laugardagur, 10. desember 2011

Rafiðnaðarmenn vilja draga stjórnvöld fyrir dómstóla

Ég hef allnokkrum sinnum lýst því hér á þessari síðu hver viðbrögð félagsmanna Rafiðnaðarsambandsins voru þegar stjórnvöld hugðust sækja 236 milljarða í lífeyrissjóðina, fyrir u.þ.b. tveim árum.

Til eru lög í landinu sem segja að sparifé sjóðsfélaga í lífeyrissjóðunum sé stjórnarskrárvarin eign þeirra sem greitt hafi til viðkomandi sjóðs. Stjórn viðkomandi sjóðs hafi ekki heimild til þess að greiða úr sjóðunum annað en sem örorkubætur, ellilífeyri eða maka- og barnabætur.

Strax og þessar hugmyndir komu fram höfðu nokkrir félagsmenn samband við skrifstofur Rafiðnaðarsambandsins og fóru fram á að sambandið myndi verja þennan rétt sjóðsfélaga og miðstjórn samþykkti þá að það yrði gert.

Sjóðsfélagar bentu á að þessi leið væri brot á eignarrétt auk þess væri jafnræðisreglan brotin. Með þessu væri verið að taka eignir fárra og nýta þær til þess að greiða skuldir annarra. Þetta myndi einungis bitna á sjóðsfélögum í almennu lífeyrissjóðunum, þar sem opinberu sjóðirnir fengju þessa úttekt úr þeirra sjóð bætta jafnharðan úr ríkissjóð. Það það væri verið að auka enn meir mismunum á milli lífeyrisþega, í stað þess að jafna hann upp á við, eins og samið var um í síðustu kjarasamningum.

Forsvarsmenn ASÍ tilkynntu stjórnvöldum að þessi leið væri ófær lagalega séð, en jafnframt var tekið undir að taka þyrfti á skuldavanda heimilanna. Það yrði að fjármagna þannig að kostnaður við það lenti ekki einvörðungu á fáum örorkubóta- og lífeyrisþegum.

Svo einkennilegt sem það nú er þá fóru ráðherrar þá í fjölmiðla og tilkynntu að ASÍ hefði hafnað því að vera þátttakandi í að taka á skuldavanda heimilanna!!??

Í kjölfar þessa glymur það í öllum fjölmiðlum og spjallþáttum að Gylfi Arnbjörnsson stæði í vegi fyrir því að laga skuldavanda heimilanna!!?? Tekin voru mörg viðtöl við einstaklinga sem eru þekktir af því að greiða helst ekkert til samfélagsins og í lífeyrissjóði. Og þeir fóru ásamt spjallþáttastjórnendum hamförum í því óréttlæti sem Gylfi Arnbjörnsson beitti þá með því að vilja ekki taka sparfé launamanna í lífeyrissjóðunum og greiða það út til annarra.

Nú vilja stjórnvöld reyna að ná í hluta af þessu sparifé sjóðsfélaga með því að setja sérstakan skatt á það sparifé sem er í lífeyrissjóðum. Þessi skattur samsvarar öllum rekstrarkostnaði lífeyrissjóðs rafiðnaðarmanna.

Auk þess á að setja sérstakan launaskatt á fjármálafyrirtæki. Lífeyrissjóðir falla eru ekki undir lög um fjármálafyrirtæki, en ríkisstjórnin ætlar sér samt að koma þessum skatt yfir á lífeyrissjóðina.

Þessir skattar þýða með öðrum orðum að rekstarkostnaður lífeyrissjóðsins verður tvisvar og hálfum sinni hærri. Fjármálafyrirtæki munu taka þetta tilbaka í hærri vaxtamun, en það geta lífeyrissjóðir ekki þeir geta ekki annað en skert örorku- og lífeyrisbætur. Og svo það sé ítrekað þá skiptir þetta lífeyrissjóð þingmanna, ráðherra og tiltekinni opinberra starfsmanna engu, því þeir sækja þennan kostnað einfaldlega í ríkissjóð.

Á fjölmennum fundum miðstjórnar Rafiðnaðarsambandsins auk þess í stjórnum og trúnaðarráðum nokkurra aðildarfélaga sambandsins í gær, var samþykkt að sambandið myndi láta á það reyna fyrir dómstólum hvort þessir gjörningar stæðust lög og stjórnarskrá.

Jafnframt var samþykkt að það ætti að taka á skuldavanda heimilanna, en það stæðist ekki að láta elli- og örorkubótaþega standa straum af þeim kostnaði.

3 ummæli:

Friðrik Jónsson sagði...

Samkvæmt stjórnarskránni hefur Alþingi skattlagningarvald. Ef hægt er að leggja á eignaskatt, t.d. í formi auðlegðarskatt er allt eins hægt að leggja skatt á eignir í lífeyrissjóðum, svo lengi sem það er gert að lögum.

Nafnlaus sagði...

Afli 2011/12 af Íslandsmiðum:
Ýsa 40.000 t. þorskur 170.000 t. karfi 50.000 t. ufsi 50.000 t.
Samtals 310.000 tonn, þetta er 1/3 af eðlilegum afla hér við Ísland,
þarna vantar 6 til 700.000 tonn upp á, og enn meira ef síld er talin með.
Íslendingar verða að fá meiri afla af miðunum til að halda samfélaginu
gangandi, komdu með stuðning við frjálsar handfæraveiðar,
afléttum oki banka og líú, leysum byggða, fátæktar, mannréttinda og
atvinnuvanda gjaldþrota þjóðar.

Guðmundur sagði...

Lífeyrissjóðir eiga engar eignir, utan þess húsnæðis sem þeir eru í.

Eiga bankar það sparifé sem er á sparibókum?

Einkennilegt hvernig sumir tala um lífeyrissjóðina, það er eins og þeir telji að sjóðirnir séu einhver sjálfseignarstofnun, óviðkomandi sjóðsfélögum.

Eignir sjóðfélaga í lífeyrissjóðum eru varðar, t.d. ekki aðgengilegar við gjaldþrot.

Hér er einnig um að ræða brot á jafnræðisreglu.

Hvað í veröldinni réttlætir að örorkuþegar og lífeyrisþegar sem hafa greitt í almennu sjóðina eigi að greiða þennan skatt?

Væri ekki nær að hækka td. virðisaukaskatta um brot úr prósenti.