fimmtudagur, 30. apríl 2009

1. maí

Það blasir við að minnka verður gríðarlegan halla þjóðarbúsins með miklum og sársaukafullum niðurskurði. Samfara því verður að auka tekjur ríkissjóðs. Til þess að minnka vaxtagreiðslur á erlendum skuldum skiptir miklu að ríkisfjármálin verði tekin föstum tökum á næstu fjárlagaárum. Það þarf pólitískan kjark til þess að taka á vandanum og mun reyna mikið á þá ríkisstjórn sem verður við stjórnvölinn næstu misseri. Nú eru gullnir tímar yfirboða og fagurgala tækifærissinna, sem hafa nýtt sér stöðuna til þess að arka fram á sjónarsviðið með ómerkilegar skyndilausnir.

Til lengri tíma verður að líta til þess að hér verði gjaldmiðill sem bíður upp á stöðugleika. Verðbólga verði það lág að vextir verði innan við 4,5% og verðtrygging afnuminn. Það þarf að skapa 20 þús. störf á næstu fjórum árum svo atvinnuleysi verði komið niður fyrir 5%. Ef það tekst munum við á árinu 2013 hafa endurheimt þau lífskjör sem við bjuggum við á síðasta ári. Eigi þessi markmið að nást verðum við að endurheimta traust og tiltrú á íslenskt efnahagslíf, þannig að fjárfestar setji fjármuni til uppbyggingar hér á landi og lánaviðskipti við erlenda banka komist í eðlilegt horf.

Krónan hefur reynst okkur ákaflega dýrkeypt. Hún hefur stuðlað að miklum sveiflum vegna agalausrar hagstjórnar. Sveiflurnar hafa kallað á að meðaltali 3,5% hærri vexti en þeir þyrftu að vera og verðtryggingu. Nærtækasti kosturinn er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og láta reyna á hvert við komumst í slíkum viðræðum um forræði í auðlindamálum. Það eru nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort við eigum kost á ásættanlegri lausn.

Gildismat hefur breyst á undangengnum áratugum. Hógværð hefur vikið fyrir öðrum gildum. Krafan hefur verið um endalausa velgengni. Hún var sköpuð með Barbabrellum í bókhaldi og skammtíma hagræðingu. Gróinn fyrirtæki voru bútuð niður og seld skúffufyrirtækjum, sem tóku lán og keyptu hlutabréf í sjálfum sér. Eignir móðurfyrirtækja jukust í bókhaldi og sköpuðu rými til enn frekari skuldsetningar. Fjármunum var pumpað út íslenska hagkerfinu og fluttir í skattaskjól. Það er skoðun þessara manna að það sé hlutverk annarra að greiða skatta til samfélagsins og standa undir menntakerfinu, heilbrigðisþjónustunni og samgöngukerfinu. Og það sé annarra að greiða þær skuldir sem þeir skilja eftir sig.

Alvarlegasta ógnunin við framtíð Íslands er skuldsetning hugarfarsins þar sem vantrú ríkir á öllu sem viðkemur einkaframtaki. Við þurfum hugarfarsbreytingu ef atvinnulífið á að skapa 20 þúsund störf fyrir árið 2013. Það gerist ekki með því að fjölga störfum hjá ríkinu, það gerist í atvinnulífinu. Við eigum að leggja áherslu á að laða fram áræðni og frumkvæði.

Þýðingarmesta verkefni okkar er að stuðla að víðtækri sátt um stöðugleika. Styrkleiki okkar liggur meðal annars í miklum náttúruauðlindum, sterkum lífeyrissjóðum, hlutfallslega meira af ungu fólki en hjá öðrum Evrópuþjóðum. Helsti styrkleiki þjóðarinnar liggur í hugarfari; þrautseigju og mestu atvinnuþátttöku sem þekkist í vestrænu landi. Við megum ekki missa þennan styrkleika niður.

Við höfum engan tíma til þess að hrinda þessu af stað.

1 ummæli:

Héðinn Björnsson sagði...

Til þess að hægt verði að endurheimta lífskjör fyrri ára verður að minnka skuldabyrgði heimila.