sunnudagur, 12. apríl 2009

Pólitísk stefna til sölu

Þær voru um margt harla einkennilegar yfirlýsingar Guðlaugs Þórs, formanns Sjálfstæðisflokksins og nokkurra annarra þingmanna flokksins í fréttunum í gærkvöldi, í kjölfar þess að tveir menn gáfu út yfirlýsingu um að þeir hafi farið að beiðni Guðlaugs um að fá tugmilljóna styrki frá fyrirtækjum. Þar með fannst Guðlaugi og félögum málið afgreitt og það myndi ekki hafa neinar afleiðingar. Þetta segir okkur allt um virðingu þessara manna fyrir kjósendum.

Á sama tíma og unnið er að því baksviðs að hesthúsa tugmilljóna styrki eru þessir hinir sömu þingmenn á hinu hæstvirta Alþingi að vinna að lagasetningu reistri á þeim rökum að það sé óhæfa að fyrirtæki geti greitt stjórnmálaflokki stórar fjárhæðir og með því haft áhrif á pólitíska stefnu viðkomandi flokks.

"Minn Flokkur hefur ekkert að fela í fjármálum, en það verður að eyða tortryggni um fjármál stjórnmálaflokka," sagði Geir Haarde opinberlega um þetta, en skrapp svo baksviðs og tók við styrkjunum.

Fyrirtækin greiddu vitanlega þessar gríðarlegu fjárhæðir til Flokksins til þess að stuðla að pólitískri stefnu sem væri þeim þóknanleg, svo þau gætu haldið áfram að athafna sig í því umhverfi sem þau vildu hafa. Afskiptaleysi hins opinbera á fjármálamarkaði.

Öll vitum við hvernig þetta afskiptaleysi Flokksins og athafnir þessara fyrirtækja leiddi íslenska þjóð fram af hengifluginu án þess að það væri svo mikið sem millimeters bremsufar á bjargbrúninni. Lýsingar á því hafa verið í hverjum einasta fréttatíma í allan vetur.

Í fréttunum í gær var einnig fjallað um gríðarlega skuldsetningu stjórnmálaflokkanna. Óábyrg fjármálastjórn stjórnmálaflokka hefur sett pólitíska stefnumótun í þá stöðu að hún fer fram í boði fjármálamanna. Þrátt fyrir að stjórnmálaflokkarnir séu að fá gríðarlegar fjárhæðir úr ríkissjóð, sem hafa verið auknar reglulega á undanförnum árum.

Það breytir engu. Sett eru upp leikrit um heiðarleika og ábyrgð á Alþingi gagnvart kjósendum, en baksviðs fer fram uppboð á hinni pólitísku stefnu.

Og þingmönnunum sem voru í fréttunum í gærkvöldi fannst ekkert athugavert við þetta. Einungis væri verið að bjarga Flokknum þeirra út úr erfiðri fjármálastöðu, skítt með hvaða afleiðingar það hefði fyrir almenning.

4 ummæli:

breki karlsson sagði...

Það þurfti ekki að kaupa stefnu sjálfstæðisflokksins í einkavæðingamálum.

Ég er sannfærður um að verið var að tryggja úthlutun gersema með því að múta flokknum.

Guðmundur sagði...

Allavega að tryggja óbreytta stefnu í peninga- og efnahagsstjórn

Nafnlaus sagði...

Þetta mál og málþóf FLokksins vegna stjórnarskrárbreytingarinnar sýnir svart á hvítu hans innsta eðli.

Nafnlaus sagði...

Átti Guðlaugur Þór von á því að þessir menn færu að safna flöskum þegar hann bað ÞÁ um að útvega peninga?
Og svo trúir hann því að nú sé þetta bara grafið og gleymt og meinar þá væntanlega: í guðannabænum ekki róta meira í þessum pytti!!!