sunnudagur, 7. september 2008

Hvað svo?

Mörgum er vafalaust vel í minni ítrekuð upphlaup og upphrópanir Sjálfstæðismanna vegna hinna svokölluðu Baugsmiðla. Þar sem þeir voru sakaðir um að birta einungis það sem væru eigendum þóknanlegt og sannleikurinn skrumskældur. Síðan var bent á einhver fáfengileg dæmi sem áttu að sanna þetta.

Þetta átti að vera næg ástæða til þess að semja í snarhasti fjölmiðlalög til þess að koma böndum á þessa miðla. Þessa dagana er sífellt að koma betur í ljós að hinir hatrömu hefðu átt að líta sér nær. Miðlar undir stjórn manna frá Flokknum hafa gengið mjög langt í að stinga undan fréttum sem þeim þóttu ekki „heppilegar“.

Reyndar er nú svo komið að allir fjölmiðlar og ljósvakamiðlar eru undir ritstjórn manna úr sama stjórnmálaflokk, líka hinir svokölluðu Baugsmiðlar. Samfara því hafa upphrópanirnar þagnað. Og við heyrum að sú iðja sé stunduð að flokka fréttir og ef fréttamenn eru óvægnir við stjórnmálamenn Flokksins þá eru þeir settir í skammarkrókinn.

Ísköld niðurstaða hvert nýfrjálshyggjan hefur leitt okkur blasir nú við. Við erum orðin skuldugasta þjóð í heimi, þær eignir sem snillingarnir okkar tóku erlend lán fjárfestu í eru ekki eins sniðug og haldið var að okkur. Það mun taka okkur langan tíma að komast út úr þessari stöðu. Það mun bitna harðast á fjölskyldum og heimilum þessa lands.

Af hverju hafa fjölmiðlarnir ekki tekið á þessu og af hverju hafa þeir ekki farið yfir feril þessara mála? Hverjir það voru sem slepptu auðhyggjumönnunum, seldu þeim bankana og breyttu bindiskyldunni og slepptu peningastrákunum á lausum á kostnað þjóðarinnar? Hverjir voru það sem héldu hástemmdar ræður um hversu mikil snilld væri í þessari stjórnarstefnu?

Við blasir vaxandi verðbólga, hækkandi vextir, minnkandi kaupmáttur. Og því er haldið að okkur að það sé engin kreppa. Leiðin sé að byggja nokkar gufuaflsvikjanir á Reykjanesinu og á svæðinu fyrir ofan Mývatn. 4 vatnsaflsvirkjanir í Þjórsá og eina fyrir vestan og í Skagafirði. 2 ný álver og stækkun þeirra sem fyrir eru. Þetta á að gerast á næstu 10 árum, það mun skapa öllum fulla vinnu og líklega upp undir 30 þús. erlendum launamönnum og gríðarlega þennslu.

Hvað svo? Getum við ekki fengið alvörustjórnmálamen og fagmenn í peningastjórnina.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ástandið í fjölmiðlamálum hér er hrikalegt. Síðan er fjölmiðlarnir beinlínis lélegir.
Dagblöðin eru ótrúlega léleg, yfirborðskennd og algjörlega laus við að vera áhugaverð.

Nafnlaus sagði...

Fréttastofa Sjónvarps ætti að vera öflugasti miðill landsmanna, en er bara varnarmúr spilltra valdsmanna.

Mesti auminginn meðal íslenskra fréttamiðla.

Frelsum fréttastofu Sjónvarpsins. Við eigum hana. Ekki FLOKKURINN.

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Ég verð oft orðlaus af undrun yfir grímulausri vinstri mennsku fjölmiðlanna. Er samt ekki að tuða yfir því á torgum. Takið nú saman álitsgjafa og pistlahöfunda fjölmiðla og flokkið eftir FLOKKNUM og svo hinum. Kæmi ekki á óvart að hinir væru 90% af atvinnubullukollum þessa lands. Munið svo að samkvæmt alþjóðlegri samantekt er Ísland minnst spillta land í heimi. Eruð þið kannski með aðra og betri mælikvarða.

Steinþór