mánudagur, 30. mars 2009

Smjörklípustjórnmál

Hér býr þjóð sem hefur á undanförnum 3 kjörtímabilum valið sér stjórnmálamenn sem fullkomlega misstu stjórn á efnahagsmálum, seldu einkavinum bankana og slepptu þeim lausum. Stjórnmálamennirnir fóru með fjárglæframönnunum í glansferðir um veröldina og sögðust hafa byggt upp íslenskt efnhagsundur. Þeir koma nú fram hver af öðrum og draga upp úr höttum sínum ýmislegt dót eins og bolta og kanínur. Sumar kanínurnar eru meir að segja stórar. „Á ég að setja 20% af skuldum allra í hattinn og „Púff!“

Það stefnir í 170 milljarða halla á ríkisbúskapnum. Ríki og sveitarfélög eru að ryksuga alla fjármuni í landinu. Skuldirnar stefna í 1700 milljarða og vextir verða 86 milljarðar. Vextir eru orðnir þriðji stærsti þáttur útgjalda ríkisins. Ef okkur á að takast að minnka skuldir okkar verður að auka framleiðsluna og þjóðartekjurnar. Ef tækist að auka trúverðugleika og lækka vexti á erlendum skuldum um 1% þá lækka vaxtaútgjöld um 17 milljarða. Álíka mikið og kostar að reka framhaldsskólann.

Það er eins og sumir stjórnmálamenn trúi því að það sé sjálfgefið að okkur takist að rísa upp. Þeir tala meir að segja þannig að ekkert sérstakt hafi gerst. Þeir hafi ekki gert nein sérstök mistök og þeir þurfi ekki að setja fram neina sérstaka stefnu. Krónan hafi bara reynst vel og á tímum hennar höfum við orðið rík. Svo rík að sumir töldu sig ekki þurfa að bíða eftir nýju dýru og flottu bílunum og fluttu þá heim í flugvélum, það tók svo langan tíma að bíða eftir skipum.

Hvernig í veröldinni eigum við að byggja upp trúverðugleika með krónunni og sömu stjórnmálamönnunum? Stjórnmálamenn vilja hafa krónuna svo þeir geti haldið áfram að hylja mistök sín með því einu að fella lífskjörin, ein sog svo oft áður og senda svo verkalýðsfélögunum tóninn og skamma þau fyrir slappa kjarasamninga. Fara svo baksviðs glottandi, framlag þeirra eitt = smjörklípa.

Það er engin önnur lausn í framboði til aukins stöðugleika önnur en Evran. Það tekst ekki að fá nauðsynleg lán og erlenda fjárfesta til þess að koma hingað til uppbyggingar án þess að gefa það upp að við stefnum að losa okkur við krónuna við fyrsta tækifæri.

5 ummæli:

Beta sagði...

Fínt að þú birtir ekki þær athugasemdir sem halla á lífeyrissjóði eða verkalýðsfélög eða ASÍ. En er ekki ansi langt gengið að saka alla aðra um að fara í utanlandsferðir en verja vitleysuna sem viðgengst í áðurnefndum grúppum?

Nafnlaus sagði...

Gömlu bankarnir seldu lánin til nýju bankanna með 50% afföllum þ.e. nýji bankinn reiknar með að helmingur lánanna innheimtist.... hitt ekki... finnst þér það ekkert alvarleg staða?

Eina sem Samfylkingunni og Vg dettur í hug er að ræna lifeyrissjóðina til að minnka þessa tölu....

Hvernig telur þú að við getum náð þessari tölu upp þ.e. að meira en 50% innheimtist svo við lendum ekki í að borga skaðann?

Guðmundur sagði...

Heyrðu Beta - lestu ekki pistlana sem eru hér - einhvern veginn virðist það ekki vera nema þá með því hugarfari að að allt snúi að verkalýðshreyfingunni - lastu t.d. pistilinn um siðbótina frá því í fyrradag - það hefur margoft komið fram gagnrýni á ofurlaun og listireisur allra - það hefur einnig komið fram gagnrýni á t.d. fólk eins og þig sem einvörðungu hefur beint spjótum sínum með alhæfingum að verkalýðshreyfingunni en aldrei minnst á aðra

Nafnlaus sagði...

Sem launþegi og virkur félagi innan mínns stéttarfélags í 20.ár finnst mér skrýtið að sjá hjá forustu ASÍ leggja þessa miklu áherslu á að ganga inn í ESB. Eftir því sem ég kemst næst erum við langt frá því að uppfylla þau skilyrði sem við þurfum til þess að komast þangað inn. Menn eiga að sameinast um að greina vanda heimilana sem er mjög auðvelt núna þegar fólk er nýbúið aðskila inn skattaskýrlsum. Þar sjá menn hvað það kostar að aðstoða fólk. Það þarf einnig að huga að fyrirtækjunum. Þjóðin á líka rétt á að vita hvað mikið að skuldum óreiðu mannana hún þarf að borga. Þjóðin á líka rétt á að vita fyrir kosningar hvar þeir stjórnmálaflokkar sem eru í framboði fyrir kosningarnar í vor ætla að skera niður. Það gera sér allir grein fyrir því að það verður að skera niður ríkisútgjöld og því skora ég á alla stjórnmálaflokka að byrja endurreisn á nýja Íslandi með því að segja okkur sannleikan.

Beta sagði...

Heyrðu karlinn ég beini víst spjótum mínum að fleirum en verkalýðshreyfingunni! Ég vil velferð fólksins. Bankatoppar, stjórnmálamenn, verkalýðshreyfingar, lífeyrissjóðir þessar sellur hafa allar meira og minna brugðist. Við vitum sem er að þegar maður verður innvinklaður í pólitískt afl eða annars konar hreyfingar tapast oft sú sannfæring sem var lagt af stað með. Guðmundur erum við ekki sammála um það að aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru ekki nógu góðar? Það er ekki verið að koma með lausnir sem fyrirbyggja vanda ónei ...