sunnudagur, 14. september 2008

Barnaskapur Sigurðar Kára

Það er ótrúleg reyndar barnaleg einföldun hjá Sigurði Kára og skoðanabræðrum hans að samtök launamanna eigi ekki að skipta sér að neinu nema gerð kjarasamninga. Þá virðist hann eiga við að samtök launamanna eigi að fjalla um launaflokka og ekkert annað. Það er nefnilega þannig að stjórnvöld hafa ítrekað gripið til aðgerða sem skerða kjör launamanna sem verður að bregðast við. Eins og t.d. Pétur félagi Sigurðar kom inn á að það væri hluti af efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins að lækka gengið ef verkalýðfélögin nái of góðum árangri að mati Flokksins.

Þetta er enn ein klisjan sem öfgakenndir hægri menn klifa á þar sem hlutunum er snúið á haus. Öll munum við þegar þeir hvetja launamenn til þess að raska ekki stöðugleikanum með of miklum launahækkunum, það valdi bara meiri verðbólgu og lækkun kaupmáttar. En daginn eftir að búið er að ganga frá kjarasamningum byrja þeir að klifa á að samtök launamanna séu óþörf, þau geri lélega samninga, launin séu lág og fleira í þeim dúr.

Það hefur nú oft verið niðurstaða við gerð kjarasamninga og ekki síður við endurskoðun þeirra að aðrar aðgerðir en beinar launahækkanir komi launamönnum betur. Eins að það væri heppilegra fyrir hagkerfið, sem skilaði sér í stöðugleika og tryggði kaupmátt.
Það er yfirlýst og margsamþykkt stefna samtaka launamanna að byggja á samtrygginu og félagshyggju. Það fer vitanlega fyrir brjóstið á öfgafullum hægri mönnum og þeir vilja koma í veg fyrir að launamenn geti beitt samtakamætti sínum gegn sérhyggju og auðsöfnun fárra á kostnað almennings. Launamenn hafa haft forystu um að móta hið norræna samfélag með beinum afskiptum af stjórnmálum. Þetta norræna samfélag er nú fyrirmynd allra annarra en nýfrjálshyggjumanna.

Þetta kom reyndar einnig fram hjá forsætisráðherra þegar hann gagnrýndi að samtök launamanna og fyrirtækja hefðu á því skoðun hvernig komast mætti út úr þeirri sjálfheldu og kjaraskerðingu sem krónan veldur. Ótrúlegt að forsætisráðherra segi þetta, en skýrist af þeim innanhúsvanda sem Flokkurinn býr við. En það var sterkt hjá Geir hvernig hann tók á grein Óla um flokkinn og sýnir vel hvernig sá armur er að einangrast innan Flokksins. Geir komst að mörgu leiti vel frá Silfrinu og ef hann losar sig við frjálshyggjuarminn er klárt að Flokknum myndi vegna betur.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sjálfstæðisflokkurinn hefur sama markmið og Föðurlandsflokkur Pútins: Halda völdum hvað sem það kostar!

Nafnlaus sagði...

Það er ekkert barnalegt við þetta hjá Sigurði, honum tókst það sem hann ætlaði sér, að sleppa því að ræða efnislega um nýju sjúkratryggingalögin.

Hann er hægriöfgamaður en ekki vitlaus, því miður.

Hörður.

Nafnlaus sagði...

Nú reynir á ykkur í ASI og SA að klara þetta mál og koma gjaldmiðlamálum í góðan farveg.

Þið hafið meirihluta þjóðarinnar með ykkur ekki ráðherrarnir. Það hlustar enginn á þeirra veiku rök lengur.

Það tekur allt of langan tíma að bíða eftir að skipt sé um stjórn, fyrst Samfylkingin hefur ekki dug í sér að leiða til breytinga, t.d. með því að berja í borðið og hóta því að sprengja stjórnina.

Nafnlaus sagði...

Hef ekki myndað mér nægilega góða skoðun á hvort Ísland eigi að taka upp Evru eða ekki. Þetta er tæknilega MJÖG flókið mál með mikið af tæknilegum kostum og göllum.
En hvað er að gerast á Spáni núna? Maður er að heyra að þar sé allt í klandri vegna þess að þeir hafa engin vopn til að bregðast við niðursveiflunni sinni. Seðlabanki Evrópu segist ekkert ætla að blanda sér í málið, ekki frekar en íslenski Seðlabankinn myndi blanda sér í málin þótt áraði illa í litlu þorpi á landsbyggðinni.
Það eru bæði plúsar og mínusar í þessu öllu saman og við megum fyrir hvorugu loka augunum í heilaþvættinum.

Nafnlaus sagði...

Menn meiga ekki halda það að taka upp evru bjargi einhverju. Það verður að vera stjórn á efnahagsmálunum. Hana hefur vantað í lengri tíma. Evran ein og sér breytir engu. Ef Guðmundur myndi breyta um nafn þá er ég viss um að hann myndi ekki breytast neitt.Sama er með myntina við þurfum að breyta svo mörgu til að taka upp evru og allt er það á sömu bókina það er að fara að stjórna efnahgsmálum. Kveðja Simmi

Nafnlaus sagði...

Að sjálfsögðu myndi það breyta mjög miklu að taka upp nýjan gjaldmiðil. Ég hef búið erlendis og verið með lán þar á 3,5% vöxtum án verðbóta.

Einkennilegt að tala um nafnabreytingu. Það gildir líka framboð og eftirspurn um gjalmiðla.