mánudagur, 5. desember 2011

Sikiley

Hef verið að þvælast um Sikiley, Palermo og umhverfi undanfarna daga. Hér stendur yfir þing Evrópskra byggingarsambandsins, 2,5 millj. félagsmenn og ég hef verið stjórnarmaður þar fyrir hönd Íslands. Veðrið hér samsvarar ágætis sumarveðri heima, 10 – 15°hiti logn og sól. Við göngum hér um á stutterma bol á meðan heimamenn eru í vatteruðum vetrarjökkum og í þykkum ullarpeysum.

Það búa 1 milljón manna í Palermo og um 5 millj. á eyjunni. Umferðin hér er gríðarleg, fullkomið öngþveiti. Göturnar þröngar og gangstéttir mjóar. Allir troða sér áfram og beita öllum brögðum til þess að komast fram úr næsta bíl. Flauturnar óspart notaðar. Flestir bílarnir bera þess einhver merki að hafa rekist utan í aðra bíla. Áberandi er hversu margir lögreglumenn eru á ferðinni og eins eru hermenn víða, sérstaklega á torgum.

"Þarna búa aðalmennirnir í Mafíunni" sagði bílstjórinn við okkur á leið frá flugvellinum að hótelinu og benti á klettahöfða. Rammgert hlið var við veginn upp í höfðann. Vegir sprengdir í hlíðarnar og þar voru hús næstum því eins stór og glæsileg að sumarbústaðir útrásarvíkinga hins íslenska efnahagsundurs upp í Borgarfirði og í Fljótshlíðinni.


Það er skemmtilegt að setjast niður í einu af hinum fjölmörgum kaffihúsum og horfa á samskiptatækni Ítala. Mikið talað með allskonar handatilbrigðum til þess að leggja áherslu á mál sitt. Þeir segja svo mikið og margt að maður hefur á tilfinningunni að þeir ryðji út úr sér efni sem samsvarar einum bókakafla á mínútu.

Í umferðaröngþveitinu eru menn að rekast á, og þá er stokkið út úr bílunum og upphefst gríðarleg málstefna, sem endar með því að á svæðið mæta minnst 2 lögreglumenn og ganga á milli manna.

Við urðum vitni að því að maður fékk aðsvif og sveigði bíl sínum inn á eitt af torgum borgarinnar. Á svipstundu voru komnir að nokkrir karlmenn og mér virtist hefjast ofsafengið rifrildi. Þar fór fremstur fullorðinn maður. Hann fór nánast hamförum, það var eins og hann væri að reyna að sanna að þetta væri ekki honum að kenna.

Þetta varð eins og Alþingi Íslendinga í beinni á RÚV, með Vigdísi Hauks í ræðustól og þingheimur hrópandi frammíköll og með allskonar aulabrandara.

Brátt bar að lögreglumenn og eftir skamman tíma voru komnir 6 lögreglumenn. Aumingjans maðurinn sat hreyfingarlaus náfölur í bíl sínum og á svip hans mátt helst merkja að honum fyndist þetta óskaplega leiðinlegt að vera með svona vesen á almannafæri.

Og svo kom sjúkrabíll og lögreglan varð að ryðja mannskapnum í burtu svo hjúkrunarmennirnir kæmust að hinum veika.

Á þinginu tala menn mikið um efnahagsstöðuna og taka ákaflega nærri sér aðför að lífeyrisréttindakerfinu og rætt er um ósanngjarna umfjöllum sem Ítalir fái í fjölmiðlum.

Af fréttum að heiman að dæma virðist svo sem vera hið sama upp á teningunum. Stjórn stærsta stjórnmálaflokks Íslands er með tæplega 200 millj. kr. rekstrarhalla þrátt fyrir að fá tæpan hálfan milljarð kr. í styrki og í hittifyrra samþykktu stjórnmálamenn að flokkarnir mætti setja alla helstu kosningasmalana á launaskrá Alþingis, svo rétta mætti af rekstur stjórnmálaflokkanna. En það dugar ekki.

Hvernig er hægt að ætlast til þess að íslenskir stjórnmálamenn geti rekið ríkið ef þeir geta ekki einu sinni rekið skammlaust stjórnmálaflokk. Þessir menn myndu ekki einu sinni draga inn í skemmtinefnd í stéttarfélagi. Enn einu sinni ætla íslenskir stjórnmálamenn að gera upptækt sparifé launamanna í lífeyrissjóðunum til þess að rétta af afglöp sín í ríkisrekstrinum, það dugaði þeim ekki að fella krónuna og um leið launin um 50%.

Heyri að stjórnvöld ætli sér einu sinni enn að skatta inneignir í lífeyrissjóðum, leggjast á okkur sem höfum valið að spara og varðveita okkar fé. Í þessari umferð er sem fyrr gerð tillaga um að þeir sleppi sem hafa ekki tekið þátt í samtryggingakerfinu, heldur safnað fé sínu á einkareikninga, undir koddann, í fasteignir, eða yfirleitt ætlað sér að fljóta frítt með. Hér er lagt upp með athafnir sem brjóta jafnræði og ef af verður kallar á dómsmál.

Slök efnahagsstjórn hefur endurtekið verið leiðrétt með reglubundnum gengisfellingum og gera upptækt sparifé lífeyrisþega á almennum markaði. Þingmenn og ráðherrar þurfa ekki að óttast um sinn lífeyri, þeir hafa sett lög um að hann sé baktryggður í ríkissjóð.

Í síðustu kjarasamningum voru ákvæði um að þessi mismunur yrði leiðréttur upp á við þannig að skerðingar í almennum sjóðunum yrðu leiðréttar til samræmis við þær leiðréttingar sem gerðar hafa verið í opinberu sjóðunum. Stjórnmálamennirnir eru að mana launamenn á almennum vinnumarkaði til þess að segja upp kjarasamningum í febrúar. Endurtekin viðtekin vinnubrögð slakra og óheiðarlegra íslenskra stjórnmálamanna.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"Hvernig er hægt að ætlast til þess að íslenskir stjórnmálamenn geti rekið ríkið ef þeir geta ekki einu sinni rekið skammlaust stjórnmálaflokk." Vá, setning dagsins, takk!
p.s. passaðu þig á mafíunni

Sveinn Ólafsson sagði...

Sæll Guðmundur.

Ég tók eftir að þið gangið um á stuttermabol meðan Sikileyingar dúða sig.

Englendingurinn sem skrifar fyrir BBC norðar í landinu hefur svipaða sögu að segja:

http://www.bbc.co.uk/news/magazine-15987082

kveðja, Sveinn Ólafsson.