fimmtudagur, 8. desember 2011

Alþingi vill eignaupptöku á sparifé launamanna

Stjórnmálamenn hafa ítrekað með inngripi sínu í lífeyriskerfið rofið stjórnarskrárvarða jafnræðisreglu og eru þessa dagana auk þess að skipuleggja eignaupptöku í sparifé launamanna á almennum vinnumarkaði og rjúfa þar stjórnarskrárvarinn eignarétt.

Nú vill Alþingi íslendinga setja skatt á hreina eign lífeyrissjóða til samtryggingar, eins og það er orðað á Alþingi. Hér er farin leið sem margir hafa óttast alllengi, stjórnmálamenn telji sig geta höndlað með það sparifé sem er í lífeyrissjóðunum. Hrein eign lífeyrissjóðs er það húsnæði sem hann er í og nokkrar tölvur og símar, annað á hann ekki.

Allmargir sjóðsfélagar krefjast þess að ef stjórnmálamenn ætli sér að virða að vettugi stjórnarskrárvarinn eignarrétt í sparifé launamanna og jafnræðisregluna, verði látið á það reyna fyrir dómstólum. Þetta mun einungis bitna á þeim launamönnum sem eiga sparifé sitt í almennum lífeyrissjóðunum. Þingmenn, ráðherrar og nokkrir útvaldir starfsmenn hins opinbera þurfa ekki að óttast þetta, því það er greitt úr ríkissjóð. Þannig að þetta bitnar tvöfalt á launamönnum á almennum markaði.

Hallinn á lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna vex á meðan almennu lífeyrissjóðunum er gert að skerða réttindi, samkvæmt 39. gr. laga um lífeyrissjóði. Í sömu lögum eru sett skilyrði um tryggingarlega úttekt þar sem kveðið er á um ávöxtunarviðmið til þess að tryggja að einn hópur sé ekki að fá inneignir annars hóps.

Í stjórnarskrám þróaðra ríkja er talið eðlilegt að séu ákvæði um lágmarkstryggingu borgaranna. Samkvæmt 76. gr. í núverandi stjórnarskrá lýðveldisins Íslands segir að Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika“.

Stjórnlagaráð viðheldur þessu ákvæði í tillögum að nýrri Stjórnarskrá: 22. gr. Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar, svo sem vegna atvinnuleysis, barneigna, elli, fátæktar, fötlunar, veikinda, örorku eða sambærilegra aðstæðna.“

Litið hefur verið til íslenska lífeyrissjóðakerfisins sem fyrirmynd við uppbyggingu samskonar kerfa í öðrum löndum. Það varð bjarghringur íslensks samfélags við Hrunið og stendur enn þrátt fyrir áföll. Allt annað í íslensku fjármálalerfi hrundi til grunna. Þ.á.m. Seðlabankinn, bankar og sparisjóðir og Íbúðarlánasjóður.

Margir hafa spurt hvers vegna álitsgjafar og spjallþáttastjórnendur hafi ekki beint sjónum sínum sínum að þessari staðreynd og spyrji : Hvernig stendur á því að allt sem stjórnmálamenn komu að ásamt sérfræðingum bankanna hrundi til grunna, á meðan lífeyrissjóðirnir standa einir uppi. Af hverju er efnahagstjórn ekki tekinn úr höndum stjórnmálamanna sem sífellt eru að spila allt í þrot og gengisfellingar?

Í stað þess er öllum brögðum beitt til þess að gera lífeyrissjóðina tortryggilega, svo langt er gengið að halda því blákalt fram að starfsmenn stéttarfélaganna hafi nýtt eignir þeirra til þess keyra hér allt í þrot. Ríkissjóður hefur þurft að setja þúsundir milljarða til þess bjarga bönkum og sparisjóðum, auk þess að erlendir bankar og fjárfestar töpuðu hér á landi margföldum heildareignum lífeyrissjóðanna og líklega um 75 fallt það tap sem varð í lífeyriskerfinu. Það er ekki heil brú í svona málflutningi. Auk þess blasir við sú staðreynd að stjórnmálamenn hamast þessa dagana við að setja allskonar lög um að gera sparifé launamanna í lífeyrissjóðunum upptækt.

Erinda hverra er verið að ganga?
Hér er vísvitandi verið að gera tilraun til þess að beina sjónum frá þeim sem keyrðu hér allt í kaf og stóðu að mestu eignaupptöku sem gerð hefur verið hér á landi. Dregnar eru upp myndir þar sem starfsmenn stéttarfélaganna og lífeyrissjóðanna reka glæpastarfsemi. Þar fari handrukkarar með logsuðutæki og gangi í skrokk á saklausi fólki.

Álitsgjafar hika ekki við að lýsa ofangreindum stjórnarskrárgreinum og skuldbindingum í lögum um starfsemi lífeyrisjóðanna, sem „Ponzi“ svindli!!?? Skautað er framhjá að Íslensk þjóð hefur sett stjórnarskrárvarinn grunnmannréttindi um að verja mannlega reisn.

Ef lækka á ávöxtunarviðmiðið, eru tveir valkostir: að lækka lágmarkslífeyri eða hækka iðgjöld. Þetta er ákaflega einföld stærðfræði. Nokkrir af helstu álitsgjöfum sem hafa sig hvað mest í fram og er ákaft hampað af spjallþáttastjórnendum gefa sig út fyrir að vera góðir í stærðfræði og að búa til Excel skjöl.

En það blasir við öllum sem kunna margföldunartöfluna að annaðhvort eru þeir arfaslakir í stærðfræði og einstaklega illa að sér um lög og stjórnarskrárvarinn rétt einstaklinga, eða verið er að ganga erinda einhverra.

Ég er einn fjölmargra sem efast ekki eitt augnablik um að hið síðara á hér frekar við.

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hafðu engar áhyggjur af þessu Guðmundur minn, stjórnendur lífeyrissjóðanna verða sjálfir búnir að sólunda þessum krónum sem var þó búið að nurla saman áður en Steingrímur og co. komast með krumlurnar í þetta.

Guðmundur sagði...

Það er greinilegt að nafnlaus # 14:35 hefur ekki lesið pistilinn og er einn af þeim sem beitir sér fyrir því að leiða umræðuna á villigötur. Það eru alltaf nokkrir á varðbergi um að henda inn innistæðu lausum klisjum og reyksprengjum til þess að komast hjá málefnalegri umræðu

Nafnlaus sagði...

Já Guðmundur þetta er er hárrétt. Þessir einstaklingar eru kallaðir skólpveitur landsins.

Það eru þessar skólpveitur sem hafa haldið því ákaft að landsmönnum að það sé við starfsfólk stéttarfélaganna að sakast um að landið hafi farið á kaf. Starfsfólk stéttarfélaganna hafi nýtt sér fjármagn lífeyrissjóðanna til þess að keyra landið fram af brúninni.

Þessu er haldið blákalt fram þó allir viti að lífeyrissjóðirnir komu standandi út úr hruninu á meðan allt sem bankasérfræðingarnir og þáverandi valdhafar fór til andskotans.
Krummi

Unknown sagði...

Þar sem ég er einn þeirra álitsgjafa sem hafa, hiklaust, líkt uppbyggingu lífeyriskerfisins alls við Ponzi svindl - vitanlega án þess að halda því fram að það hafi verið ætlunin að byggja kerfið þannig upp því ég veit vel að svo var ekki - þá vil ég vekja athygli á þessum pistli sem ég skrifaði fyrir nokkru.

Ég sannarlega vona að þetta kerfi væri betra en núverandi kerfi.

http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Olaf_MArgeirsson/hvernig-a-lifeyriskerfid-ad-vera

Bestu kveðjur,
Ólafur Margeirsson

Nafnlaus sagði...

Kjarni vandans er ónýtur gjaldmiðill, sem kostar svimandi upphæðir.

Ef hér væri stór alþjóðlegur gjaldmiðill eins og t.d. evra, þyrfti ekki verðtryggingu og vextir væru lágir.

Það þarf að ræða kjarna vandans - en ekki sjúkdómseinkenni - og skammtíma verkjastillandi lausnir - eins og afnám verðtryggingar.

Hvernig væri að ræða kjarna vandans - og finna varanlega lausn og lækningu á vandamálinu - ef það verður ekki gert magnast vandinn - í nýjar og áður óþekktar hæðir,,,,

Nafnlaus sagði...

fínt mál, þeir sem eiga sparifé á þessum seinustu verstu eru bara hvort eð er eitthvað ríkra manna auðvald, almennigur á ekkert nema skuldir, það á að fella niður skuldir á kostnað auðvaldsins.

Nafnlaus sagði...

Sammála niðurstöðunni enda voru lífeyrissjóðirnir það eina sem „þeim“ tókst ekki að stela. Allt annað var skrapað að innan.

ÞÚB

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus 15.24
Haltu þér við efnið.
Hversu á ég að gjalda, komminn á eftirlaun,unnið frá fimmtán ára aldri og greitt í lífeyrissjóði í 37 ár? Greiða skuldir óreiðumanna af uppsöfnuðum eftirlaunum?

Nafnlaus sagði...

Hvernig getur það nýst fólki sem á sparifé inni á reikningum? Vextir eru 1-2%, verðbólga 5-6%. Það þarf ekki langskólagengin mann til að sjá hvaða eignaupptaka er þar í gangi.

Sem betur fer eru flestir farnir að sjá hversu skynsamlegt það var að hætta þessu rugli um upptöku evru. Þeir sem halda enn í evruna eru ekki að fylgjast með því sem er að gerast á Íslandi eða utan landsteinanna.

Verðtrygging er ekki til staðar á Íslandi. Ef það er verðtrygging, hvernig stendur þá á að laun fylgja ekki vísitölu? Hvernig stendur þá á að innistæður fylgja ekki vísitölu? Hvernig stendur þá á að bætur til öryrkja og minnimáttar fylgja ekki vísitölu? Verðtrygging er bara á lánskjaravísitölu. Ef verðtrygging væri sett á í raun og veru, þá væri verðbólgan ekki lengi að rúlla niður í núllið. Það eru engar forsendur fyrir að hér sé verðbólga upp á rúm 5% í mestu kreppu í 80 ár.

Guðmundur getur malað eins og hann vill um ágæti lífeyrissjóðanna. Tölfræðin segir það sem segja þarf. 3,5% ávöxtun er sú ávöxtun sem þarf að eiga sér stað svo sjóðirnir geti staðið undir sínum skuldbindingum. Ávöxtun hefur hins vegar ekki verið nema 1,5%. Það sjá allir að þetta getur ekki gengið, enda er farið að rýra útgreiðslur og ræða um að hækka iðgjöld enn frekar. Stjórnendur sjóðanna eru ekki starfi sínu vaxnir og hafa greinilega ekki verið það um langan tíma. Þeir eiga að hætta og hleypa að fólki sem gæti náð 3,5% ávöxtun. Það ætti ekki að vera erfitt í landi þar sem vextir eru yfirleitt nokkuð háir?

Guðmundur sagði...

Hún allmótsagnakennd aths. hér að ofan. Í byrjun er rætt um að ávöxtunarmöguleikar séu slakir, en svo er vippað yfir á hina hliðina neðar og lífeyrissjóðir sakaðir um að ávaxta ekki nægilega vel og nóg sé um góða ávöxtunarmöguleika!!??

Allir fjölmiðlar hafa verið uppfullir frá Hruni að það skorti fjárfestingarmöguleika hér og fjármagn í lífeyrissjóðum safnist upp á innistæðureikningum í Seðlabanka og einsog um er getið í inngangi aths. þá er ávöxtun nánast engin þessa dagana.

Margoft hefur komið fram að frá því verðtrygging hafi verið tekinn up þá hafi laun hækkað um 30% meir en verðtrygging.

Skelfing væri nú umræða uppbyggilegri ef menn héldu sig við einfaldar staðreyndir, í stað þess að bulla svona út í eitt.

Vilhjalmur Jesus Arnason sagði...

Erinda hverra er verið að ganga?
Hér er vísvitandi verið að gera tilraun til þess að beina sjónum frá þeim sem keyrðu hér allt í kaf og stóðu að mestu eignaupptöku sem gerð hefur verið hér á landi.

Hverja ertu að tala um ? Ég hélt að þetta hafi allt verið krónunni að kenna.

Fyrirgefðu ef þetta hljómar kaldhæðnislegt. En ég vona að þú svarir mér samt eðlilega.

Guðmundur sagði...

Þú afsakar en ég átta mig ekki hvert þú ert að fara Vilhjálmur? Þú blandar þarna saman tveim algjörlega óskyldum hlutum.