sunnudagur, 19. apríl 2009

Við erum íslendingar, aðrir eru það ekki

Kosningabaráttan er farinn af stað og ekki stendur á yfirlýsingum. „Hinir eru á móti Íslandi og öllu sem íslenskt er. Við viljum verja Ísland,“ sagði fyrrverandi ráðherra þeirrar ríkisstjórnar sem leiddi okkur út í mitt fenið í fyrra. Þetta er klárlega mesta lágkúran sem ég hef heyrt hingað til.

Íslenska krónan er ónýtur gjaldmiðill og með henni mun ekki fara fram lífnauðsynlegt endurreisnarstarf. Það er andstætt íslenskum hagsmunum að vilja drepa málinu á dreif með því að leggja enn einu sinni til einhliða upptöku Evru. En sumir eru svo litlir að geta ekki horfst í augu við eigin gjörðir og viðurkennt mistök. Sjónarmið þessa fyrrv. ráðherra eru að leiða Ísland í enn meiri glötun, það er hann sem fer á móti Íslandi og öllu sem íslenskt er. Atvinnulífið mun hrynja og við blasir fólksflótti frá landinu og langvarandi ofuratvinnuleysi.

Félagsmaður hafði samband við mig nú í vikunni og sagði að hann ásamt konunni væru búin panta orlofsferð suður á bóginn. Þau ættu töluvert af vildarpunktum og hann spurði; „Er ekki betra að ég greiði ferðina með laununum sem ég fæ útborgað næst, en geymi frekar vildarpunktana okkar. Þeir munu standa betur en allt útlit fyrir að krónan falli.“ Þetta segir allt um hvernig komið er fyrir krónunni í huga fólks, hún er ekki bara bönnuð í erlendum viðskiptum.

Við erum á leið í annað hrun í haust ef ekki verður gripið til aðgerða nú þegar. Það verður okkar eigin hrun, ekki á kostnað erlendra kröfuhafa eins og gerðist í haust. Þá munu innistæður í íslenskum bönkum ekki halda og ekki heldur eignir lífeyrissjóðanna. Í þeirri stöðu munu erlendir lánadrottnar taka bein veð í auðlindum okkar. Afstaða Sjálfstæðisflokksins er að leiða okkur í þá stöðu að innan skamms höfum við glatað öllum helstu virkjunum þessa lands, auk þess að kvótinn verður kominnn í hendur erlendra aðila.

Þjóðin getur komist hjá því - en til þess þarf djarfar ákvarðanir sem stjórnmálaflokkarnir virðast ekki færir um að ráða við. Við höfum byggt okkar þjóðfélag á sandi. Sumir stjórnmálamenn ætla að bjóða börnum okkar upp á slíkt hið sama, því þeir eru að verja hagsmuni fárra.

Við nýtum allan okkar starfsaldur til þess að kaupa íbúð og greiða í lífeyrissjóð og það verður skyndilega einskis virði vegna slakra stjórnmálamanna.

Þetta er það sem skilur svo glögglega á milli hinna gömlu rótföstu þjóðfélaga í Evrópu og svo Íslands. Þær hafa gjaldmiðla sem valda því að eignir standa af sér tímabundna niðursveiflu. En við höfum Matador peninga varða af Sjálfstæðisflokknum og sérsniðna fyrir lítinn hóp manna í útgerð svo framkvæma megi blóðsúthellingalausan niðurskurð á kjörum landsmanna gangi útgerðinni ekki allt í haginn.

Það leiðir til þess að aðrir í Evrópu standa betur en við í þó svo þar ríki niðursveifla. Það fólk byggir sín hús á steini og á sína fjármuni í tryggum gjaldeyri.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk Guðmundur fyrir að standa vaktina! Þetta er nákvæmlega málið og grafalvarlegt hvernig sumir (lesist Sjálfstæðisflokkurinn) hagræða staðreyndum og slá ryki í augu almennings í trausti þess að fólk viti ekki betur! Þetta hverfist um sérhagsmuni vs. almannahagsmuni.

Nafnlaus sagði...

Þakka þér kröftugar huvekjur. Er sammála hverju orði. Íslendingum er aðeins ein leið fær ef á að lyfta þjóðinni upp úr einangrun, fátækt og vesöld, aðild að ESB. Slær að mér óhug þó að þurfa að ganga inn í kjörklefann á laugardag með þá vitneskju í farteskinu að innan þeirrar ríkisstjórnar, sem væntanlega mun halda á fjöreggi þjóðarinnar eftir kosningar á laugardag, skuli ekki vera samstaða um að bjarga þjóðinni. Í stöðunni eins og hún er núna ættu allir þeir, sem bera hag Íslendinga, barna sinna og barnabarna fyrir brjósti, að greiða Samfylkingu atkvæði sitt og þar með aðildarviðræðum við ESB – hvar sem þeir annars hafa skipað sér í flokk á undanförnum árum. Sumum er það eflaust nauðugur kostur en nú er framtíð okkar í húfi og tíminn er naumur, aðeins þrír eða fjórir mánuðir.

Nafnlaus sagði...

Þetta er af bloggi Atla Rúnar Halldórssonar.
„Flokkarnir vilja ekki rugga bátum háttvirtra kjósenda með því að ræða kröfur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hvernig bregðast skuli við. Þegjandi samkomulag eru um að ýta slíkum leiðindum á undan sér þar til kjörklefunum hefur verið lokað og kastljós kynningarfunda í sjónvarpssal hafa verið slökkt. Aðgerðirnar sem grípa þarf til, svo fullnægt verið hákörlum sjóðsins, eru svo rosalegar að stjórnmálamennirnir voga ser ekki út í að viðra þær fyrr en þingkosningar eru afstaðnar. Þess vegna er ríkir þessi æpandi þögn um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í kosningabaráttunni.“
Hvort viljum við heldur að okkur sé stjórnað frá Brussel eða Washington? Málið er líklegra ekki flóknar en það.

ÞÚB

Nafnlaus sagði...

Hættum að segja: "slá ryki í augun"
VÍSVITANDI LYGI OG BLEKKINGAR
Látum þetta heita réttum nöfnum. Sjálfstæðisflokkurinn er eins og Mafían.