Þegar jólin nálgast leita að manni hugrenningar um stöðu fólks. Ég var nýlega nokkra daga á Sikiley. Þar sáum við hjónin hversu langur vegur er á milli þess sem við Íslendingar köllum slök hýbýli og lök lífskjör hér heima og þess sem birtist manni þegar farið er um eyjuna.
Birtingarmynd íslensks samfélags í umræðunni, ekki síst á netinu, einkennist af því að hér ríki nánast algjört neyðarástand, en ekki verður framhjá því litið að þrátt fyrir Hrun að lífsgæði okkar og möguleikar eru enn meðal þess sem best gerist í heiminum. Velmegun hér á landi er mikil borið saman við mörg önnur lönd, það þarf ekki að fara langt til þess að finna samfélög þar sem fólk býr við miklu verri aðstæður. Enda leita hingað árlega þúsundir manna sérstaklega frá austur Evrópu ríkjunum.
Íslendingar hafa komið vel út úr nýlegum rannsóknum á því hvaða þjóðir heims búa við mesta velmegun og hamingju. Við vorum ávalt í efstu sætum með hinum norðurlandanna. Lifum í hinu norræna velferðarsamfélagi sem allir sækjast eftir, utan nokkurra einstaklinga hér á Íslandi sem ætíð hafa fundið því allt til foráttu.
Lífsgæðin og samkennd er mikil í íslensku samfélagi, fjölskyldurnar sterkar og flestir segjast þekkja einhverja sem þeir geti leitað til í neyð. Virkni í íslensku samfélagi er hátt yfir meðallagi t.d. ef litið er til kjörsóknar. Heilsufar Íslendinga mælist vel yfir meðaltali og lífslíkur Íslendinga eru nærri tveimur árum lengri en meðaltal OECD.
Við erfiðar aðstæður reynir fólk að komast burt og leita að betra lífi annars staðar og það er mikið flæði af flóttamönnum og hælisleitendum sem leitar til Vesturlandanna. Álagið er mismikið og er langmest í suðurhluta Evrópu af eðlilegum ástæðum, þangað er styst frá Afríku og Asíu.
Eyjan Lampedusa er mitt á milli Sikileyjar og Túnis. Undanfarna mánuði hefur fólk á flótta frá ófriðnum í Norður-Afríku flykkst til eyjarinnar. Þangað hafa leitað allt að eitt þúsund manns hælis á sólarhring. Engin veit hversu margir farast á leiðinni yfir Miðjarðarhafið.
Ítalir hafa hvatt ríkisstjórnir annarra Evrópulanda til að taka við hluta þeirra 25.000 flóttamanna sem hafa komið til landsins það sem af er árinu. Mörg lönd hafa færst undan því að verða við beiðninni. Þetta hefur valdið spennu á milli ríkisstjórna í Evrópu og þjóðernisflokkar nærast á þessu ástandi.
Það góða sem Hrunið hefur leitt af sér er að staða fjölskyldunnar hefur styrkst, í könnunum kemur fram að börn eru ánægðari, lífsgæðin hafa vaxið. Við gleymdum því um stund hvar gildin lægju og hluti þjóðarinnar dansaði ofsafengnum dansi kringum gullkálfinn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli