlaus sagði...

Voru einu stofnanirnar sem komu á löppunum út úr hruninu almennu lífeyrissjóðirnir? Hefur þú ekkert gluggað í ársreikninga þeirra?

Voru það ekki einmitt að stórum hluta peningar lífeyrissjóðanna sem t0puðust þegar bankarnir fóru á hausinn? Hverjir sátu í stjórnum þessara stofnana?

Lífeyrissjóðakerfinu þarf að breyta. Það þarf engan snilling að sjá hvernig þetta kerfi getur ekki gengið lengur, það endar með að fólk strækar á að borga í þessa hýt þegar sama fólk sér aldrei fram á að fá peningana sem það leggur fyrir til baka nema í mjög skertu formi.

Guðmundur sagði...

Nafnlaus 22:40
Það hefur komið mjög víða fram þar á meðal í allmörgum pistlum hér á þessari síðu, að það töpuðust um 12 milljarðar hér á landi langstærsti hluti þeira peninga kom frá erlendum bönkum og svo erlendum og innlendum sparifjáreigendum.

Lífeyrisjóðirnir töpuðu misjafnlega mikið en nálægt 20% að jafnaði og hafa reyndar náð hluta af því til baka. Það er að segja að tapið í Hruninu var 12 sinnum meira en heildareignir lífeyrissjóðanna eða heildartapið var nálægt 80 sinnum meira en heildartap lífeyrisjóðanna.

Þessi klisja sem sumir hafa haldið fram að efnahagsbólan hafi verið sköpuð af lífeyrisjóðunum og starfsmönnum stéttarfélaganna er svo víðáttuvitlaus að hún nær engu tali.

Hún er augljóslega ættuð frá einstaklingum sem vilja beina sjónum frá sínum fjárglæfrum og þeim hefur svo sem tekist það ágætlega hingað til að leiða umræðuna ítrekað á villigötur

og þeir eru enn að.

Guðmundur sagði...

Kosning eins og þingmennir9nir eru að tala um samsvarar um fangi sveitarstjórnarkosninga. Kostnaður er um 200 millj. kr.
Menn sem eru kosnir og stjórna af í skjóli fulltrúalýðræðis eru að lýsa því yfir að þeir treysti ekki öðrum til þess að stjórna eftir sama kerfi.

Sömu menn virððast einnig ekki átta sig á því að sjóðsfélagar eru félagsmenn í stéttarfélögum og það voru þeir sem skópu lífeyrissjóðina og hafa barist fyrir þeim í kjarabaráttu sinni. Þetta óttast stjórnmálamenn mest og vilja slíta þennan naflastreng.

Nafnlaus sagði...

Af hverju er verið að skerða lífeyrissjóði um allt að 40% ef tap lífeyrisjsóðanna í hruninu var ekki nema 20%? Hvernig fá menn slíkar tölur til að stemma? Það er bara ekki hægt. Vandamálið er að meðalávöxtun lífeyrissjoðanna síðasta áratuginn hefur ekki verið nema 1,5%. Sú ávöxtun er auðvitað ekki ásættanleg á nokkurn hátt í þjóðfélagi á borð við Ísland, þar sem að jafnaði bjóðast háir vextir s.s. á íbúðamarkaði og í gegnum bankana. Er ekki ástæðan einföld, þeir sem stjórna þessum lífeyrissjóðum eru ekki starfi sínu vaxnir. Þeir eru eins og þjálfarar íþróttaliðs sem situr alltaf í botnsætinu, þrátt fyrir að eigandi félagsins ausi fjármunum í að kaupa leikmenn.

Guðmundur sagði...

Það er áberandi hve sumir eiga erfitt með að sætta sig við að bent sé á að algengar klisjur standist ekki skoðun.

Það er einfaldlega staðreynd að lífeyrissjóðirnir voru ekki í fararbroddi við að skapa Hrunið. Það voru aðrir. Þetta eru sumir búnir að nota mikið og eiga mjög erfitt með að sætta sig við að fyrir liggi að þeir hafa verið að blaðra.

Tap lífeyrissjóðanna byggist í mestu á því að þeir, eins og svo margir aðrir áttu fjármagn í bönkum og sumum þeirra fyrirtækja sem Féflettarnir komust í. Það hefur verið rakið í sjónvarpi og víðar hvernig þetta var gert. Þar hefur einnig komið mjög glögglega fram að langstærsti hluti þess fjármagns sem glataðist kom erlendis frá, mest frá þýskum bönkum. Þetta eru sumir búnir að nota mikið og eiga mjög erfitt með að sætta sig við að fyrir liggi að þeir hafa verið að blaðra.

Eins og fram kemur í textandum var tap lífeyrissjóðanna ákaflega misjafnt. Það er því einkennilegt hvernig aths. ritari leggur út af því og spyr hvers vegna lífeyrisjóðirinir hafa skert um 40%, og alhæfir. Er ekki hægt að lesa venjulegan einfaldan texta án þess að vilja vera snúa útúr.

Allir vsem fylgjast með lífeyrismálum vita vegna þess að það hefur verið áberadi í umfjöllum um lífeyrissjóði að mikil fjölgun öryrkja hefur verið í sumum lífeyrisjóðunum hefur verið undanfarin ár, einnig hefur lífaldur lengst. Mismunandi mikip tap og mismikill kostnaðarauki vegna fjölgunar bótaþega lengingar lífaldurs hefur leitt til þess að sumir sjóðir hafa þurft að skerða meir en aðrir.

En margir gleyma því einnig að nokkrir sjóðir hækkuðu lífeyri töluvert umfram verðlagsvísitöluna árin fram að runi. T.d. er það svo í mínum sjóð að þó búið sé að skerða er sú skerðing minni en hækkunin var fyrir Hrun.

Stjórnendur lífeyrissjóða eru örugglega misjafnir en alhæfa með þeim hætti og gert hefur verið segir meira um þann sem er með svona málflutning en þá sem sem hann segist vera að fjalla um. Ljost er að margir lífeysissjóðann ahafa komist ótrúlega vel í gegnum þessar hamfarir hér á landi

Nafnlaus sagði...

"Lífeyrisjóðirnir töpuðu misjafnlega mikið en nálægt 20% að jafnaði og hafa reyndar náð hluta af því til baka. Það er að segja að tapið í Hruninu var 12 sinnum meira en heildareignir lífeyrissjóðanna eða heildartapið var nálægt 80 sinnum meira en heildartap lífeyrisjóðanna"
Guðmundur getur þú útskýrt þetta nánar, tapið var 12 sinnum meira en heildareignir ég á erfitt með að átta mig á hvað þetta þýðir, þetta virðist vera fáránlega mikil upphæð.

Guðmundur sagði...

Það hefur komið mjög víða fram þar á meðal í allmörgum pistlum hér á þessari síðu, að það töpuðust um 12 þús. milljarðar hér á landi við Hrun. Langstærsti hluti þeirra peninga kom frá erlendum bönkum og svo erlendum og innlendum sparifjáreigendum. T.d. hefur komið fram að þýskir bankar hafi tapað um 8 þús. milljörðum við Hrunið á Íslandi. Heildareignir lífeyrissjóðanna við Hrun voru um vel yfir 1 þús. milljarðar.

Lækkun á eignum lífeyrissjóða vegna bankahrunsins kom fyrst og fremst fram í því að hlutabréf og skuldabréf bankanna misstu nær allt verðgildi sitt. Eignir lífeyrissjóðanna lækkuðu um tæpa 250 milljarða við Hrun, sem skiptist um það bil þannig : Eign lífeyrissjóða á skuldabréfum innlánsstofnana lækkaði um 80 milljarða. Skuldabréf fyrirtækja lækkuðu um 30 milljarða. Falli bankanna hafði gríðarleg áhrif á innlendan hlutabréfamarkað, hlutabréf lífeyrissjóðanna lækkuðu um 90 milljarða og eignir í innlendum verðbréfasjóðum um 50 milljarða.

Þrátt fyrir þau áföll sem á hafa dunið undanfarin misseri er ljóst að íslenska lífeyrissjóðakerfið er ennþá stórt í alþjóðlegum samanburði. Hrein eign lífeyrissjóða sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF), var árið 1981 11,6 %. Hæst náði hlutfallið árið 2007 og var þá 122% af VLF. Í lok árs 2009 stóð hlutfallið í 112,4% sem þykir hátt í alþjóðlegum samanburði. Samkvæmt úttekt OECD á eignum lífeyrissjóða í hlutfalli við verga landsframleiðslu var Ísland í öðru sæti af OECD ríkjum hvað varðar stærð lífeyrissjóðakerfi.

Inn í skerðingar lífeyrissjóða hefur einnig haft mikil áhrif mikil aukning á örorkubótum. T.d. má benda á að um síðustu aldamót var það sem greitt var úr lífeyrissjóðum jafnhátt því sem greitt var úr Tryggingarstofnun. Í dag er þetta þannig að útgjöld lífeyrissjóða eru um 80 milljarðar á meðan útgjöld Tryggingarstofnunar eru 50 milljarðar.

Allir sem fylgjast með lífeyrismálum vita að mikil fjölgun öryrkja hefur aukið útgreiðslur úr sumum lífeyrisjóðunum. Lífaldur hefur lengst, þá sérstaklega karla. Mismunandi mikið tap og mismikill kostnaðarauki vegna fjölgunar bótaþega,auk þess að lenging lífaldurs hefur leitt til þess að sumir sjóðir hafa þurft að skerða meir en aðrir.