laugardagur, 18. apríl 2009

Við stöndum á nýrri bjargbrún

Ísland skuldar 1.100 milljarða. Við eigum líklega fyrir vöxtunum af þessum lánum ef laun verða skorin niður og útgjöld til heilbrigðis og menntamála minnkuð, ekkert umfram það. Til þess að rífa landið upp þarf að fjölga störfum og auka útflutningstekjur. Forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem hafa tekið við aukningu á vinnumarkaði eru sammála um að það verði ekki gert með krónuna sem gjaldmiðil.

Fyrirtækin, utan útgerðar eru sammála um að eina leið Íslands úr þessum vanda sé að hefja strax aðildarviðræður við ESB og stefna á upptöka Evru. Það muni endurvinna okkur nauðsynlegt traust, lækka vexti á erlendum lánum og skapa okkur stöðu til þess að semja um ásættanlegt greiðslu lána eða jafnvel niðurfellingu hluta þeirra.

Endurtekið útspil Sjálfstæðisflokksins um einhliða upptöku er fjarstæðukennt fálm. Þar er farið að sjónarmiðum LÍU, ekki annarra fyrirtækja. Sjálfstæðisflokkurinn er að einangrast og er í andstöðu við öll fyrirtækin nema útvegsmenn.

Með því að setja verndun hagsmuna LÍÚ fremst stefnir Flokkurinn þjóðinni í mikla hættu, tefur uppbyggingu efnahagslífsins og er að tryggja viðvarandi atvinnuleysi, lág laun og slakan kaupmátt. Áframhaldandi háa vexti og verðtryggingu.

Næsta vetur verða öll helstu fyrirtækin að endurfjármagna sig og ef ekki verður búið að undirbúa þann jarðveg blasir við önnur bylgja hruns. Sjálfstæðisflokkurinn kann tökin á því að undirbúa slíkt og ætlar að því virðist að endurtaka leikinn.

Svo var komið síðasta haust að engin vildi lána Íslandi, nema við myndum undirgangast skilyrði IMF. Ekki einu sinni hin norðurlöndin vildu lána okkur krónu. Það varð að þvinga íslensk stjórnvöld til þess að breyta um stefnu. Þrátt fyrir þessar staðreyndir ætla sömu stjórnmálamenn að halda áfram á sömu braut.

Viðhorf til Íslands eru neikvæð og þau litlu lán sem okkur standa til boða eru á mjög háum vöxtum, vegna þess háa áhættuálags sem við búum við. Það liggur fyrir að ef við breytum um stefnu munu viðhorf til okkar breytast, það hefur komið fram hjá m.a. Finnum og Svíum um aðstoð og lán á hagstæðari vöxtum.

Fyrri bylgjan hitti hið erlenda lánsfé sem hér var og við töpuðum 80 milljörðum dollara af erlendu lánsfé. Bylgjan í haust lendir milliliðalaust á íslensku atvinnulífi og heimilum. Lykilfyrirtæki munu falla og algjört öngþveiti myndast og við blasir 10 - 15 ára lægð og fátækt.

Það hefur ekki verið fjölgun starfa í byggingariðnaði, sjávarútvegi eða landbúnaði, jafnvel frekar fækkun í sumum þessara greina þá helst í fiskvinnslu. Fjölgun atvinnutækifæra hefur átt sér stað í sprota- og tæknifyrirtækjum og þar eru möguleikar til þess að fjölga störfum og auka útflutningstekjur. Ungt íslenskt fólk sem hefur leitað sér menntunar sér ekki atvinnutækifæri í landbúnaði eða fiskvinnslu.

Í þessu sambandi má t.d. benda á samsetningu félagsmanna Rafiðnaðarsambands Íslands. Árið 1990 voru félagsmenn um 2000, um 600 unnu í byggingariðnaði og svipaður fjöldi í útgerð, fiskvinnslu og landbúnaði, 300 í orkugeiranum og um 500 tæknigeiranum. Í dag eru rafiðnaðarmenn tæplega 7000. Sami fjöldi vinnur í öllum geirum og árið 1990 utan tæknigeirans, þar vinna í dag 5000 rafiðnaðarmenn. Öll fjölgunin hefur verið þar. Þetta eru lykilmenn tæknifyrirtækjanna og er sá hópur sem hefur mestu möguleikanna til þess að leita sér að störfum annarsstaðar.

Forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem hafa byggst upp á undanförnum árum eins og CCP, Marel, Össur og Actavis segja að krónan hafi reynst þeim mjög illa. Krónan sé ástæða þess að þau eru með mun fleiri starfsmenn erlendis en hér heima. Þau sjá ekki sína framtíð hér, þó svo þau vildu svo gjarnan. Ef haldið verði áfram á þessari braut verða þau að flytja höfuðstöðvar sína frá Íslandi.

Ef Evran hefði verið til staðar þá hefðu þessi fyrirtæki verið byggð næstum alfarið hér á landi og væru með mun fleiri starfsmenn hér heima, jafnvel á þriðja þúsund fleiri. Það hefði skapað afleiður í öðrum fyrirtækjum með enn fleiri störfum.

Það er með hreinum ólíkindum hvar minn gamli flokkur stendur gagnvart þessum staðreyndum og er orðin eins steingerfingur sem rökstyður sín við'horf með úreltum klisjum og upphrópunum.
Það er alrangt sem stjórnmálamenn halda fram að veik krónan sé góð til uppbyggingar, segja forsvarsmenn tæknifyrirtækjanna. Það á einvörðungu við sjávarútveginn. Veik króna leiðir til veikra fyrirtækja sem falla sama dag og krónan styrktist. Íslensk stjórnvöld eru að brjóta lög og reglur EES samningsins með gjaldeyrishaftastefnu og þolinmæði EES er þrotin.

Svíar taka við forystu ESB í júlí og þeir hafi gefið það út að ef við viljum viðræður þá muni þeir aðstoða okkur við það, en við verðum að fara fram á viðræður fyrir 15. júní næstk. En það virðist vera svo að stjórnmálamenn ætli að leiða yfir Ísland enn meiri hamfarir.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jóhannes:
Þú ert ekki einn um að vera orðinn fyrrverandi sjálfstæðismaður. Það er grátlegt að sjá hvernig flokkurinn er að þróast og hversu hugmyndafræðilega laskaður hann ætlar að mæta til kosninga. Hann stillir sér upp sem helsti andstæðingur ESB aðildar en hefur engar raunhæfar tillögur í gjaldmiðils- og peningamálum með krónuna. Ég tek hugmynd Illuga um einhliða upptöku Evru ekki með, það er margbúið að skjóta þessa leið í kaf.

En valkostirnir eru skýrir. Fyrir þá sem telja að aðildarviðræður við ESB með það að markmiði að ná samningum og taka upp Evru sé stærsta pólitíska kosningamálið og mikilvægasta hagsmunamál fyrir framtíð Íslands hafa í raun bara einn kost: Kjósa Samfylkinguna, með kostum hennar og göllum.

ESB sinnar innan Sjálfstæðisflokksins eiga að gefa honum frí. Hann verður utan stjórnar á næsta kjörtímabili og þarf tíma til að taka til í eigin ranni. Tíminn einn mun leiða í ljóst hvort hann verður aftur valkostur fyrir fyrrverandi sjálfstæðismenn.

Nafnlaus sagði...

Þetta er algerlega rétt – góður pistill.

Það er annar vínkill á þessu máli sem er sú glórulausa afstaða sem LÍU mafían hefur tekið gegn ESB og náð að svína inn á Sjálfstæðisflokkinn.

Þegar ein atvinnustétt horfir algerlega framhjá framtíðar hagsmuni þjóðar og annara atvinnugreina en sinnar eigin er ekki von á góðu. Það kann vel að vera að hægt sé að lifa með ástandi eins og það er núna ef búið er að hanna utan um fyrirtækin sértækar aðgerðir fyrir viðkomandi fyrirtæki eins og raunin er með sjálvarútveg í geng um tíðina og enn, afurðalán, afslátt frá tekjuskatti, leyfi til að demba starfsmönnum á atvinnuleysisbætur með engum fyrirvara, gjöf á aðgegni að auðlyndum og trygging að þar komist ekki aðrir að og sv. framav. Svo ekki sé nú talað um gengiskráningu fyrri tíma.

Þröngsýnn áróður um að sjálfstæði sé falinn í rétti til að úthluta aðgengi að fiski og hafa sinn gjladmiðil er síðan til að toppa þetta allt.

Þessi staða er óþolandi, afstaða Sjálfstæðisflokks og bandamannsins LÍU er bein árás á flest önnur fyrirtæki í landinu og verið er að kalla á aðgerðir.

Ég er á sama stað og þú og leita nú að nýjum vetvangi fyrir mínar skoðanir.

Nafnlaus sagði...

Sjávarútvegurinn er þegar komin með evru. Þeirra tekjur eru að mestu í evrum svo þeim er slétt sama þó aðrar atvinugreinar þurfi að burðast með krónuna.

Nafnlaus sagði...

Á maður ekki að kjósa Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að það er næsta hrun handan við hornið og þeir munu ekki geta gert neitt við því. Munu sjálfstæðismenn ekki reyna að koma næsta hruni á hina flokkana þótt þeir beri alla ábyrgð á því?