föstudagur, 16. desember 2011

Er dómsvaldið háð duttlungum stjórnmálamanna?

Þegar hlustað er á menn sem telja sig hægri menn, heyrir maður þá oft flokka umræðuna þannig að sumt sé pólitískt og annað ekki og strikið þar á milli er þannig að á meðan viðhorf eru samfasa við þeirra eigin skoðanir þá er það ekki pólitískt. Í hvert skipti ég heyri einhvern verja mál sitt með því að hann sé nú ekki pólitískur, þá er viðkomandi búinn að koma sér á ákveðinn stall og maður fer í varnarstöðu. Hvað stendur nú til? Hvað er verið að fela?

Sé litið til þeirrar efnahagsstefnu sem fylgt hefur verið undanfarna áratugi, þá var þar á ferð ákveðin túlkun á pólitískri stefnu, og túlkunin hefur meir að segja verið þannig að fylgt hafi verið ystu mörkum harðlínu. Lengst til hægri, en sumir hafa komist upp með að samfæra sjálfa sig og aðra að athafnir þeirra sem fremstir hafi farið fyrir þessari stefnu séu ekki pólitískir.

Svo ég haldi því nú til haga þá voru það nokkrir óprúttnir náungar sem nýttu sér það svigrúm sem skapaðist í skjóli aukins frelsis og minni afskiptum eftirlitsstofnana, jafnvel niðurlagningu þeirra. Eins og við höfum séð í Kastljósinu undanfarin kvöld voru athafnir þessara manna grímulaus glæpastarfsemi.

Fyrrverandi forsætisráðherra er ekki fyrir Landsdóm vegna athafna banksteranna. Hann er fyrir Landsdóm vegna þess að það eru til gögn sem sýna að honum var kunnugt um hvert stefndi. Það er Ríkið sem á að setja leikreglur sem tryggja stöðu almennings. Ríkið brást, þar á bæ var ekki verið tekið tillit til ábendinga um hvert stefni. Það eru stjórnvöld sem setja lögin en þau lögðu til hliðar samkennd og jöfnuð og markaðshyggjuna var látin ráða för.

Fyrir tilviljun var ég staddur fyrir framan sjónvarp í morgun og hlustaði á formann Sjálfstæðisflokksins í beinni útsendingu úr ræðustól nú fyrir hádegi. Þar var hann að mæla fyrir því að Alþingi tæki mál Geirs Haarde úr því ferli sem það væri í fyrir Landsdóm. Helstu rök Bjarna virtust vera þau að málið væri nú orðið svo pólitískt, það hefði ekki verið það.

Hvað stendur nú til? Af hverju þarf að formaður Sjálfstæðisflokksins að taka fram feluklæðin? Er eitthvað sem Bjarni og félagar óttast í væntanlegum niðurstöðum Landsdóms? Eða er það rétt að Valhöll vilji gera allt til þess að koma í veg fyrir að meðráðherrar Geirs og þáverandi stjórnarþingmenn og svo maður tali nú ekki um fyrrv. Seðlabankastjóra verði kallaðir fyrir Landsdóm til til þess að vitna?

Ef Geir er saklaus er honum einhver greiði gerður með því að stoppa vinnu dómstóla? Hefur Alþingi það vald að geta stöðvað mál sem er komið inn í dómskerfið og kippt því út? Stenst það gildandi Stjórnarskrá? Stenst það lög?

Eða er verið að taka ræðustól enn einu sinni í gíslingu, til þess að skapa sér einhverja stöðu gagnvart öðrum málum?

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

KASTLJÓSIÐ, síðustu daga? Það hafa dunið hryllingsfréttir í Kastljósinu undanfarin kvöld. Þar sem sýnt er fram á stjórnleysið, í undanfari hrunsins. Allt undir stjórn sjálfstæðisflokksins síðust 18 árin.
Á göngum þingsins er talað um 17. þingmann D listans,þ.e.fréttamann RUV.
Látið málið hafa sinn farveg.
Kveðja
Ólafur Sveinsson

Nafnlaus sagði...

Kynna sér málin Guðmundur. Það er ekki nóg að horfa á sjónvarpið inni á rakarsstofu, og koma svo hoppandi inn með "allt á hreinu".

Staðreyndir málsins eru þær einfaldlega að saksóknari alþingis væri örugglega fyrir löngu búinn að láta ákæruna niður falla, hefði hann til þess sjálfstæði. Yfirmaður hans er hins vegar alþingi sem ályktaði um að saksóknara bæri að ákæra. Nú hafa hins vegar tveimur af veigamestu ákæruatriðunum verið vísað frá, þar með eru ekki forsendur til að halda áfram. Hvernig ætlar landsdómur að ákveða hjá sjálfum sér hvort Forsætisráðherra hafi ekki haldið nægilega marga ríkisstjórnarfundi? HVer veit hvað eru nógu margir fundir? Veit mr. Know it all það? Líklega ekki.

Aðrir ákæruliðir sem eftir standa þegar búið er að vísa frá því sem ákæran fól í raun og veru í sér eru þess eðlis að saksóknari alþingis mun fyrir hönd alþingis og þjóðarinnar ekki há neinu út úr þessu, nema kannski í versta falli miklum fjárútlátum sem fyrrum umbjóðendur Guðmundar þurfa þá að greiða, eins og öll önnur axarsköft ríkisstjórnarinnar. Það eru nefninlega engir hókus pókus peningar sem hægt er að ná í þegar fákunnandi þingmönnum ríkisstjórnarinar dettur í hug að sinna einhverjum hobbýmálum inni á þingi. Ef Björn Valur, Ólína og Mörður vilja rækja þessi mál áfram, þá væri best að þau myndu bara fara sjálf í mál við forsætisráðherra, eyða sínum eigin peningum í þetta, en koma ekki nálægt peningum skattborgaranna, þeir vilja þetta ekkert hvort sem er.

Nafnlaus sagði...

Sumir telja sig vita staðreyndir málsins og allir aðrir eru fávísir. Reyndar kemur hann ekkert inn á það sem verið er að fjalla um í pistlinum.

Mikið ósköp kannast maður vel við málflutning eins og nafnlaus 23:55 er með og alltaf skal það var einhver sjálfumglaður besservisser forritaður af Valhöll.
Kv Kristinn Þór

Nafnlaus sagði...

Hér geipar Nafnlaus 23:55, líklega eitthvað glaseygur ef dæma má af textanum hans, um staðreyndir og er helst að sjá að enginn þekki þær nema hann.
En er ekki best að geipa sem minnst og spyrja að leikslokum? Ef málið er svona ónýtt og ómögulegt þá verður Geir sýknaður og fær uppreisn æru. Væri það ekki tilefni til gleðiláta og glasalyftinga í Valhöll?
En af hverju má aldrei fá fram niðurstöðu eftir löglegum leikreglum? Það má ekki láta þjóðina kjósa um ESB og málið gegn Geir má ekki hafa sinn gang fyrir Landsdómi. Hvaða niðurstöðufælni er þetta eiginlega? Eru efasemdir og ótti í gangi þrátt fyrir alla kokhreystina og sjálfumgleðina?
Benedikt

Jon Eiríksson sagði...

Alþingi er búið að velja tiltekna málsmeðferð - afskiptum þess lauk þar með og málið er í höndum Landsdóms. Punktur. Reyndar væri Geir í undarlegri stöðu, ef málmeðferð yrði hætt. Hann hefði þá ekki tækifæri til að verja sinn ráðherrradóm og sæti uppi með óútkljáðar ákærur.