miðvikudagur, 22. apríl 2009

Ræðan á Sammálafundinum

Allnorkir hafa haft samband og beðið um ræðuna mína í Iðnó í gær. Hér er hún (reyndar aðeins ítarlegri) :

Ísland skuldar 1.500 milljarða eða rúmlega eina landsframleiðslu. Við eigum líklega fyrir vöxtunum af þessum lánum ef laun verða skorin niður og útgjöld til heilbrigðis og menntamála minnkuð, ekkert umfram það. Til þess að rífa landið upp þarf að fjölga störfum og auka útflutningstekjur. Forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem hafa tekið við aukningu á vinnumarkaði eru sammála um að það verði ekki gert með krónuna sem gjaldmiðil.

Viðhorf til Íslands eru neikvæð og þau litlu lán sem okkur standa til boða eru á mjög háum vöxtum, vegna þess háa áhættuálags sem við búum við. Það liggur fyrir að ef við breytum um stefnu munu viðhorf til okkar breytast, það hefur komið fram hjá m.a. Finnum og Svíum um aðstoð og lán á hagstæðari vöxtum.

Hrunbylgjan síðastliðið haust hitti hið erlenda lánsfé sem hér var og við töpuðum 80 milljörðum dollara af erlendu lánsfé. Bylgjan í haust lendir milliliðalaust á íslensku atvinnulífi og heimilum. Lykilfyrirtæki munu falla og algjört öngþveiti myndast og við blasir 10 - 15 ára lægð og fátækt.

Vaxtamunur milli Íslands og ESB landa er í dag 14%. Ef við værum með Evru núna værum við með um 3 - 4% verðbólgu, enga verðtryggingu og vexti á húsnæðislánum um 4% og í viðskiptum um 4 -5% og ekki væru hér gjaldeyrishöft. Kostnaður af krónunni er óheyrilegur. Fyrir hrun síðasta haust var vaxtamunur milli Íslands og ESB að jafnaði um 3 - 3,5%. Ef ekkert verður að gert hvað varðar gjaldmiðilinn getum í besta falli reiknað með að ná vaxtamun niður í 6%.

Reikningurinn vegna krónunnar er þar af leiðandi um 200 milljarða króna. Þetta jafngildir hvorki meira né minna en 25% af öllum launum í landinu! Það gefur auga leið að þessi kostnaður leggst á almenning í formi lægri launa, hærra verðlags, hærri skatta og/eða lægra þjónustustigs hins opinbera. Kaupmáttur hefur hrunið síðasta ár um 11% og við blasir að hann muni minnka enn frekar.

Í dag eru um 18 þús. íslendingar atvinnulausir. Inn á íslenskan vinnumarkað koma að meðaltali 2.500 árlega umfram þá sem hverfa af vinnumarkaðnum. Ef við ætlum að koma atvinnuleysi niður fyrir 3% á næstu 4 árum þurfum við að skapa um 22.000 ný störf á þeim tíma. Það þýðir að við þurfum hagvöxt af stærðargráðunni 4.5 - 5% sem er gríðarlega hátt.

Það vantar ekki fólk í fiskvinnslu eða landbúnað. Þar hefur ekki orðið nein fjölgun á undanförnum árum, frekar hið gagnstæða og er ekkert útlit fyrir fjölgun í þessum starfsgeirum. Sem talandi dæmi um atvinnuþróun á Íslandi má nefna að árið 1990 voru félagsmenn í Rafiðnaðarsambandinu um 2000, um 600 unnu í byggingariðnaði og svipaður fjöldi í útgerð, fiskvinnslu og landbúnaði. 300 unnu í orkugeiranum og um 500 tæknigeiranum.

Í dag eru rafiðnaðarmenn tæplega 7000. Ef við tökum stöðuna eins og hún var fyrir hrun það er september 2008 þá unnu um 700 í byggingariðnaði um 600 fyrirtækjum í fisk- og landbúnaðarfyrirtækjum og þjónustufyrirtækjum tengdum þessum atvinnugreinum. Í orkugeiranum vann um 300 manns eða óbreyttur fjöldi En það voru 5000 rafiðnaðarmenn í tæknigreinum. Öll fjölgunin hefur verið þar. Þetta eru lykilmenn tæknifyrirtækjanna og er sá hópur sem hefur mestu möguleikanna til þess að leita sér að störfum annarsstaðar. Þetta er sá hópur sem hefur best fylgst með tækniþróun með markvissri sókn í eftirmenntun.

Forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem hafa byggst upp á undanförnum árum eins og CCP, Marel, Össur og Actavis segja að krónan hafi reynst þeim mjög illa. Krónan sé ástæða þess að þessi fyrirtæki séu með mun fleiri starfsmenn erlendis en hér heima. Þau sjá ekki sína framtíð hér, þó svo þau vildu svo gjarnan. Ef haldið verði áfram á þessari braut verða þau að flytja höfuðstöðvar sína frá Íslandi, næsta vetri vegna þess að annars fá þau ekki nauðsynlega bankafyrirgreiðslu og geta ekki endurfjármagnað lán sín.

Eins og komið hefur fram hjá forsvarsmönnum þessara fyrirtækja að ef Evran hefði verið til staðar þá hefðu þessi fyrirtæki verið byggð næstum alfarið hér á landi og væru með mun fleiri starfsmenn hér heima, jafnvel á þriðja þúsund fleiri. Það hefði skapað afleiður í öðrum fyrirtækjum með enn fleiri störfum.

Næsta vetur verða öll helstu fyrirtækin að endurfjármagna sig og ef ekki verður búið að undirbúa þann jarðveg blasir við önnur bylgja hruns. Meðal þessara fyrirtækja eru Landsvirkjun, Orkuveitan og Hitaveita Suðurnesja. Hjá forsvarsmönnum þessara fyrirtækja hefur komið fram að þær lánasyrpur sem þau eru með vegna framkvæmda við virkjanir á undanförnum árum þurfi að endurfjármagna að mestu leiti næsta vetur.

Nú er svo komið að engin vildi lána Íslandi eða íslenskum fyrirtækjum nema á mjög háum vöxtum og áhættuálagi og veðum. Ekkert íslenskt fyrirtæki ræður við þær kröfur. Ef íslensk fyrirtæki ná ekki að endurfjármagna sig munu erlendir bankar gjaldfella allar skuldir. Það getur ekki leitt til annars en þeir nái undirtökum í m.a. íslensku orkufyrirtækjunum. Og þá eigum við ekki þær auðlindir lengur. Margir velta fyrir sér hvort við það séum við sem eigum kvótan eða hinir erlendu eigendur skuldahala útgerðarinnar.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er ljóst af nýrri skýrslu AGS að hagkerfi vesturlanda er helsjúkt. Fyrstu sjúkdómseinkennin voru hrunið á Íslandi. Það verða engin lán í boði þó við göngum inn í ESB. Það sem við þurfum núna er að borga gömlu lánin.

´Við eigum stórt en vanmetið tromp á hendi og það er samningsrétturinn að semja við frískari hagkerfi í öðrum heimsálfum. Þennan rétt getum við notað. Við jukum útflutning um 50% á síðasta ári og þurfum að fara að leita markaða.

Við eigum annað vanmetið tromp á hendi og það er hversu fá við erum. Við þurfum ekki að finna stóra markaði til að lifa af heimskrepuna.

Okkur vantar forystu til að sjá alla möguleikana. Við þurfum ekki aulalausnir eins og að hefja samningaumræður við ESB til að sjá hvað er í boði.

Sem sjálfstæð þjóð göngum við upprétt til samninga um áhugamál okkar í win win situation og höfum eitthvað að leggja fram ekki bara til að fá.

Svo er gott að gera sér grein fyrir því að á gildistíma EES samningsins hefur efnameira fólki fjölgað og það haft það gott, en efnaminna fólki hefur fjölgað meir og haft það verra á áhorfendapöllunum.

Nafnlaus sagði...

Ég var á fundinum í gær og langar til að biðja þig um að lesa þessa grein eftir Jóhannes Björn Lúðvíksson: http://vald.org/falid_vald/. Hún er mjög fróðleg og mikilvæg lesning fyrir þá sem hafa áhuga á að skoða allar hliðar málsins.