Ísland er vægast sagt troðfullt af íslenskum krónum segir á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Töluvert annað er hrópað hefur verið um að starfsmenn stéttarfélaganna séu búnir að sólunda öllum peningum lífeyrissjóðanna, og þar sé að finna ástæðu þess að íslenskt hagkerfi fór fram af bjargbrúninni.
Í því sambandi má einnig benda á Kastljós undanfarna daga þar sem upplýst hefur verið hvað var raunverulega í gangi og hvaðan þeir fjármunir komu sem nýttir voru. Þetta staðfestir það sem ég hef margoft bent á, ákveðnir aðilar afvegaleiddu vísvitandi umræðuna og allmargir áberandi álitsgjafar og spjallþáttastjórnendur létu plata sig upp úr skónum og hafa í raun verið í hlutverki rógbera, eða þá að þeir hafi verið virkir þátttakendur í því að beina athyglinni frá því sem raunverulega gerðist
En ef við víkjum sögunni aftur að því fram fram kom í fréttinni, þetta eru reyndar ekki allt sömu krónurnar. Þetta eru bréfpeningar sem hafa í raun þrjú gengi gagnvart erlendum gjaldmiðlum (EUR). Aflandsgengið (250), gengi í útboðum SÍ (210) og svo skráð gengi Seðlabanka Íslands (165).
Nú virðist ætlun stjórnvalda og Seðlabanka að halda krónunni niðri og bjóða íslenskum fjárfestum að keppa við fjármagn sem kemur með verulegum afslætti til Íslands skv. 50/50 reglu Seðlabankans, þegar reyna á að losa um eignir erlendra kröfuhafa í íslenskum krónum. Þessir fjárfestar munu því fjárfesta á öðrum forsendum en við. Afslátturinn endurspeglar þá áhættu sem erlendir fjárfestar taka.
Ef finna á farveg fyrir allt þetta fjármagn þarf að taka mjög föstum tökum á málinu. Magnús Þór Ásgeirsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, auglýsir eftir atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar í viðtali í dag, þar sem hann gefur ríkisstjórninni falleinkunn í atvinnumálunum. Um Huang Nubo málið segir hann meðal annars: „Ég hef bara séð vanþekkingu, útlendingahræðslu og uppblásinn þjóðernissósíalisma. „
Í stað þess að taka á móti Nubo og ræða við hann um lausnir sem allir gætu sætt sig við lá ráðherra undir feld í nokkrar vikur og sendi svo fréttatilkynningu að hann væri ekki velkominn. Þetta mál var „bara“ 1 milljarð og hvernig verður þetta þegar upphæðirnar verða stærri. Umræðu ríkisstjórnarflokkana um þjóðnýtingu fyrirtækja og eigna sbr. HS Orku málið. Geðþótta ákvarðanir, lögbrot ráðherra og endalausar og yfirvofandi breytingar á skattalögum gera það að verkum að fyrirtæki treysta sér varla til að fjárfesta á Íslandi í dag. Nýjasta upphlaupið vegna kolefnisskatts segir allt sem segja þarf, var haft eftir Magnúsi Þór.
Íslenskt atvinnulíf getur ekki orðið mikið verðmætara en landsframleiðsla nema með alþjóðavæðingu. Erlendir fjárfestar fá ekki að fjárfesta í sjávarútvegi og ekki í orkuiðnaði. Ríkisstjórnin vill heldur ekki selja ísl. lífeyrissjóðum hlut í Landsvirkjum og þegar lífeyrissjóðirnir tilkynntu um kaup í HS Orku lét Svandís þess getið að þetta væri ágætis skref í rétta átt en að það væri yfirlýst stefna VG að ríkið ætti að þjóðnýta fyrirtækið.
Það er varla hægt að reikna með að menn vilji fara inn í sjávarútvegsfyrirtækin meðan umræðan um kvótakerfið stendur yfir. Tvær stærstu atvinnugreinarnar eru þannig blokkeraðar til fjárfestinga. Hlutabréfamarkaður í rúst þannig að það er erfitt að nálgast fjárfestingar í þjónustufyrirtækjum og innlendum rekstrarfélögum.
1 ummæli:
Heyr, Heyr!
Ábyrgð álitsgjafa, fjölmiðlamanna og spjallþáttastjórnenda er griðarleg þegar horft er til hrunsins.
En þessir aðilar þurfa aldrei að standa fyrir máli sínu og komast upp með rógburð og þvætting á bloggsíðum og í fjölmiðlum að ekki sé nú talað um hreina heimsku og lélega menntun viðkomandi.
Ótrúlegt er að þetta skuli láta viðgangast og að ríkisútvarpið bjóði upp á þátt á borð við Silfur Egils.
Einkunnin sem Magnús Þór Ásgeirsson gefur hinni ömurlegu ríkisstjórn öfga og hæfileikaleysis skýrir vel ástandið á Íslandi í dag.
Kærar þakkir Guðmundur.
Skrif þín bera af.
Skrifa ummæli