þriðjudagur, 20. desember 2011

Allt í óvissu um nýtt álver

Gerðardómur hefur komist að þeirri niðurstöðu að orkusölusamningur milli Norðuráls og HS Orku varðandi orkuafhendingu til álvers félagsins í Helguvík sé í fullu gildi. Forsvarsmönnum HS Orku og Norðuráls ber ekki saman um hvað þetta þýði. Báðir aðilar fara því varlega í að gefa út afdráttarlausar yfirlýsingar.

Gerðardómurinn staðfestir það sem HS Orka hefur ávalt haldið fram að starfsmenn þess gerðu allt sem þeir gátu til að klára framkvæmdir og afhenda orkuna á réttum tíma.

Gerðardómurinn hafnar því öllum skaðabótakröfum Norðuráls þess efnis að HS Orka hafi viljað fara út úr samningnum eða að þeim hafi gengið eitthvað annað til en að reyna að semja um söluverð sem skilaði viðunandi arðsemi.

HS Orka þarf að sætta sig við það að samningurinn er talinn í gildi en það var þó Norðurál, sem vísaði málinu fyrir gerðardóm og er staðfest að HS Orku ber að afhenda orkuna, en tekið er fram að það verði að skila HS Orku viðunandi arðsemi.

Samningurinn er kost-plús samningur sem þýðir á mannamáli að taka þarf tillit til rekstrarkostnaðar og þátta sem þegar hefur verið samið um að beri að taka tillit til. Nú verða aðilar að setjast niður og semja um verð sem skilar hluthöfum HS Orku viðunandi arðsemi.

Það liggur ekki fyrir hvað það geti orðið vegna þess að ekki er búið að ganga frá hvar og hvernig verði virkjað. T.d. liggur fyrir í dag töluverð reynsla sem kallar á nýjar kostnaðarsamar fjárfestingar vegna mengunarmála, það ekki var til staðar fyrir nokkru eins og ítarlega hefur verið fjallað um vegna virkjana á Hellisheiði undanfarna mánuði.

Samið var um 150 MW en til að það takist þarf HS Orka að ná samningum um virkjanir á fyrirhuguðum virkjunarsvæðum á Reykjanesi. HS orka hefur þegar lokið undirbúningi á 50 MW stækkun Reykjanesvirkjunar. En það er eftir að ganga frá samningum vegna annarra virkjana á Reykjanesi m.a. í Eldvörpum.

En það segir ekki nema hluta sögunnar. Ef setja á uppbyggingu álversins í Helguvík á fullt þurfa að liggja fyrir samningar um allt að 600 MW orkukaup. Það dugar Norðurál ekki að vera með samning við einn aðila. Allir fyrir einn og einn fyrir alla, stendur einhversstaðar, eða á mannamáli það þarf að ná þarf samningum nokkra orkusöluaðila.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Held að á meðan okkur hefur ekki tekist að leysa þann vanda sem mengun frá varmaaflsvirkjunum veldur þá eigum við að leggja þær á ís.

Þannig er mengun frá Hellisheiðinni orðin að vanda hér á höfuðborgarsvæðinu.

Nafnlaus sagði...

Hvernig snýr þetta að lífeyrissjóðunum?

Guðmundur sagði...

Eins og kemur fram í pistlinum, sem er reyndar minn skilningur, þá tel ég að þeir standi betur eftir að þessi dómur kom.