Upp úr kl.16.00 sér maður að fólki á leið heim úr vinnunni á reiðhjólum fer að fjölga á götum Kaupmannahafnar. Vinnuvikan á norðurlöndum utan Ísland er 40 klst. Á Íslandi er hún lengri, mun lengri. Vinnuvika íslenkra rafiðnaðarmanna var við síðustu könnun lok árs tæpir 46 tímar og hafði styst um 10 tíma það sem liðið er af þessari öld. Frá gerð þjóðarsáttar hafði meðalvinnuvikan styst hjá rafiðnaðarmönnum um 20 klst. Þetta er afleiðing stöðugleika og vaxandi kaupmáttar. Fólk gat gert langtíma áætlanir og stillti af greiðslubyrði heimilanna og stytti vinnuvikuna.
Smáhnykkur kom á 2000 – 2003 og á undanförnum árum hefur fólk í vaxandi mæli krafist þess að stjórnvöld tryggi áframhaldandi stöðugleika og nálgun þess efnahagsumhverfis sem svo margir kannast við frá hinum norðurlöndunum. Við vorum að sífellt að nálgast á hin norðurlöndin bæði hvað varðar kaupmátt og vinnutíma. En íslensk stjórnvöld brugðust og gerðu alvarleg mistök, sem allir hagfræðingar bentu á að myndi leiða til enn meiri spennu og hratt vaxandi hættu á harkalegri brotlendingu og ójöfnuður fór vaxandi. Þess var krafist að stjórnvöld gripu til varnaraðgerða, en þau gerðu ekkert, utan þess að hrósa sér fyrir mikla efnhagssnilli, sem var byggð á fölskum stoðum. Margir bentu á að svo væri en stjórnvöld og spunameistarar þeirra úthrópuðu þá með allskonar fúkyrðum.
Nú hefur kaupmáttur fallið á Íslandi um 10% og verðbólgan vex og er kominn upp 15%, ástæða er að geta þess að kaupmáttur hefur nánast staðið í stað á hinum norðurlöndunum og verðbólgan er innan við 5%. Ástæða þess að ég tak það fram er að sjálfstæðismenn klifa á því að þetta sé ekki þeim að kenna heldur erlend fjármálakreppa. Greiðslubyrði heimilanna eykst. Staða íslenskra launamanna krefst þess að þeir lengi aftur vinnuviku sína til þess að standa undir vaxandi greiðslubyrði. Nú drögumst við aftur úr félögum okkar á hinum norðurlöndunum og nálgumst kaupmáttinn eins og hann var 2003. Það þýðir meðalheimilið verður að lengja vinnuvikuna um 5 -6 klst. Fara að vinna um helgar og fram á kvöldin.
Það sem Jónas sagði í Silfrinu um helgina var vel fram sett stöðumat. Þar var ekkert nýtt á ferðinni, margir hafa bent á þetta á undanförnum árum. Ma. hér á þessari síðu þar sem rakin hafa verið gögn frá hagdeildum SA og ASÍ. Á stjórnarheimilinu ríkir það ástand eins og ráðherrar séu að sannfæra sjálfa sig og aðra um að þörf sé að grípa til samræmdra aðgerða og leita samráðs við aðila vinnumarkaðs. Þeir ásamt spunameisturum sinna eru að sannfæra sjálfa sig um að það sé frá þeim komið að gripið verði til aðgerða.
Lausnir efnahagssérfræðinga Sjálfstæðisflokksins hafa alla tíð verið þær sömu, kollsteypur, það á að redda málunum í einu skrefi. Skora 3 mörk í næstu sókn. Á meðan höfum við horft á félaga okkar á hinum norðurlöndum ganga af festu og með jöfnum gangi fram. Þar ríkir ögun og stjórnmálamenn virða það aðhald sem þeim er veitt andstætt því sem hér er. Verðbólgu er haldið innan við 5% og yfirleitt um 2 – 3% og vextir innan við 6%. Kaupmáttur hefur vaxið um 1.5 – 2.5% á ári. Stöðugleiki. Á þennan hátt hafa þeir sigið fram úr okkur. Á þessu átti verða breyting með sameiginlegu átaki í Þjóðarsátt, en stjórnmálamennirnir okkar misstu móðinn og duttu inn í sama farið aftur. Ítrekað hafa aðilar vinnumarkaðs þurft að þvinga fram efnahagsaðgerðir við gerð kjarasamninga og endurskoðun þeirra, eins og þú lesandi góður mannst örugglega.
Efnahagsstjórn íslenskra stjórnmálamenn eru kollsteypur, skuttogara inn á alla firði á einu bretti, og svo nýjar hafnir á alla firði, og svo ný frystihús á alla firði. Og svo risastórt, á íslenskan mælikvarða, álver og hin stóra Búrfellsvirkjun keyrt í gegn á eins stuttum tíma og hægt er. Og þannig hefur þetta verið og nú á að keyra í gegn tvöföldun álframleiðslunnar á 8 árum. Það var í fréttum í gær að Danir ætla að byggja eina brú yfir til Þýskalands til þess að flytja hæfilegt fjármagn inn í atvinnulífið, sú framkvæmd á að standa yfir í jafnlangan tíma.
Allt leikur á súðum og íslenska stjórnmálmenn skortir alla ögun og vilja til þess að leggja langtíma áætlanir og láta þær standast. Hér snýst byggist á glundroða, upphrópunum, valdabaráttu og klíkumyndunum. Rífa niður það sem hinir gerðu. Stórkarlalegar aðgerðir sem eiga að bjarga öllu á svipstundu, ef einhver mótmælir þá er að skríll. Þeir eru svo gjörsamlega sneiddir öllum tengslum við almenning í sinni veröld spunameistaranna og sérvalinna ráðgjafa.
Þeir vilja halda í krónuna svo hægt sé að viðhalda þessari veröld. Fella hana með tilheyrandi atvinnuleysi svo þeir geti á auðveldan hátt leiðrétta reglubundin efnahagsmistök sín með því að fara í rússibanaferð með heimili og fyrirtæki landsins. Fyrirtækin eru sum hver að hugsa sér til hreyfings og ég er næsta viss um að þegar heimilin fara að hrynja sem er reyndar að gerast þessa dagana þá muni margir flytja til hinna norðurlandanna. Þar er næg atvinna, stöðuleiki, meiri kaupmáttur og vinnuvikan er töluvert styttri.
"Nú er nóg komið", sagði Jónas við okkur í Silfrinu og við tökum heilshugar undir það. Við viljum ganga inn í umhverfi þar sem íslenskum stjórnmálamönnum eru settar þær skorður að þeir verði að fara að vanda sig í vinnunni og fá alvörufagfölk að efnhagstjórninni.
1 ummæli:
Mér er spurn hvort það tíðkist annars staðar í heiminum hvort þeir sem gegna störfum innan þýðingamikilla fyrirtækja og stofnana séu alls ekki hæfir í þau störf, en hafa hlotið þau út af tengingum sínum við stjórnmálaflokka ???????
Einhvernveginn held ég að ef það væri t.d. hagfræðingur eða viðskiptafræðingur við stjórnvölinn í seðlabankanum væri hann stofnun sem væri hægt að taka alvarlegar. Sama staða er uppi á teningnum hjá Landsvirkjun o.s.frv.
Þó hefur maður heyrt að einhverjir þeirra pólitískt skipuðu hafi staðið sig með ágætum, en kannski er það undantekning ?
Í barnslegri einfeldni ætlast maður til að æðstu stjórnendur stofnana/fyrirtækja hafi einhvern bakgrunn í þeirri iðn/þjónustu sem viðkomandi batterí veitir.
Kannski er þetta bara naívt - ég veit það ekki, en það er klárt mál að maður mun benda börnunum sínum á að mestu líkurnar til að ná frama í okkar þjóðfélagi sé að vera í stjórnmálum. Það er merki um spillingarlaust þjóðfélag !?!
Skrifa ummæli