sunnudagur, 14. september 2008

Krónuna svo halda megi launum niðri

Það er hægt að taka nokkur ummæli í þessari viku frá forystumönnum Flokksins og skrifa pistla um þau. Ákveðin hópur sjálfstæðismanna fjallar um stjórnmál út frá þeirri sjálfumglöðu stöðu að sú stefna sem þeir hafi sé hin rétta, aðrir eru í vinstra liðinu og hafa rangt fyrir sér. Eru Thalibanar eins og þekkur lögmaður kallar þá sem ekki eru honum sammála í sinni öfgafullu hægri trú. Og þar með þarf ekki að ræða málið frekar að þeirra mati. Þetta er eins og bandaríska trúarbragðaumræðan sem stjórnar Repúblikanaflokknum. Eða eins og umræðan um fótbolta, þú heldur með þínu liði sama á hverju gengur.

Óli Björn endurspeglar þetta ákaflega vel í ummælum í þessari viku. Þegar hann ásamt nokkrum öfgafullum hægri mönnum stjórnaði DV þá snérist umfjöllun blaðsins um að koma þessum sjónarmiðum fram. Gengið var svo langt, eins og kom fram hjá blaðamönnum sem hættu á DV, að umskrifa fréttir og viðtöl ef þau þóttu ganga gegn Flokknum. Einn manna Óla gekkst svo upp í því þegar þeir voru komnir á Viðskiptablaðið að gefa út gagnrýni á fréttaumfjöllun annarra blaðamanna!! Það er nú svo að margir hafa yfirgefið Flokkinn vegna þess að sjónarmið þessara manna hafa verið sett fram sem hin eina rétta stefna Flokksins.

Stefna Flokksins í efnhags- og peningamálum hefur ekki gengið upp og veldur mörgum heimilum og fyrirtækjum miklum skaða þessa dagana. Það er ekki bara erlend efnahagskreppa eins og Flokkurinn tönglast á í vandræðagangi sínum. Efnahagsákvarðanir eins og skattalækkanir og 90% lán í húsnæðismálum voru þær verstu sem hægt var að taka. Það blasir líka við að stefna Flokksins í Evrópumálum er röng, en þeim er um megn að viðurkenna það.

Talandi um ummæli Flokksmanna þá sagði einn helsti efnahagspostuli Flokksins, Pétur Blöndal, í viðtali við Fréttablaðið í vikunni að ekki væri hægt að sleppa krónunni, því þá væri ekki hægt að grípa til gengisfellinga í kjölfar óskynsamlegra kjarasamninga. Þetta sjónarmið hefur einnig komið fram nokkrum sinnum hjá forsætisráðherra. Þetta gengur þvert á eina af helstu klisjum Péturs og nokkurra spekinga Flokksins; að það sé verkalýðshreyfingunni til skammar hversu lág launin séu í landinu. Önnur algeng klisja hjá Flokknum er að aðilar vinnumarkaðsins eigi að semja sjálfir um laun og kjör án þess að vera trufla ríkisvaldið í sambandi við það.

Þessir menn vilja viðhalda ónýtri krónu til þess eins að tryggja völd sín og stöðu. Þeir vilja ekki að launamenn og fyrirtæki geti afskiptalaust samið um kaup og kjör. Þeir halda launum hér á landi niðri vegna þess að það er þeirra hagur. Þetta er reyndar mjög þekkt afstaða nýfrjálshyggjumanna um alla veröld. Það að launamenn myndi samtök til þess að verja kjör sín er eitur í þeirra beinum. Einnig má benda á hverjir það eru sem eru fjölmiðlafulltrúar þeirra fyrirtækja sem hafa gengið lengst gegn kjörum launamanna og hvaðan þeir lögmenn koma sem beita öllum brögðum í bókinni til þess að verja þessi fyrirtæki. Þeir eru svo fengnir sem álitsgjafar í Kastljósið um kjör launamanna!!

Pétur Blöndal tekur af öll tvímæli um þetta. Það er þetta ásamt spillingu sem veldur því að fylgið hrynur. En eftir sitja tæplega 30%, þeir sem hafa hag af núverandi ástandi, ásamt nokkrum sem myndu kjósa kókkassa athugasemdalaust ef Flokkurinn stillti honum upp í framboði.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Halda þarf því til haga að helstu samtök atvinnulífsins eru reyndar sammála þér um að krónan sé ónýt og um leið í stóru ósammála núvernandi valdakjarna Sjálfstæðisflokksins.

Þanng er þessi "krónustefna" ekki stefna samtaka fyrirtækja (nema ef til vill LIU) og því einnkastefna minnihluta.

Las einnig þessi ummæli Péturs og fannst þau fráleit.

Nafnlaus sagði...

Það verður að segjast eins og er að hagsmnunir atvinnurekenda og launafólks eru þeir sömu: stöðugleiki og lítil verðbólga. En svo eru hagsmunir stjórnmálamanna (flokksins). Þeirra hagsmunir eru völd. Hvað eru meiri völd en að hafa lífsafkomu fjöldans í hendi sér? Flokkurinn sér fram á það að missa völd ef við göngum í ESB. Ákvarðanir Flokksins á landsfundi eru ekki lengur lög í landinu. Þetta eru óhusandi fyrir valdaklíku flokksins !!!