þriðjudagur, 16. september 2008

Nýju föt efnhagsspekinganna

Maður heggur eftir því að skyndilega er forsætisráðherra farinn að tala um að hluti ástæðna fyrir niðursveiflunni sé óstand á erlendum fjármálamarkaði. Hingað til hefur hann ásamt öðrum flokksmönnum sínum sífellt talað um að þetta sé alfarið komið erlendis frá. Eitthvað sem hann og stjórnendur íslensks efnahagslífs hafi ekkert með að gera.

Þeir eru allmargir hagfræðingarnir sem hafa á undanförnum misserum bent á að stjórnvöld hér heima hafi gert mistök. Viðtal Egils við Jónas virðist hafa endanlega gert út um það að Geir og félagar komist upp með þennan spunakennda málflutning sinn. Við blasir að aðvörunaorð um að betra væri að nýta það fjármagn sem færi í skattalækkanir til þess að búa ríkissjóð undir áföll voru rétt. Þegar þennslan er horfin duga tekjur ríkissjóðs vart fyrir útgjöldum og ríkisstjórnin þarf að taka lán á okurvöxtum.

Það bar mikið á eigin afrekum í lofræðum tiltekinna stjórnmálamanna í síðustu kosningum í stjórn efnahagsmála og glæsilegs árangurs fjármálamanna í skjóli þess ástands sem þeim hefði verið skapað. Ef einhverjir voguðu sér að benda á að þetta væri nú kannski allt eins glæsilegt að af væri látið, voru þeir hinir sömu umsvifalaust afgreiddir með því að þar færi öfundsjúkt vinstra lið. Skipti þar engu hvort viðkomandi hefði gefið síg út fyrir að vera með einhverja stjórnmálaskoðun yfir höfuð eða væri jafnvel félagsmaður í Flokknum. Enn ein rakalausa klisjan úr spunaverksmiðjunni Valhöll.

Nú blasir við öllum hvað fjármálasnillingarnir hafi verið að gera. Undirstaða brambolts þeirra eru lífeyrissjóðir launamanna. Þeir hinir sömu hafa ætíð hallmælt þessum sjóðum og verið jafnvel í fararbroddi fyrir því að brjóta þá á bak aftur, og færa lífeyrisparnað inn í bankana eða til erlendra lífeyrissjóða.

Starfsmenn Kaupþings voru í áróðursherferð um að launamenn ættu að gefa almennu lífeyrissjóðunum langt nef og ganga úr verkalýðsfélögunum. Þetta var purrkunalaust gert þó svo helstu afrek nýfrjálshyggjumanna hafa byggst á því að höndla með fyrirtæki og sjóði sem sem almenningur í landinu og samtök þeirra hafa byggt upp eins og Orkuveitan, bankana, Eimskip og Flugleiði. Hver eru afrekin og hvar lendir reikningurinn?

Margir halda því fram að þetta sé upphaf endaloka nýfrjálshyggjunnar.

Engin ummæli: