laugardagur, 13. september 2008

Störf lögreglunnar

Ég er ekki sammála þeirri neikvæðu umræðu sem störf lögreglumanna fá. Það eru reglur í landinu. Þessar reglur eru settar vegna þess að einhverjir eru að reyna að komast upp með athafnir sem ekki eru réttmættar gagnvart rétti annarra. Svo ég noti myndlíkingu; þá gengi það ekki ef einungis annað liðið þyrfti að hlusta á dómarann.

Í þeim hóp sem hingað leitar eru því miður einstaklingar sem ekki eiga neitt erindi. En þessir einstaklingar beita öllum brögðum í bókinni til þess að komast hjá þeim reglum sem við höfum sett, auk þess eru fyrir því rökstuddar ástæður að ætla megi að sumir þeirra hafi ekki hreint mjöl í pokahorninu. Þessir einstaklingar eru hér á kostnað skattborgara og beita öllum brögðum til þess að lengja þann tíma. Þetta bitnar á hinum saklausu. Eins og alltaf - því miður.

Vitanlega er það svo að þeim hinum saklausu finnst það óþægilegt að þeir fái ekki réttláta meðferð. En því miður er það svo að 95% þurfa sífellt að líða fyrir athafnir 5% hlutans og það er vegna athafna þeirra sem sífellt þarf að setja strangari reglur og efla eftirlit. Það hjálpar sannarlega ekki lögreglunni, að í hvert skipti sem hún þarf að grípa til vopna sinna þá rjúki fjölmiðlar upp og stilli málum þannig upp að þetta hafi nú verið óþarfi og of harkalega að málum staðið. Það má t.d. færa rök fyrir því að viðhorf ungu tuddanna sem vaða um miðbæinn um helgar mótist af því hvernig fréttamenn taka á þessum málum. T.d. kom fram í ágætu yfirliti stöðvar 2 nýverið um störf lögreglunnar í miðbænum um helgarnætur, öskur ungs tudda um að honum bæri einhver skylda til þess að lumbra á löggunni af því hún hefði verið svo vond eins komið hefði fram í sjónvarpinu.

Ekki er ólíklegt að viðhorf mitt sé litað af því að ég starfa að vissu leiti við svipaðar aðstæður. Ég get fullvissað þig lesandi góður að þeir sem eru að eigin mati algjörlega saklausir í framkomu gagnvart launamönnum og standa ásamt lögmanni sínum í fjölmiðlum eins og hvít lamb í vorsólinni og úthrópa starfsmenn stéttarfélaganna; þessir hinir sömu hafa undantekningalaust. já ég segi undantekningalaust, reynst vera þeir sem voru sekastir. Svo einkennilegt sem það nú er þá sjá fréttastjórar aldrei ástæðu til þess að fara yfir málalyktir þegar þær liggja fyrir ef þær verða þannig að í ljós kemur að áður hefðu þeir staðið að bullfrétt þar sem rangar ásakanir höfðu verið settar fram gagnvart stéttarfélögunum. Það er kannski birt örstutt málsgrein í tíufréttunum. Ég hef áður fjallað um þetta hér á síðunni.

Það verður sífellt erfiðara að manna lögregluna. Launin eru léleg sé litið til álags. Launin eru jafnvel lélegri en laun fréttamanna og ekki hafa þeir nú verið að reisa fánaborgir og hrópað ferfallt húrra fyrir laununum sínum á þeim starfsmannafundum sem ég hef verið á í Efstaleitinu í hinu tiltölulega verndaða umhverfi séu störf þeirra borin saman við störf lögreglunnar. Það er ekki viðunandi fyrir lögreglumenn að þurfa að sætta sig við þá afstöðu sem sumir dagskrárgerðamenn stilla ætíð upp. Þar bendi ég t.d. á þá afstöðu sem fram hefur komið í síðdegisútvarpi RÚV í þessari viku. Einnig vantaði upp á að viðhorf Útlendingaeftirlits og lögreglu fylgdu með í umfjöllum í fréttum.

Í þessu sambandi má einnig benda á hvernig fjölmiðlamenn fjalla ætíð um slys sem eiga sér stað á sundstöðum, þeir hengja alla ábyrgð ætíð á starfsmenn sundlauganna. Hver er ábyrgð foreldra eða umsjónarmanna ungra barna? Hvernig haldið þið að sálarástand starfsmanna sundlauganna sé að sitja undir svona umfjöllum? Hvernig haldið þið að lögreglumönnum líði að þurfa að sitja undir þessu? Hvernig haldið þið að starfsmönnum stéttarfélaga líði þegar þeir eru úthrópaðir í fréttum, og svo kemur í ljós að sá sem úthrópaði þá í beinni útsendingu á besta tíma eða fékk góðan tíma í Kastljósinu, hafði farið með tóma þvælu og þá er ekki fjallað um málið.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sigurður Þór hitti naglann á höfuðið:

http://nimbus.blog.is/blog/nimbus/entry/640710/

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Rétt Guðmundur. Takk.

Nafnlaus sagði...

Já þau störf sem lögreglan er að vinna eru oftast ekki metinn af verðleikum og eru þau störf ekki ósvipuð og störf ljómæðra. Illa launuð enn oft unnin af hugsjón. Í mogganum í dag eru ekki fagrar lýsingar á því sem þau lenda í og er ég viss um að þar komi ekki allt fram. Þeir dómar sem hafa verið í þeim málum er ekki þeim sem dæma til mikils sóma. Enn svo má segja fréttamönnum til málsbóta að þeir hafa ósköp lítið um að velja annað enn að vera þægir, því ef þeir eru aðgangsharðir þá standa fréttastjórar og við sem almeningur ekkert með þeim. Ætli það megi ekki segja að við fáum stjórnmálamenn og fréttamenn einsog við eigum skilið. Hvað er fjallað um þau mál sem okkur skiftir? Til dæmis hvað er að gerast hjá Eimskip, Landsbankanum og Straumi. Á moggin að fara að fjalla um þau mál og komast að einhverju sem ekkir þolir dagsljósið? Hvað haldið þið að eigandinn myndi gera þá ? Held að Björgúlfur yrði ekki hress og viðkomdi frétta maður yrði látin eftirleiðis skrifa fréttir um Paris Hilton eða álíka spennandi mál. Og við stæðum ekki með viðkomandi fréttamanni, allir myndu áfram kaupa moggan og bölva í hljóði.