Amsterdam er ákaflega notaleg borg. Hér er byggingarland greinilega dýrara en á höfuðborgarsvæðinu heima, hús reist á mjög litlum grunnfleti og öll 3 – 4 hæðir. Lítil bílaumferð er í miðbænum, enda er hún ekki í forgangi, fá bílastæði. Allstaðar eru reiðhjólagötur og sporvagnar sem koma með nokkurra mínútna millibili. Ekkert vandamál að þvælast um allt án þess að nota bílinn. Hér eru milljónir á ferð, en á höfuðborgarsvæðinu heima eru um hundrað þúsund. Það getur ekki staðið undir þeirri ferðatíðni sem svona kerfi verða að bjóða upp á, auk þess að ná vel út í íbúðarhverfin.
Hver einasti fermeter land er skipulagður og engin óhreyfð öræfi til þess að vernda, svo landverndarfólk verður að fara til Íslands til þess að mótmæla raski á hálendinu. Fólk situr með jónur á útikaffihúsum og ekki gerðar athugasemdir við það. En það eru takmörk fyrir því hvað löggjafinn hér þolir. Íslendingur sem hér býr ætlaði að fara að flytja inn blátt Opal, þá sagði löggjafinn hingað og ekki lengra. Í Opal væru nokkrum milligrömmum of mikið klóroformi, ef ég man rétt.
Hér er verið að halda Evrópumeistaramót í iðngreinum. Hollendingar eru vel þekktir í starfsmenntageiranum fyrir gríðarlega vel skipulagt og öflugt iðnnám. Verknám nýtur hér virðingar og stjórnvöld hafa stutt vel við bakið á því. Annað en heima þar sem þeir sem stýrt hafa menntakerfinu er einvörðungu fólk með bóknám úr háskóla. Embættismenn sem ekki hafði nokkurn skilning á því að skóli þyrfti meira en stofu, borð og stóla.
Íslensku embættismenn leiddu alltaf hjá sér kröfur um verknáms- og raungreinastofur væru með tækjum og tólum, þó svo þeir staðfestu námskrár sem voru samræmdar við aðrar evrópskar og þar væru gerðar kröfur um verknámstofur. Þetta leiddi til þess að verknám heima var löngum lélegt og naut þar af leiðandi ekki mikillar virðingar og íslendingar hafa komið út úr könnunum sem lakast menntaða þjóð í Evrópu. Þó svo stjórnmálamenn íslenskir berji sér á brjóst og fullyrði að við séum best, þá hefur komið fram á þeim fjölmörgu Evrópsku ráðstefnum sem ég hef setið um starfsmenntun, að við erum alltaf með stystu súlurnar þegar starfsmenn samanburðarkannana eru að kynna niðurstöður sínar, og alltaf taka þeir það sérstaklega fram að það hafi komið á óvart vegna þess að þeim hafi verið talið í trú um annað.
Reyndar er Holland vel þekkt í evrópska byggingariðnaðinum eins og ég þekki vel eftir stjórnarsetu í Evrópska byggingarsambandinu í allmörg ár. Þeir njóta virðingar sem land sem tekur af raunsæi og festu á málum. Fljótlega eftir að opnað var fyrir frjálsan flutning á launamönnum innan Evrópska efnhagssvæðisins kom í ljós að fyrirtæki voru að misnota aðstöðuna og starfsmenn voru ekki tryggðir og nutu ekki réttinda. Slys voru tíð og verkafólk kom inn á hjúkrunarstofanir ótryggt. Gríðarlegur kostnaður lenti á skattborgurum en ekki þeim sem áttu að skila af sér gjöldum til samfélagsins, eins og við þekkjum vel heima. Á þessu var strax tekið af festu í Hollandi á meðan íslenskt stjórnvöld tóku alltaf sjónarmið verktakanna og vörðu þá og tóku slaginn við samtök launamanna og kölluðu okkur rasista??!!. Endu eru viðhorf íslenskra hægri manna til samtaka launamanna og réttinda þeirra vel þekkt. Það tók okkur nokkurra ára baráttu til þess að fá stjórnvöld heima til þess að taka á þessum málum, eiginlega ekki fyrr en Jóhanna kom í stjórnina.
Ég var í því hlutverki, áður en ég fór út í fagpólitíkina um 1990, að starfa við að endurskipuleggja og byggja upp starfsmenntakerfi rafiðnaðarmanna. Við vorum í miklu samstarfi við hin Norðurlöndin og sóttum margt þangað. Þau voru aftur í miklu samstarfi við Holland, sem var í farabroddi. Norrænir rafiðnaðarmenn stofnuðu samstarfsráð, sem hét Nordisk El-Uddannings Kommité, skammstafað NEUK. Við fórum eitt sinn niður til Hollands og vorum þar með ráðstefnu þar sem fengnir voru Hollenskir fyrirlesarar. Þetta var um 1980 ogt þá voru viðhorf um margt önnur en þau eru nú.
Settum upp skilti á hurðina sem á stóð NEUK konferance. Í hvert skipti sem við komum fram í kaffi eða annað var búið að taka skiltið niður. Skildum ekkert í því, þar til einn hollendinganna bentu okkur á að Neuk þýðir ástarleikir á hollensku. Forsvarsmönnum ráðstefnustaðarins fannst það niður lægjandi að það væri auglýst að þarna væru 15 miðaldra norrænir melludólgar á ráðstefnu með innlendum leiðbeinendum og við fengum köldu hliðina. En þessum árum voru Norðurlöndin, þá sérstaklega Danir og Svíar, þekkt fyrir frjálsræði í þessum málum og m.a. voru á þeim árum Dónabúðir voru niður allt Strikið í Köben.
2 ummæli:
List er sprottin upp úr handverki. Íslendingar hafa alltaf verið fátækir á því sviði.
Þess vegna er litið er niður á iðngreinar á Íslandi. Það er séríslenskur útúrboruháttur. Skortur á menningu.
Rómverji
Góð umræða Guðmundur og þarft innlegg. Þú tala um borð og stóla og skort á aðstöðu.
En hvers vegna eru fyrirtækjum sem starfa í þessum geira, bæði innlendum og erlendum, sem hafa beinan hag af því að iðnmenntun sé á sem hæsta stigi ekki nýtt meira, þ.e.a.s. sú aðstaða sem þau búa yfir og t.d. verkennsla fari þá meira fram þar á staðnum? Sem hluti af náminu. Fyrirtækin gætu jafnvel haft sérstök náms-og tilraunasvæði og verið þannig í beinum samskiptum við skólana og allir höfðu hag af. Hugsanlega fyrirtækin í formi skattaafsláttar ef þau væru treg til í upphafi. Bara hugmynd en ég held að fyrirtækin væru almennt til í slíkt samstarf og menn hætta þá að vinna hver í sínu horni enda fara nemendur hvort eð er beint að vinna hjá þessum sömu fyrirtækjum (flestum).
Skrifa ummæli